Mannlíf

Kom af Ströndum til að læra smíðar en endaði í slökkviliðinu
Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 7. september 2024 kl. 06:16

Kom af Ströndum til að læra smíðar en endaði í slökkviliðinu

Eyþór Rúnar Þórarinsson er nýráðinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja.

Eyþór Rúnar Þórarinsson var í sumar ráðinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. Það var mat stjórnar BS að hann hafi verið hæfasti umsækjandinn um starfið. Eyþór Rúnar hefur unnið hjá Brunavörnum Suðurnesja í 25 ár og hefur þekkingu, skilning og reynslu á bæði brunamálum og sjúkraflutningum. Hann hefur reynslu af rekstri og áætlanagerð m.a. sem þjálfunarstjóri þar sem hann hélt utan um þjálfunaráætlun og kostnaðaráætlun henni tengdri. Þá hefur Eyþór komið að greinargerðum og kostnaðaráætlunum tengdum m.a. eldsumbrotum auk þess að vera með reynslu af því að starfa í kröfuhörðu umhverfi og hefur sýnt fram á hæfni til að taka ákvarðanir undir álagi. Eyþór Rúnar er löggiltur slökkviliðsmaður frá 2001, menntaður í slökkviliðsfræðum, er með kennsluréttindi frá Sjúkraflutningaskólanum, er leiðbeinandi frá Rauða Krossinum og hefur þjálfað og kennt sjúkraflutningafólki auk slökkviliðsfólks innan BS og hjá öðrum liðum. Víkurfréttir tóku hús á Eyþóri á dögunum og lögðu fyrir hann nokkrar spurningar um nýja starfið og sýn hans á framtíð Brunavarna Suðurnesja.

Hvað dró þig í slökkviliðið á sínum tíma?

„Ég er fæddur og uppalinn á Ströndum í Hrútafirði og ól minn ungdóm þar. Ef það var ekki búskapurinn þá var þetta að heilla mig svolítið. Ég kem hérna líklega 1997 eða 1998 og fer að læra smíðar. Þá kynntist ég félagsskapnum í kringum þetta og þetta heillaði mig svolítið. Ég var að smíða með einum góðum aðila sem var hérna að vinna við þetta og þetta heillaði mig. Þannig að ég ákvað að sækja um. Árið 1999 fer ég í varaliðið og byrja minn feril.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Slökkvilið að störfum þegar aðstaða Íslenska gámafélagsins brann í Helguvík vorðið 2022. VF/Hilmar Bragi

Það er svolítið um það að slökkviliðsmenn hafa verið að smíða meðfram sínum vöktum.

„Ég held að við séum, eða vorum þá, eiginlega allir iðnaðarmenn. Það var í lögum að þú værir iðnaðarmaður. Þegar ég byrja þá eru þetta eiginlega allt iðnaðarmenn eða menn með verkkunnáttu sem unnu hér og það hentaði slökkviliðsmanninum vel. Vissulega erum við að sjá í dag miklu breiðari flóru af mannskap með nýjum kynslóðum. Við erum að sjá alla flóruna koma inn í slökkviliðið, sem er bara mjög gott. Áður fyrr var þetta bara mjög algengt og þá voru yfirleitt smiðir sem þóttu henta í þetta starf.“

Og þetta hefur strax heillað þig?

„Já, ég var strax mjög spenntur fyrir slökkviliðinu. Svo fylgdi með að þetta varð atvinnulið 1988. Þá eru teknar upp fastar vaktir hérna. Sjúkrabíllinn er líka inni í þessu. Við erum það lítil eining hérna þannig að við getum ekki verið með mannskapinn tvískiptan þannig að þú sinnir bara slökkviliði eða sjúkrabíl. Við verðum að sinna báðum þáttum. Ég hafði svolitlar áhyggjur af sjúkrabílnum fyrst. Hvort þetta væri eitthvað sem ég gæti en það small líka bara strax. Þetta varð bara hugsjón hjá manni.“

Það eru oft viðkvæmustu stundirnar hjá fólki þegar sjúkrabíllinn þarf að mæta til þess.

