Optical Studio
Optical Studio

Aðsent

Sveinbjörn Þórisson – minning
Föstudagur 24. maí 2024 kl. 08:39

Sveinbjörn Þórisson – minning

Bjössi gat setið í fjölmenni og skarkala en var samt eins og einn í heiminum. Sat jafnvel í miðjum kliðnum og horfði út undan sér með starandi augu og örlítið glott sem sýndi tilbrigði við bros. Hann var fámáll. Lagði sjaldan orð í belg nema hann hefði eitthvað að segja. Ef hann var á öndverðum meiði tókst hann á fyrir allan peninginn. Nokkrir bjórar gátu hjálpað til við að opna heita æð fulla af sannfæringarkrafti hans, því langt í frá var Bjössi skoðanalaus maður.

En það stafaði frá honum hlýja þar sem mjúk kurteis röddin sló taktinn. Bjössi vildi hafa hlutina í kringum sig samkvæmt sínu höfði og bjó yfir þeim hæfileika að stjórnaði með þögninni. Hann var snyrtipinni, smáhlutasafnari sem vildi hafa mikið af fallegum hlutum í kringum sig. Hvort sem hann var kúreki eða indíáni þá hreyfst hann af hlutum sem túlkuðu sögu þeirra og menningu.

Optical Studio
Optical Studio

Hann átti fallega bíla og hús sem hann dittaði að, lóðin hjá Bjössa var fágæti fyrir smekkvísi og snyrtimennsku. Hann hafði sinn eigin Lyngásstíl. Þar úði og grúði saman fjölmenning glisgjarns safnara. Hann var sjálfur gangandi listaverk af holdi og blóði, einstakt listaverk sem var öðruvísi en aðrir. Bjössi bar fjölmörg tattú af ýmsum toga og uppruna. Þau voru túlkun og ásýnd á þá manngerð sem hann var. Hans leið til að sýna ást og þakklæti til annarra. Hann var gjarnan í bol, rifnum gallabuxum beltislaus og með buxurnar á hælunum. Um hálsinn hékk gerðarlegt hálsmen, eyrnalokkur í eyranu og armbönd af ýmsum uppruna og toga um úlnliðinn. Bjössi var auðvitað algjör töffari, hann litaði á sér hárið og var hljóðlátur einfari með mjóan og ílangan hökutopp sem var hans helsta einkenni, þó af mörgu öðru væri að taka. Ef minn stíll er gamaldags og kassalaga, var stíll Bjössa í þeim samanburði glundroðakenndur.

Bjössi er einn af bormönnum Íslands, föðurbetrungur Þóris í Lyngási sem var talinn einn af færustu bormönnum og áhrifavaldur í þeirra hópi. Bjössi var komin til æðstu metorða fyrir þekkingu og reynslu við jarðboranir. Hann var jafnan fyrsti maður sem kallaður var til þegar nýir borar voru keyptir. Hann planaði borsvæði, var til ráðuneytis og lagði á ráðin með það sem þurfti svo kostnaðarsöm verkefni um allan heim skiluðu árangri. Bjössi var fullur af fróðleik og hjálpsamur á vinnustað og bjó yfir yfirburðarþekkingu og skilning á starfseminni. Sérfræðingur sem kallaður var til þegar snúa þurfti við holum eins og sagt er á tæknimáli bormanna. Hann var bormaður af lífi og sál og nú tekur Þórir sonur hans við keflinu og þriðja kynslóðin frá Lyngási heldur uppi merki bormanna landsins.

En Bjössi var líka faðir og afi sem lífið hafði ekki alltaf leikið við. Hann var um þrítugur ekkjumaður þegar Anna dó frá honum og þremur börnum þeirra þegar lífið virtist brosa við ungri fjölskyldu. Þá gekk Mæja börnum hans í móður stað, en bæði hún og Ragnar sonur hennar sem Bjössi fóstraði eru látin. Sorgin markar menn og af henni fékk Bjössi nóg í sínu lífi. Ég votta Hildi, börnum Bjössa og fjölskyldum þeirra mína hjartans samúð.

Ásmundur Friðriksson