Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Breytingarnar eru þegar til staðar
Sunnudagur 1. maí 2022 kl. 16:23

Breytingarnar eru þegar til staðar

Á liðnu kjörtímabili hefur stjórn Reykjaneshafnar staðið einhuga að baki hafnarstjóra við að endurskipuleggja starf hafnarinnar. Endurskipulagningin nær ekki síst til þess að ná utanum um skuldir, sem voru miklar og tilkomnar á því tímabili í sögu bæjarins sem verður lengi minnst fyrir óreiðu, sukk og þekkingarleysi á rekstri bæjarfélaga. Á þeim árum þegar íhaldið eitt fór með völd jukust skuldir bæjarins margfalt. Þegar bæjarsjóður var orðinn ofur skuldsettur og lánalínur lokaðar var B-hlutastofnunum bæjarins att á forræðið og skuldsettar upp fyrir rjáfur. Nú átta árum eftir að bæjarbúar kusu þá óstjórn frá völdum hefur sá árangur náðst að skuldir Reykjaneshafnar eru vel innan þeirra marka sem rekstur hafnarinnar ræður við. Þetta skref náðist með samstarfi stjórnar hafnarinnar og meirihluta bæjarstjórnar.

Önnur ekki síður mikilvæg tímamót voru þegar stjórn Reykjaneshafnar lauk við að skrá niður tillögur sínar að framtíðarsýn hafna bæjarins. Það er í raun áskorun að Reykjanesbær sé að reka fjórar hafnir og í raun eru þær fimm. Sú fimmta og minnsta er í Höfnum sem reyndar hefur verið aflögð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með skýra sýn á hvert hlutverk hver höfn hefur innan bæjarins verður allt starf markvissara. Helguvíkurhöfn er aðal stórskipahöfn bæjarins. Þar er landað nær öllu flugvélaeldsneyti sem notað er á landinu auk sements og annars þungaflutnings. Smábátahöfnin í Gróf verður áfram athvarf smábátaútgerðar og aðstaða fyrir smærri skemmtibáta. Í framtíðarsýn stjórnar hafnarinnar er gert ráð fyrir að bætt verði aðstaða minni skemmtiferða skipa og ferðatengdrar þjónustu í Keflavíkurhöfn. Njarðvíkurhöfn verður aðal löndunar aðstaða fyrir fiskiskip auk þess að styðja við áform Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur um kaup á þurrkví sem er metnaðarfull og nauðsynleg framkvæmd til framfara.

Því samfara verður byggður varnargarður og viðlegukantur. En nú hafa þau ánægjulegu tíðindi borist eftir margra mánaða viðræður milli Reykjaneshafnar og Landhelgisgæslunnar að dómsmálaráðherra hafi samþykkt tillögu LHG um að varðskipið Þór muni eiga heimahöfn í Reykjanesbæ sem verður vonandi fyrsta skrefið að flutningi skipakosts Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

Þessi áform Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur eru eitt mest spennandi verkefni er lúta að atvinnumálum í Reykjanesbæ í langan tíma. Stjórn Reykjaneshafnar stendur einhuga að baki SN í þeim áformum.

Það er einnig ljóst að Helguvíkursvæðið er enn álitlegur kostur þeirra er leita að hentugu svæði fyrir ýmsan rekstur sem er háður hafnsækinni þjónustu. Ein mest spennandi hugmyndin lýtur að vetnisframleiðslu í Helguvík en samfara orkuskiptum í samgöngum má reikna með að flugvélar framtíðar noti vetni sem orkugjafa.
Það er bjart yfir rekstri hafna Reykjanesbæjar. Það er skoðun mín að hafnsækin starfsemi og atvinnuuppbygging í bænum séu nátengd. Það er ekki þörf á hástemdum yfirlýsingum um breytingar í bænum okkar, þær hafa þegar orðið. Bein leið á stóran hlut að máli hvernig til hefur tekist!

Sameinumst að halda áfram á sömu braut! X-Y

Kristján Jóhannsson

Situr í stjórn Reykjaneshafnar og skipar 7. sæti á lista Beinnar leiðar í bæjarstjórnarkosningum 14. maí.