Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Foreldrum andvana fæddra barna mismunað
Guðmunda Guðlaug Sveinsdóttir og Einar Árni Jóhannsson.
Mánudagur 27. október 2014 kl. 17:10

Foreldrum andvana fæddra barna mismunað

Réttur vegna fæðingarorlofs skertur um sex mánuði

Njarðvíkingurinn Einar Árni Jóhannsson og kona hans Guðmunda Guðlaug Sveinsdóttir urðu fyrir gríðarlegu áfalli fyrir skömmu þegar dóttir þeirra fæddist andvana. Þeim til undrunar kom í ljós í kjölfarið að mikið misræmi virðist vera í lögum er varða fæðingarorlof, þegar um er að ræða fólk sem verður fyrir slíku áfalli.

Réttur þeirra hjóna skerðist úr níu mánuðum í þrjá. Hefði dóttir þeirra fæðst lifandi hefði fæðingarorlof þeirra verið níu mánuðir. Einar ritaði pistil á facebooksíðu sinni þar sem hann vakti athygli á því misræmi í kerfinu er varðar fæðingarorlof. „Ég gerði mér ekki grein fyrir að þessi mismunun væri til staðar. Þetta er einfaldlega skekkja í kerfinu. Þetta er einn af fjölmörgum þáttum sem þarf að skoða varðandi fæðingarorlof,“ segir Einar. Hann hefur fengið mikil viðbrögð við skrifum sínum og nú er svo komið að Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi, er með málið til skoðunar. Páll stefnir að því að leggja fram breytingar á lögum um fæðingar og fæðingarorlof en hann segir málið komið vel af stað og vera í ferli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér að neðan má sjá pistil Einars:

„Við fjölskyldan fengum fregnir snemma á nýju ári að von væri á sjötta fjölskyldumeðlimnum og eðlilega var mikil spenna í öllum. Síðar kom í ljós að lítil prinsessa væri væntanleg í hóp með þremur bræðrum og ekki minnkaði spennan. Konan mín var aftur á móti snemma greind með of háan blóðþrýsting og þetta þýddi að hún varð að hætta vinnu sinni við mastersritgerð í kennslufræðum í HÍ þar sem læknar vildu ekki að hún væri í neinu streituvaldandi (sem nota bene þýðir skerðingu á námslánum, 1/3 láns greitt). Þetta þýddi líka að hún mátti ekki vinna í sumarvinnunni sinni og varð einfaldlega að taka því extra rólega í gegnum meðgönguna. Þann 4.september sl fór hún til Reykjavíkur í tékk og þar reiknuðum við með að fá að vita tíma á gangsetningu enda komið fram í miðja viku númer 38 þegar þarna var komið við sögu.
Fréttirnar sem biðu okkar voru hins vegar þær erfiðustu sem við höfum þurft að takast á við til þessa í lífinu. Það fannst enginn hjartsláttur. Höggið var þungt og framundan voru tveir erfiðir dagar þar sem við þurftum að greina drengjunum okkar frá þessum erfiðu fréttum sem og öðrum sem okkur tengjast. Litla ljósið okkar hún Anna Lísa fæddist svo föstudaginn 5.september kl 22:04 andvana.

Það sem mig langar að vekja athygli á og velta upp er að mínu mati sérstök staðreynd. Þar sem að konan mín gekk með barn í tæpar 38 vikur, fór í gegnum fæðingu og tókst þar af leiðandi á við allt sem fylgir því að ganga fulla meðgöngu og að fæða barn (og allt sem fylgir á eftir) en samhliða því þurfti hún að takast á við það sem mörgum þykir kannski það versta sem lífið getur boðið upp á; að lifa barnið sitt. Það sem ég furða mig á og reyndar mjög margir sem ég hef rætt við; bæði fólk í kringum mig og ekki síður fagfólk sem hefur aðstoðað okkur fjölskylduna á erfiðum tímum er sú staðreynd að þar sem að dóttir okkar fæðist andvana að þá er réttur okkar fyrir fæðingarorlof skert úr 9 mánuðum í 3 mánuði.
 

Nú gæti einhver hugsað já en það er nú ekkert lengur barn til að hugsa um næstu vikur og mánuði og það er vissulega rétt þó ansi erfitt sé að sætta sig við það en raunin er sú að ef Anna Lísa hefði fæðst lifandi en dáið skömmu eftir fæðingu væri réttur okkar hjóna 9 mánuðir rétt eins og ef hún hefði fengið að lifa. Þennan mismun skil ég alls ekki. Móðir sem fæðir andvana barn, svona rétt eins og konan mín, fer í gegnum sama ferli og sú sem fæðir lifandi barn sem deyr svo mínútum eða klukkustundum eftir fæðingu. Munurinn á rétti þessara foreldra liggur í 6 mánuðum. En hvar er munurinn á ferlinu hjá þessu fólki. Sama vinna býður þeirra; sorgin og allt sem henni fylgir og svo að jafna sig eftir meðgöngu og fæðingu. Ég væri til í að heyra frá ráðamönnum þjóðarinnar hvernig þeir geta með góðu látið aðra eins vitleysu viðgangast í kerfinu.“