„Það er oft sagt að við erum við bestu og verstu stundirnar. Mannskapurinn fer í gegnum alla flóruna.“

Hvað hefur heillað þig mest við þetta starf?

„Það er fjölbreytileikinn í starfinu. Þú veist ekkert hvernig dagurinn er þegar þú mætir í vinnu. Það eru ákveðin plön. Við græjum okkur og fáum hlutverk þegar við erum á vöktum. Hvað þú átt að gera í dag. Á hvaða bíl þú ert. Þú tékkar búnaðinn. Og að hann og allir hlutir séu í lagi. Svo ertu bara með autt blað. Svo er það bara hvaða útkall kemur. Það held ég að sé þessi fjölbreytileiki og gríðarlega góður félagsskapur. Þetta er mjög samhentur hópur og ég held að svoleiðis sé það í mörgum slökkviliðum. Við erum mikið saman. Þetta er fjölskylda. Við erum á næturvöktum og maður hittir þessa vinnufélaga sína mjög mikið miðað við önnur störf.“

Þú byrjar í þessu starfi fyrir 25 árum síðan og síðan þá hefur orðið gríðarleg breyting á samfélaginu á Suðurnesjum.

„Já, það er óhætt að segja það. Ég kem hérna árið 1999 í varaliðið. Ég er heppinn að við erum stór árgangur sem komum þá. Ég byrja í raun störf hérna árið 2000 í aðalstarfi. Þá í sumarafleysingum og ílengdist í starfi. Þá erum við niðri á Hringbraut í gömlu slökkvistöðinni. Það er fyrsta stóra breytingin. Þar vorum við í frekar lítilli, gamalli slökkvistöð og vorum þrír á vakt þegar ég byrja og alltaf einn á bakvakt. Samfélagið hefur gjörsamlega tútnað út. Ég upplifði herinn sem dæmi. Samfélagið er bara búið að stækka gríðarlega, öll þjónusta og flugstöðin. Hún tútnar út, þannig að það rosalega margt búið að breytast. Í dag erum við sjö á vakt. Þannig að það er mikið búið að breytast hjá okkur.“

Þegar Eyþór hóf störf hjá Brunavörnum Suðurnesja var hann ekki viss um að hann myndi ráða við það að vera á sjúkrabílum. Hann var fljótur að losa sig við þann ótta. VF/Hilmar Bragi

Hverjar eru áskoranirnar í dag fyrir nýjan slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja?

„Áskoranir eru miklar. Ef við byrjum á þessum hefðbundnu slökkviliðsstörfum þá erum við með forvarnasvið og erum að fylgja eftir ört stækkandi samfélagi. Við þurfum að fylgjast með því að það sé allt í góðu þar. Það þarf að vakta stór fyrirtæki eins og flugstöðina. Það þarf að vakta þetta og þær stöðugu breytingar sem þar verða. Fjöldi útkalla eykst með fólksfjölgun. Og sjúkrabíllinn er því tengdur. Kröfurnar eru orðnar miklu meiri í sjúkraflutningum en var. Þær hafa snar aukist. Svo, eins og flest vita, erum við komin inn í eldgosatímabil. Það er kannski fyrir utan hefðbundin störf slökkviliðsins mikil áskorun. Og áskorun fyrir slökkviliðsstjóra að kljást við það ásamt öðrum viðbragðsaðilum segi ég því við erum ekki ein í þessu.“

Síðustu árin er það tilfinningin að brunaútköllum hafi hlutfallslega fækkað en svo er svæðið að stækka á móti. Eldvarnir hafa verið að skipta gríðarlega miklu máli.

„Þær skipta höfuðmáli. Þetta er alveg rétt hjá þér. Útköllum hefur fækkað. Það er margt sem helst í hendur. Það er öflugt forvarnasvið. Við náum að fyrirbyggja. Það er verið að vakta þetta dæmi. Byggingarreglugerðin tekur á þessum málum líka. Það er verið að fyrirbyggja og í stærri framkvæmdum þarf að skila inn brunahönnun. Það eru margar hendur sem koma að þessu markmiði. Blessunarlega hefur útköllum fækkað, þó við fáum alltaf inni á milli bæði minniháttar og svo stærri útköll.“

Svo urðu eins og síðasta vetur með viku millibili miklir brunar í skipum í höfnum hér á svæðinu. Þetta eru mjög erfið útköll fyrir slökkviliðsmenn.

