Fresta afgreiðslu á erindi um breytingu deiliskipulags fyrir Vallargötu 7–11
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur frestað erindi JeES arkitekta ehf. varðandi breytingu á deiliskipulagi Vallargötu 7–11 í Keflavík. JeES arkitektar ehf. leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi gamla bæjarins í Keflavík. Deiliskipulag var samþykkt 1. febrúar 2000 f.h. lóðarhafa Rolf Johansen & Co ehf. með uppdrætti dags. 28. apríl 2023.
Markmið deiliskipulagstillögunnar er að skapa nýtt heildstætt umhverfi íbúðarhúsa í nánd við elsta hluta Reykjanesbæjar með sameiningu lóðanna Vallargötu 9, 9a og 11 fyrir samsett fjölbýlishús með bílakjallara, færa eldri hluta íbúðarhússins á Vallargötu 9 á lóðina Vallargötu 7 og styrkja Klapparstíg með göngutengingu frá Kirkjuvegi niður að Hafnargötu. Auk þess verða gerðar minniháttar breytingar á gildandi deiliskipulagi á lóðunum Kirkjuvegi 8 og Klapparstíg 11, sem felst í breytingu fyrirkomulags húsanna innan lóðar, til að skapa samræmi og heildstæða ásýnd húsbygginga innan skipulagssvæðisins. Lóðirnar Vallargata 9, 9a og 11 verða sameinaðar í Vallargötu 9. Heimilt verður að byggja fjölbýlishús að hámarki tvær hæðir og ris með allt að 36 íbúðum, 45–75 m2 að stærð. Bílakjallari er undir hluta lóðar.