Mannlíf

Stolt af uppruna sínum og menningararfi
„Við, Kolrassan og allt þetta, erum mjög stoltar af því að spretta úr þessum menningararfi,“ segir tónlistarkonan Elíza Newman. Ljósmynd/Margréti Takyar
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 7. september 2024 kl. 06:12

Stolt af uppruna sínum og menningararfi

Tónlistarkonan Elíza Geirsdóttir Newman á ættir sínar að rekja til Hafna og hefur verið búsett þar undanfarin ár. Hún er nú flutt í höfuðborgina til að vera nær vinnustaðnum sínum. „Það var út af því að ég er að vinna uppi í Listaháskóla og mér þótti svo leiðinlega að sitja í umferðinni alla eftirmiðdaga og alla morgna,“ segir Elíza sem segist alls ekki hafa sagt skilið við Hafnir eða Reykjanesbæ. Elíza er ennþá í Menningarfélagi Hafna og mun koma fram á tvennum tónleikum á Ljósanótt. Víkurfréttir tóku þessa mögnuðu listakonu tali í aðdraganda Ljósanætur.

„Ég er ekki í tónlistarkennslu eins og áður, núna er ég verkefnastjóri kennslu – ég kenni kennurunum,“ segir Elíza og hlær þegar hún talar um starf sitt hjá Listaháskólanum. „Ég er meira að vinna í þróun kennslu í öllum deildum, bara þar sem þörfin er og til að aðstoða kennara í sambandi við uppsetningu á námi og kennsluhætti.“

Elíza starfaði sem tónlistarkennari í Háaleitisskóla og varð síðar deildarstjóri á eldra stigi. „Ég var með allskonar verkefni en svo bauðst mér þetta starf uppi í Listaháskóla og færði mig yfir. Ég tók eitt ár í að keyra fram og til baka en það á ekki við mig.

Áður hafði ég verið að kenna úti í London og í framhaldsskóla svo ég held að ég sé búinn að kenna á öllum námsstigum núna.

Ég bjó í London í tíu ár áður en ég flutti í Reykjavík. Síðan þegar ég eignaðist dóttur mína flutti ég aftur suðreftir, til Hafna.“

Orðið einhver brjálaður saumaklúbbur

Allavega þá ertu ekki hætt að syngja og koma fram.

„Nei, alls ekki. Ég hef alltaf verið aktíf í tónlistinni. Það hægði kannski aðeins á þegar ég varð mamma en tónlistin tikkar alltaf með – það er ekki hægt að slökkva á því.“

Elíza segir að hún sé alltaf með tónleika á Ljósanótt; „og ég er ennþá í Menningarfélagi Hafna þó ég búi ekki lengur þar. Ég er náttúrlega ættuð þaðan, pabbi er úr Höfnunum, þannig að mér finnst ég vera smá Hafnakona í mér – og Keflvíkingur líka, enda fædd og uppalin upp í Keflavík.“

Þó Elíza sé flutt til Reykjavíkur er hennar tónlistararfur sprottinn úr heimabænum Keflavík og hún er stolt af því. „Mín tónlistarsjálfsmynd kemur náttúrlega úr Keflavík og ég er ekkert að hætta að spila hér. Við, Kolrassan og allt þetta, erum mjög stoltar af því að spretta úr þessum menningararfi. Mér finnst að það mætti tala meira um það, hvað það kemur mikið af flottu tónlistarfólki héðan og hvað hér sé rík hefð fyrir rokki og róli,“ segir Elíza og við rifjum upp þegar Kolrassa krókríðandi var að hasla sér völl á sínum tíma.

„Þetta var mikið stuð – og er enn. Við hittumst enn og erum ennþá að spila við tækifæri – þótt þetta sé orðið meira einhver brjálaður saumaklúbbur núna. Hljómsveitir hætta ekki sagði einhver og Kolrassa fór auðvitað í mjög langa pásu – en svo kom hún aftur saman.“

Hljómsveitin Kolrassa krókríðandi.

Kemur fram á tvennum tónleikum á Ljósanótt

Ég sá að Ragga Gröndal verður með þér í kirkjunni.

„Þetta verða í raun hennar tónleikar, ég bara opna og hita upp. Svo er ég líka að spila á stóra sviðinu á laugardagskvöldinu, þá byrjum við prógrammið á stórtónleikunum klukkan átta. Þessu verður sjónvarpað svo maður verður að dressa sig upp,“ segir Elíza og skellir upp úr. „Þá ætlum við að flytja svona „best of“ af því sem við vorum með í afmælisvikunni á tónleikum í kirkjunni í Höfnum – með einhverju svona Hafna/Keflavíkur/Njarðvíkur-þema. Það verður örugglega mjög gaman.“

Hverjir verða með þér á stóra sviðinu?

„Kalli Gumm og Kidda rokk sem var með mér í Bellatrix, Haraldur Sigurbjörnsson á hljómborð, sem hefur spilað með milljón manns, og Hjörtur Gunnlaugs á gítar. Það er auðvitað ógeðslega gaman að spila með hljómsveit, ég er búin að vera ein að vesenast lengi. Þannig að það er gaman að vera með fleirum.“

Þannig að það er alveg himinn og haf á milli þess sem þig Ragga eruð að gera í kirkjunni og það sem gerist á stóra sviðinu.

„Já, það verður svona stuð á sviðinu og svo verða kirkju tónleikarnir svona lágstemmdir akústik [órafmagnaðir]. Það er ótrúlega næs andrúmsloft inni í þessari kirkju, það er alveg æðislegt að spila í henni. Það er svo góður hljómburður og alltaf ótrúlega vel heppnað, þannig að mig hlakkar ofboðslega til að sjá Röggu og heyra hana í kirkjunni.“

Auk þess að spila á laugardagskvöldinu á stóra sviðinu mun Elíza koma fram á tónleikum með Ragnheiði Gröndal í Kirkjuvogskirkju í Höfnum á sunnudeginum á Ljósanótt. Ragnheiður mun þar flytja fjölbreytt lög af ferli sínum þar sem aðalmarkmiðið er að skapa hugljúfa og notalega stund fyrir tónleikagesti í fallegu kirkjunni í Höfnum.

Frá tónleikum Elízu í Kirkjuvogskirkju þegar 30 ára afmæli Reykjanesbæjar var fagnað í sumar. VF/Hilmar Bragi