Fyrsti frumkvöðullinn í Eldey vekur athygli
Katrín Ósk Jóhannsdóttir er fyrsti aðilinn sem fær aðstöðu í frumkvöðlasetrinu Eldey en það opnaði formlega í byrjun mars í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Það er óhætt að segja að Katrín hafi strax vakið verðskuldaða athygli og birtist viðtal við hana í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hún sagði frá verkefninu sem hún vinnur að.
Dagbækur til að bæta andlega líðan barna
Katrín Ósk mun nýta aðstöðu frumkvöðlasetursins til að vinna áfram tilraunaverkefni um gerð dagbóka til að styrkja jákvætt viðhorf og andlega heilsu. „Þessi dagbók varð til af því að sonur minn hefur lengi glímt við skólaforðun, vanlíðan og kvíða,“ segir Katrín og bætir við að hann hafi ekki verið gjaldgengur í sum úrræði í kerfinu og önnur ekki virkað fyrir hann. Í þessu ferli hefur Katrín haldið úti dagbók þar sem hún hefur skráð niður jákvæða hluti í lífi sínu og fann fljótt að þetta hafði áhrif á líðan hennar til hins betra. Hún ákvað í framhaldinu að gefa út sambærilega dagbók fyrir barnið sitt sem og aðra sem glíma við sambærilegar áskoranir.
„Ég ákvað í hasti að setja upp þessa dagbók og láta prenta hana í þúsund eintökum.” Hún fékk frábær viðbrögð frá foreldrum sem voru á sama stað og hún, úrræðalausir með börnin sín. Fyrir þessa aðila hefur dagbókin ekki síður forvarnargildi, þar sem krakkarnir skrá í hana hvað þeim finnst gaman að gera með fjölskyldunni. „Við vitum að því meiri tíma sem fjölskyldan ver saman, þeim mun minni líkur eru á að börn leiðist út í neyslu eða aðra neikvæða hegðun.“
Skrifborðsaðstaðan í Eldey vindur upp á sig
Í frumkvöðlasetrinu gefst frumkvöðlum á Suðurnesjum kostur á að vinna að viðskiptahugmyndum sínum og þróa þær áfram í raunveruleg viðskiptatækifæri. Þar hefur Katrín Ósk komið sér vel fyrir og þróar áfram viðskiptahliðina á verkefninu sínu. Hún sér hins vegar tækifæri í að nýta sér enn betur aðstöðuna í Keili.
Í Keili er starfrækt vendinámssetur en þar er fullkomin búnaður og aðstaða til að taka upp ýmisskonar mynd- og hljóðefni. Katrín Ósk stefnir á að nýta þessa reynslu innan veggja Keilis við gerð og upptöku hlaðvarps um dagbókina. „Ég reikna með að geta nýtt mér hljóðverið til að taka upp hlaðvarp um hugsunina bak við dagbókina og útskýra hvernig er best að nálgast hana svo hún nýtist til fulls“, segir Katrín og bætir við að hún muni einnig segja frá því af hverju hún valdi ákveðin atriði í dagbókina og hvaða áhrif hún telur að þau muni hafa fyrir notendur.“
Á næstunni mun Vendinámssetur Keilis bæta við sérstöku hljóðveri fyrir upptöku á hlaðvarpsþáttum en þeir njóta sífellt meiri vinsælda bæði til afþreyingar og fræðslu. Hljóðverið verður aðgengilegt bæði kennurum og nemendum Keilis, auk þess sem frumkvöðlar í Eldey geta nýtt sér aðstöðuna til að taka upp hljóðefni og kynningar. Þá er stefnt á að gera hljóðverið aðgengilegt fyrir aðila utan Keilis sem geta þá bókað tíma, fengið þjálfun í upptöku hlaðvarpsþátta og tæknilega aðstoð.
Frumkvöðlasetur í skapandi umhverfi
Frumkvöðlasetrið er rekið í samstarfi Keilis, Eignarhaldsfélags Suðurnesja og Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og verður aðstaða í Eldey gjaldfrjáls fram að áramótum 2021 með stuðningi frá Eignarhaldsfélaginu.
Í Eldey býðst frumkvöðlum vinnuaðstaða í skapandi umhverfi og geta þeir jafnframt nýtt sér fundaraðstöðu, kaffistofu og setustofur í aðalbyggingu Keilis, auk þess sem aðgangur er að prent- og netþjónustu. Heklan mun jafnframt bjóða upp á ráðgjöf í setrinu og standa fyrir reglulegum fræðsluviðburðum og erindum.
Sótt er um aðstöðuna annað hvort á vef Heklunnar eða á heimasíðu frumkvöðlasetursins á www.eldey.org. Skilyrði þess að nýta aðstöðuna er að um nýsköpun sé að ræða og verða umsóknir metnar af Heklunni sem mun jafnframt fylgja hugmyndum frumkvöðla áfram.