Arnar maður ársins á Suðurnesjum 2024
Arnar Magnússon er maður ársins á Suðurnesjum 2024. Hann bjargaði lífi sjómanns úti fyrir Garðskaga aðfararnótt 16. maí. Sjómaðurinn reyndist vera góður vinur og félagi Arnars til áratuga, Þorvaldur Árnason. Hann hafði verið sigldur niður af erlendu flutningaskipi skömmu áður. Áhöfn flutningaskipsins yfirgaf slysavettvang en skipinu var vísað til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem stjórnendur þess voru handteknir.
Arnar og Þorvaldur voru á leið til strandveiða nóttina örlagaríku, hvor á sínum bát. Þeir fóru á svipuðum tíma úr höfn í Sandgerði. Þorvaldur var aðeins á undan og fór vestar en Arnar. Arnar lýsir því í viðtali við Víkurfréttir að hann hafi fengið sting í hjartað þegar hann sigldi fram á bát sem var á hvolfi á haffletinum og nær sokkinn. Fyrst hafi hann haldið að þetta væri gámur í náttmyrkrinu. Svo hafi hann séð fiskikar og loks séð nafn bátsins.
Á þessari stundu var Þorvaldur ennþá inni í bátnum sem var á hvolfi. Hann hafði náð að klæðast björgunarflotbúningi. Hann átti í erfiðleikum með að komast frá úr bátnum og þurfti að beita öllu afli til að komast út um neyðarlúgu á stýrishúsinu.
Það var heldur ekki auðvelt fyrir Arnar að ná Þorvaldi um borð í bát sinn, þar sem mikill sjór var kominn í flotbúninginn. Arnar þurfti að skera skálmarnar af björgunarbúningnum til að létta Þorvald. Í átökunum við að koma honum um borð braut Arnar eitt rifbein. Hann varð þess þó ekki var fyrr en hann var kominn í land.
Arnar segir að hann hafi reglulega samband við Þorvald og þeir fóru t.a.m. saman á sjóinn sléttum tveimur mánuðum eftir sjóslysið á síðasta degi strandveiðanna. Þeir ræða reglulega atburðarásina þennan dag og vinna saman úr þessari lífsreynslu.
Sjá nánar í blaði vikunnar frá Víkurfréttum.
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, og Arnar Magnússon, Suðurnesjamaður ársins 2024. VF/Hilmar Bragi