Mannlíf

Erum að vinna að bættu lífi fólks
Ragnheiður og Guðjón Ingi með Lubba á milli sín á heimili þeirra í París.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 7. september 2024 kl. 06:42

Erum að vinna að bættu lífi fólks

Ragnheiður Elín Árnadóttir er í essinu sínu hjá OECD í París. Er að upplifa drauminn. Ísland með sterka ímynd í útlöndum. Tuttugu ár í pólitíkinni góð reynsla.

Keflvíkingurinn Ragnheiður Elín Árnadóttir kann því ekki illa að geta gengið tvær mínútur frá heimili sínu í París á matarmarkaðinn þar sem hún kaupir sér girnilegar nautasteikur, ferskan fisk, grænmeti, osta og fleira beint frá býli, og endar innkaupaferðina oft á því að bæta við blómvendi til að hafa í stofunni. Ragnheiður, Guðjón Ingi Guðjónsson, maður hennar og synirnir Helgi Matthías og Árni Þór að ógleymdum hundinum Lubba, fluttu til Parísar fyrir þremur árum þegar fyrrum ráðherrann og pólitíkus til tuttugu ára fékk starf hjá hinni merku stofnun, OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, þar sem hún stýrir einni af hennar undirstofnunum sem heitir OECD Development Centre. Ritstjóri Víkurfrétta heimsótti þau hjón til Parísar í vor og forvitnaðist um líf og fjör og nýtt starf Röggu í borginni frægu.

Gömul og merk stofnun

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„OECD er skammstöfun á ensku fyrir Organisation for Economic Cooperation and Development og á íslensku heitir hún Efnahags- og framfarastofnunin. Þetta er rúmlega 60 ára gömul stofnun og ég veiti einni undirstofnun hennar forstöðu, OECD Development Centre, sem væri hægt að þýða á íslensku sem Þróunarmiðstöð OECD.

OECD hefur 38 aðildarríki  og vinnur að stefnumótun, rannsóknum og efnahagsúttektum  með það að markmiði að stuðla að og koma á umbótum  í stefnumótun á stjórnsýslu á öllum sviðum, skattkerfi, menntun, nýsköpun, jafnrétti og öðru sem samfélagið varðar. Ég er að gera nákvæmlega það sama í minni undirstofnun, nema með víðtækara sjónarhorn þar sem aðildarríki okkar eru sambland af OECD ríkjum og þróunarlöndum. Í Development Centre eru 54 ríki, þar af 29 lönd frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku sem ekki eru OECD meðlimir. Þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt. Við erum í raun að vinna með flest allt sem snertir líf fólks.“

Hver er tilurð samtakanna, hvernig urðu þau til?

„OECD var stofnað í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar þegar verið var að hugsa ýmsa hluti upp á nýtt eftir stríðið. Ísland er meðal stofnaðila en þarna voru komin saman ríki sem vildu passa upp á grunngildin, frjáls viðskipti, lýðræði, efnahagslega þróun og vinna að leiðum til að setja mörk og gæðastaðla auk þess að fá þjóðir til þess að vinna saman að slíkum framfaramálum.

Stofnunin sem ég veiti forstöðu er stofnuð ári síðar að undirlagi John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseta sem vildi búa til vettvang fyrir þróuð ríki og þróunarlönd til þess að koma saman og ræða þessi sömu mál og OECD er að gera, nema meira út frá veruleika þróunarlanda. Þess vegna erum við svona eins og lítið OECD að vinna að sömu málunum en með fókusinn meira út frá stöðu þróunarlanda.“

Ragnheiður segir að stofnunin sé að mestu leyti í stefnumótum, að rýna umhverfismál, jafnréttismál, félagslega kerfið og fleira. „Ríkin læra hvort af öðru og með því er markmiðið að bæta og samræma stefnumótun um allan heim.“

Aðspurð um hvernig tengingu sé náð í þróunarlöndunum segir Ragnheiður að stofnunin sé með mjög sterkt net.

„Stjórn stofnunarinnar er skipuð fulltrúum allra 54 aðildarríkjanna þar sem allir hafa jafnan atkvæðisrétt, óháð þjóðartekjum eða fólksfjölda. Síðan vinnum við einnig með öðrum alþjóðastofnunum og ríkjasamtökum, eins og Afríkusambandinu (African Union) sem eru samtök 54 Afríkuþjóða, og Sameinuðu þjóðunum, einkaaðilum, félagasamtökum o.s.frv. og erum þannig í ákaflega góðu samstarfi við fjölmörga aðila út um allan heim.“

Þannig að þið náið tengingu við heimafólkið á sínum stað í gegnum þessa aðila?

„Já, við vinnum með ríkisstjórnum, ráðuneytum, ráðherrum og félagasamtökum á hverjum stað. Við gefum t.d. út árlegt efnahagsrit í hverri heimsálfu. Í S-Ameríku vinnum við t.d. að því riti með stofnun Sameinuðu þjóðanna, UNECLAC, sem er staðsett í Chile og sérhæfir sig í  málefnum er varða svæðið. Síðan skrifum við sérstakan kafla um hvert aðildarríki og sú vinna fer jafnan fram í samstarfi við heimamenn á hverjum stað.

Við vinnum einnig skýrslur um tiltekna málaflokka, erum t.d. með staðal um jafnréttismál sem heitir Social Institution and Gender Index sem er að mæla hvað það sé sem komi í veg fyrir að jafnrétti náist. Við mælum það sem ekki sést endilega, óskrifuð lög, gamlar hefðir eins og t.d að barnungar stúlkur geti gengið í hjónaband. Sem dæmi getum við hugsað okkur að ef ung stúlka á Fílabeinsströndinni vill verða forseti þá er það torsótt ef búið er að gifta hana 12 ára og hún kannski orðin ófrísk 13 ára, og þar með bannað að ganga í skóla.  Hún fær ekki tækifæri til að mennta sig eða sinna sínum markmiðum. Hennar leið til að verða forseti er þannig mjög grýtt. Við erum t.d. að rannsaka þessa þætti og finna leiðir til að ryðja þessum hindrunum úr vegi með bættri stefnumótun. Við söfnum gögnum í 179 löndum og erum með tengiliði við stjórnvöld í hverju landi. Í öllum okkar verkefnum er öll áhersla á samstarf og samtal og því að læra hvert af öðru og til verður úrlausn byggð á allra bestu vitneskjunni.“

Caption