„Þetta eru líklega erfiðustu útköllin sem við slökkviliðsmenn þurfum að eiga við. Sérstaklega reykkafarar. Það er rétt sem þú segir, við fengum tímabil síðasta vetur sem var mjög slæmt og erfið útköll í skip. Hvert ofan í annað. Þetta er náttúrlega mjög krefjandi. Þú ert að fara ofan í mjög þröng rými. Það er erfitt að komast að eldinum, það er erfitt að kæla og mikill hiti. Þetta er klárlega ein af áskorunum og eitt það erfiðasta sem slökkviliðsmaður á við.“

Brunar í skipum eru erfiðustu verkefni sem slökkviliðsmenn og þá sérstaklega reykkafarar takast á við. VF/Hilmar Bragi

Þið æfið mikið en er raunveruleikinn öðruvísi?

„Já, við höfum oft sagt þetta. Viðskiptavinir og kúnnahópur okkar les ekki sömu námsbækur og við. Það má orða það þannig. Við reynum að læra hluti og okkur eru kenndir hlutir. Oft er kennt út frá reynslu líka. Margt af þessu hagar sér ekki þannig eins og námsbókin sagði. Þá förum við í reynsluna og reynum að líkja eftir hvað getur gerst og æfum það. Oft er það tekið fyrir eftir útköll ef við sjáum að það er eitthvað sem við getum gert betur. Hvort sem það er tengt búnaði eða þjálfun og þá er tekið á því strax. Það er rýnt hvað við hefðum getað gert betur. Og ef við sjáum að það er eitthvað okkar megin sem við ráðum ekki við þá æfum við það. Það er mikið æft. Við leggjum mikið upp úr því.“

Menntun ykkar er mikil. Það eru gerðar miklar kröfur á ykkur. Ég sá það þegar ég las yfir þegar það var tilkynnt að þú hefðir verið valinn í þetta starf að þú ert búinn að fara í gegnum mikinn skóla á þessum tíma.

„Já, þetta er nokkuð sérstök starfsgrein ef við tökum slökkviliðið sem dæmi. Þú getur í raun ekki ákveðið að læra slökkviliðsfræði. Þú ferð ekki inn af götunni og lærir og ert svo tilbúinn fyrir slökkvilið. Þetta er ekki alveg svoleiðis, heldur þarftu að ráða þig inn í slökkviliðin. Þá kemstu inn í þennan pakka að læra og slökkviliðið stýrir þér svolítið. Við erum með kennara annarsstaðar frá og svo eru kennarar innan slökkviliðs. En það rétta er að þetta eru gríðarlega mörg námskeið. Mörg stutt og mörg löng. Þegar maður les yfir línuna, þá er mikill tími sem hefur farið í þetta. Svo er endurmenntun, það er ekki nóg að læra þetta einu sinni. Við þurfum að halda okkur við.“

Þegar þú ákveður að sækja um þetta starf hvað var að reka þig áfram í það, hvaða áskorun ertu að næla þér í þarna?

„Ég hafði svo sem ekkert leitt hugann þannig lagað að þessu starfi slökkviliðsstjóra. Ég var síðast, áður en ég fór í þetta starf, starfandi varðstjóri á útkallssviði og búinn að vera hérna á gólfinu í öll mín ár. Og gríðarlega ánægður þar. Maður var aðeins farinn að horfa í þetta að fara aðeins lengra, að fara hinum megin. Fara úr asanum og í dagvinnu. Ég var búinn að vera í vaktavinnu eiginlega alla mína ævi. Það sem kitlaði mann mest var að koma að framþróun. Það eru mjög spennandi tímar framundan á Suðurnesjum yfir höfuð og ört stækkandi samfélag. Slökkviliðið er á góðum stað í góðu húsnæði. Við erum með góðan mannskap og vel tækjum búið lið. Það eru spennandi tímar að fá að stýra framtíðinni hjá Brunavörnum Suðurnesja. Stýra liðinu inn í þessa framtíð sem er að koma og það var kannski það sem kitlaði mig.

