Grindavík hamingjusamasta sveitarfélag landsins
Grindavík er hamingjusamasta sveitarfélag landsins samkvæmt nýrri könnun Embættis landlæknis á hamingju Íslendinga. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis, kynnti niðurstöðurnar í dag, á alþjóðlega hamingjudeginum, á málþingi í Háskóla Íslands þar sem fjallað var um hamingju, heilsu og vellíðan. Það er mbl.is sem greinir frá þessu.
Í frétt mbl.is segir að þegar hamingja er skoðuð eftir sveitarfélögum trónir Grindavík á toppnum. Í könnuninni eru íbúar spurðir hvernig þeim líður á skalanum 1-10 þar sem 1-3 merkir óhamingjusamur, 4-7 hvorki né og 8-10 hamingjusamur. Grindavík er í efsta sæti með 8. Þar á eftir koma Akranes, Hveragerði og Fjarðabyggð með 7,9.
Ef svörin eru skoðuð eftir því hvort íbúar telja sig hamingjusama, óhamingjusama eða hvorki né sést að 73,2% svarenda í Grindavík eru hamingjusamir en aðeins 3,3% óhamingjusamir. Hæsta hlutfall óhamingjusamra er í Vestmannaeyjum, eða 9,6% svarenda í bænum.