Jólalukka VF í tuttugasta og annað sinn í 20 verslunum
Tuttugu verslanir og þjónustuaðilar á Suðurnesjum eru með í Jólalukku Víkurfrétta 2024 sem hefst í lok vikunnar en þetta er í tuttuguasta og annað skipti sem Víkurfréttir standa fyrir þessum vinsæla skafmiðaleik í samvinnu við verslanir og þjónustuaðila í desember. Sjö þúsund vinningar verða skafðir af Jólalukkumiðum fyrir þessi jól en þeir eru frá fimmtíu fyrirtækjum.
Þá verða rúmlega fimmtíu vinningar í þremur útdráttum í desember en dregið verður úr miðum (með engum vinningi á) sem skilað er í Nettó verslanir í Njarðvík og Keflavík.
Stærsti útdráttarvinningurinn er glæsilegur rafmagns hægindastóll frá Bústoð í Keflavík en tuttugu og fimm gjafabréf eru frá Nettó, frá tuttugu og fimm þúsund upp í eitthundrað þúsund krónur. Glæsilegir útdráttarvinningar eru einnig frá Byko, Húsasmiðjunni, Marriott hótelinu í Reykjanesbæ, Zolo og Co., Reykjanes Optikk, Nóa & Síríus og næst stærsti vinningurinn í Jólalukkunni er frá Hótel Keflavík, gisting á Dimond svítu ásamt kvöldverði og aðgangi að nýju SPA hótelsins.
Í auglýsingum í blaðinu má sjá upplýsingar um vinninga og fyrirtæki sem bjóða upp á Jólalukku 2024.