Tilkynnt um eld í húsi í Hvassahrauni
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út um miðjan dag í það sem talið var vera eldur í húsi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd. Slökkvibíll með fjórum mönnum var sendur á fyrsta forgangi frá slökkviliðsstöðinni í Reykjanesbæ á vettvang.
Tilkynning til Neyðarlínunnar var um mikinn reyk frá húsi á svæðinu. Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang gekk þeim í fyrstu erfiðlega að finna brunastað, enda var tilkynningin óljós. Í ljós kom að eldur logaði í rusli sem hafði verið safnað fyrir í skóflu að gröfu inn á milli gáma á svæðinu.
Landeigandi hafði safnað ruslinu í skófluna og hellt yfir eldsneyti og borið eld að. Þar sem einnig var eitthvað af vatni í skóflunni myndaðist mikill reykur sem steig til himins. Vegfarendur um Reykjanesbraut héldu því að eldur logaði í húsi á svæðinu.
Slökkviliðsmenn ræddu við aðila á staðnum en aðhöfðust ekkert frekar.