Tækjabúnaðurinn er alltaf að breytast og þróast. Nýjasta tækni er fljót að ryðja sér til rúms í þessum fræðum.

„Já, það eru örar breytingar. Það eru örar breytingar í því hvernig bílar eru uppsettir. Dælur, aukabúnaður og froða. Svo er það tæknin. Nú eru drónar farnir að nýtast okkur í slökkvistarfi. Að fá yfirlitsmyndir og streyma til stjórnenda. Allskonar slökkvimáttur og minni bílar. Það eru örar breytingar slökkviliðs megin. Það er það sama sjúkrabíla megin. Þetta er allt í tækninni. Það eru spennandi hlutir að gerast.“

Síðustu misseri hafa svokallaðir buggy-bílar verið að ryðja sér til rúms hjá viðbragðsaðilum á Suðurnesjum. Þeir hafa orðið meira áberandi eftir að eldgosin hófust í Fagradalsfjalli árið 2021. Björgunarsveitirnar eru flestar komnar með slík tæki, lögregla og almannavarnir eru með sína buggy-bíla og þá eru slökkviliðin að taka bílana í sína þjónustu. Þannig eru Brunavarnir Suðurnesja komnar með buggy-bíl sem er útbúinn með slökkvibúnaði. Bíllinn er hugsaður til að fara í gróðurelda þar sem erfitt er að koma að stærri bílum. Einnig má nota bílinn til að sækja slasaða á gönguleiðir úr alfaraleið.

Ég mætti í útkall hjá ykkur á dögunum. Þar sá maður menn saga pínulítil göt og stinga stút inn í veggi og þök og það sprautaðist froða þarna út um allar glufur eins og enginn væri morgundagurinn.

„Þetta er það sem við fengum með nýja dælubílnum okkar sem er reyndar að verða fjögurra ára, þetta er fljótt að líða. Þá tókum við upp þetta „One/Seven-kerfi“ sem er vatn og froða og margfaldar froðuna. Þetta býður upp á þennan möguleika að við getum í raun borað göt í gegnum þök eða veggi og sett stútinn inn og sprautað þar sem við hefðum þurft að rífa meira áður fyrr eða hreinlega ekki komist að. Þetta er klárlega einn þáttur í þróuninni.“

Frá brunaútkalli í Garði í síðustu viku. VF/Hilmar Bragi

Hvað með endurnýjun á tækjabúnaði. Er nýr körfubíll á leiðinni og eitthvað fleira?

„Í þessum töluðu orðum er útboð í gangi á nýjum stigabíl fyrir Brunavarnir Suðurnesja. Við hlökkum mikið til. Við kaupum bílinn sem við erum með núna notaðan en hann er framleiddur 1995. Hann er bara kominn á tíma. Við erum farin að vantreysta honum. Hann gæti bilað. Við viljum það alls ekki með svona björgunartæki. Við fengum heimild til að fara í útboð á stigabíl á þessu ári. Vonandi skýrist afhendingartími á þeim bíl fyrir áramót. Þetta er ein af stóru fjárfestingunum sem eru framundan hjá okkur. Það er rétt.“

Í þéttingu byggðar þá eru húsin svolítið að hækka.

„Í dag erum við með 32 metra körfubíl. Við völdum þá leið að halda okkur við þá hæð. Frekar að stýra stærri byggingum inni í brunahönnun. Ef við förum í stærri bíl þá verða þeir bæði dýrari og erfiðaðri í akstri og notkun. Við völdum þessa leið að fara í lipran bíl sem hentar inn í bæði þröngar aðstæður og er snöggur að vinna. Þetta er leiðin sem við völdum.“

Og þið eruð komin með nýjan búnað fyrir reykköfunaræfingar?

„Já, við fjárfestum í fyrra  í sýndarveruleikabúnaði sem heitir „Flame“. Þar getum við sett upp allskonar tilvik. Slökkviliðsmaðurinn er með þrívíddargleraugu og fer inn í þennan heim og leysir verkefnið. Hann er með brunaslöngu og sér  eins og hann sé að sprauta. Hann er með hitamyndavél og við getum sett hann í hitavesti. Hann er í eldgalla og vesti, þannig að hann skynjar hitann sem hann er að labba inn í. Þetta er gjörbylting og ef það er dauður tími á vaktinni þá getum við ákveðið að taka fyrir einn bílbruna eða húsbruna og klárað það fljótt án þess að óhreinka okkur.“

Þú nefnir bílbruna. Nú fjölgar rafmagnsbílum og þar verða öðruvísi brunar en í jarðefnaeldsneytisbílum.

