Ný vararafstöð sett upp á Þorbirni
Tæknimenn frá Mílu voru á Þorbirni við Grindavík í gær þar sem þeir voru að koma fyrir nýrri varanlegri vararafstöð í stað þeirrar eldri sem hafði verið dæmd ónýt. Í gosinu í sumar var farið með færanlega stöð á Þorbjörn, til að viðhalda rafmagnsöryggi meðan á gosinu stóð, en nú er komin varanleg stöð sem mun auka fjarskiptaöryggi á svæðinu enn frekar.
Þorbjörn er mjög mikilvægur fjarskiptastaður og sérstaklega nú þegar jarðhræringar eru orðnar árlegur viðburður á Reykjanesi, eins og hefur verið síðustu ár. Það er því mjög mikilvægt að þar sé vararafstöð, ef til rafmagnsleysis kemur á svæðinu, segir Míla á fésbókarsíðu sinni þar sem meðfylgjandi myndir eru birtar.