Kynningarfundur K-S-R
Kynningarfundur K-S-R

Íþróttir

Ellefu titlar til sundfólks ÍRB á Íslandsmótinu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 14. nóvember 2024 kl. 10:46

Ellefu titlar til sundfólks ÍRB á Íslandsmótinu

Guðmundur Leo og Eva Margrét í sérflokki

Sundfólkið úr ÍRB náði framúrskarandi árangri á Íslandsmótinu í 25 metra laug sem fram fór um helgina. Alls vann sundfólkið til ellefu Íslandsmeistaratitla og fremst í flokki fóru þau Guðmundur Leo Rafnsson og Eva Margrét Falsdóttir en þau voru sigursælustu sundmenn meistaramótsins. Að loknu Íslandsmóti á ÍRB sex fulltrúa í landsliðsverkefnum Sundsambands Íslands (SSÍ).

Alls unnu sundmenn ÍRB til 38 verðlauna á mótinu; ellefu gull-, fimmtán silfur- og tólf bronsverðlaun, og sem heild stóð liðið sig mjög vel þar sem þeir yngri og óreyndari voru að einnig að vinna stóra persónulega sigra með bætingu eða með því að komast í úrslit.

Að loknu Íslandsmóti á ÍRB einn fulltrúa í landsliði SSÍ á heimsmeistaramótinu, Guðmund Leo Rafnsson. Jafnframt á ÍRB fjóra fulltrúa í landsliði SSÍ á Norðurlandameistaramótinu en það eru þau Eva Margrét Falsdóttir, Fannar Snævar Hauksson, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Denas Kazulis. Þá náði Daði Rafn Falsson lágmörkum inn í landsliðshóp SSÍ.

SSS
SSS

Eva Margrét Falsdóttir var í algjörum sérflokki í fjórsundunum og bringusundinu en hún vann alls til sex Íslandsmeistaratitla í einstaklingsflokki kvenna. Eva Margrét sigraði í 100, 200 og 400 metra fjórsundi ásamt því að sigra í 50, 100 og 200 metra bringusundi sem gerði hana að sigursælustu konu Íslandsmótsins. Með þessum flotta árangri tryggði hún sér þátttökurétt á Norðurlandamótinu í desember.

Guðmundur Leo Rafnsson var einnig í algjörum sérflokki í sínum greinum í baksundinu ásamt 100 metra skriðsundi en hann vann alls til fjögurra Íslandsmeistaratitla í einstaklingsflokki karla. Guðmundur Leo sigraði í 50, 100 og 200 metra baksundi ásamt 100 metra skriðsundi sem gerði hann að sigursælasta karli Íslandsmótsins. Jafnframt sló hann tíu ára gamalt Íslandsmet í unglingaflokki í 50 metra baksundinu. Guðmundur er enn í unglingaflokki en í undanrásum er keppt til úrslita í þeim flokki og þar varð hann einnig fjórfaldur meistari. Með þessum flotta árangri tryggði hann sér þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu í desember.

Boðsundsveit kenna varð Íslandsmeistari í 4 x 50 m fjórsundi

Í sveitinni voru þær: Ástrós Lovísa Hauksdóttir, Eva Margrét Falsdóttir, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Sunneva Bermann Ásbjörnsdóttir.

Aðrir sundmenn sem unnu til titla í unglingaflokki:

Ástrós Lovísa Hauksdóttir unglingameistari í 50 m baksundi

Nikolai Leo Jónsson unglingameistari í 50 m bringusundi

Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir unglingameistari í 50 m bringusundi

Sundmenn ÍRB í landsliðsverkefnum:

Guðmundur Leo Rafnsson á HM og Eva Margrét Falsdóttir, Fannar Snævar Hauksson, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir og Denas Kazulis á NM.

Aðrir sundmenn ÍRB sem unnu til verðlauna:

Daði Rafn Falsson: Silfur í 400 m fjórsundi, og brons í 200 m baksundi og 200 m fjórsundi

Fannar Snævar Hauksson: Silfur í 100 m fjórsundi og 50 m baksundi og brons í 50 m flugsundi

Guðmundur Karl Karlsson: Silfur í 50 m flugsundi

Denas Kazulis: Brons í 50 m skriðsundi

Árni Þór Pálmason: Silfur í 800 m skriðsundi

Elísabet Arnoddsdóttir: Brons í 50 m flugsundi

Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir: Brons í 400 m fjórsundi og 50 m bringusundi

Katla María Brynjarsdóttir: Brons í 1.500 m skriðsundi

Ástrós Lovísa Hauksdóttir: Silfur í 50, 100 og 200 m baksundi

Eydís Ósk Kolbeinsdóttir: Silfur í 50 m skriðsundi og 50 m flugsundi og brons í 100 m flugsundi.