„Klárlega. Þetta er ákveðin áskorun fyrir okkur sem við vissum af og höfum undirbúið okkur fyrir eins og flest slökkvilið. Við höfum verið vakandi yfir þessu. Þetta eru aðrar hættur. Það geta myndast hættuleg efni í reyknum. Við þurfum meira vatnsmagn ef eldurinn kemst í rafhlöðuna. Jafnvel gætum við þurft að setja hann í sérstakan gám og í raun bara fylla hann af vatni og flytja hann á öruggan stað. Það eru miklar hættur eða áskoranir með rafmagnsbíla.“

Strætisvagn brennur í Reykjanesbæ og slökkvilð Brunavarna Suðurnesja mætt á vetvang. VF/pket

Þið eruð búnir að vera í miklu samstarfi meðal annars við Slökkviliðið í Grindavík í þessum náttúruhamförum og gróðureldum og því sem fylgir.

„Þessi nýja ógn sem við töluðum um í eldgosum hafa Grindvíkingar lent einna verst í því. Við höfum átt mikið og gott samstarf við slökkviliðið í Grindavík. Þeir eru komnir með alveg gríðarlega þekkingu á því að kljást við þetta og við höfum verið að aðstoða þá. Nú eru þessi nýjustu gos að færa sig yfir á okkar svæði. Þá koma þeir inn og hjálpa okkur, þannig að samstarfið er mikið og gott. Það verður bara að vera á milli slökkviliða í landinu. Það er í raun ekkert slökkvilið sem ræður við allar hættur á sínu svæði. Það þarf alltaf að fá utanaðkomandi aðstoð ef eitthvað stórt gerist.“

Þessi nýja slökkvistöð sem flutt var inn í fyrir fáeinum árum síðar hefur gjörbreytt allri umgjörð um ykkar starfsemi. Hún hefur verið mikið notuð núna. Hér eru almannavarnir með stjórnstöð og eitthvað fleira.

„Já, hún er búin að gjörbylta allri aðstöðu, bæði fyrir starfsfólkið og við komum búnaðinum inn og þetta hefur tryggt það. Þegar hún var byggð var hönnuð  aðgerðarstjórn hér á 2. hæðinni. Ég held að mönnum hafi ekki órað fyrir að hún yrði notuð eins og búið er að gera. Þetta var nú aðallega hugsað fyrir óveðursútköll og vonandi bara flugslysaæfingar. Eftir 10. nóvember þá er búin að vera liggur við dagleg viðvera af einhverjum viðbragðsaðila, lögreglu, almannavörnum eða okkur og björgunarsveitum. Þegar mest var, var stöðugt hátt í tuttugu manns sem komu að þarna.“

Ný slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja og bílaflotinn á vígsludegi stöðvarinnar. VF/Hilmar Bragi

Svona að endingu, hversu stórt er liðið þitt og hvernig er það skipað? Ég hef séð að konum er að fjölga í faginu.

„Þetta er 54 stöðugildi í aðalstarfi og hlutastarfi. Við erum hátt í þrjátíu sem erum með fasta atvinnu af þessu. Konum hefur farið fjölgandi sem er fagnaðarefni. Það er ekki langt síðan við vorum bara með eina konu í vinnu hérna. Þær eru orðnar sjö til átta í dag. Við sjáum þetta svolítið bæði í sjúkraflutningaskólanum og brunamálaskólanum að það er alltaf að verða hærri prósenta af kvenfólki í bekkjum. Sem er mikið fagnaðar efni þar sem þetta er klárlega vinnustaður fyrir bæði kynin.“

Þetta hentar körlum og konum?

„Alveg. Við sjáum engan mun í starfskrafti hvort það er karl eða kona. Þetta er gott fyrir fjölbreytileikann.“