Fréttir

Verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði kröftugra en fyrri gos
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 27. september 2024 kl. 14:47

Verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði kröftugra en fyrri gos

„Ekkert í gögnum Veðurstofu Íslands bendir til þess að atburðarrásinni sé að ljúka. Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi verðum við að búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni,“ sagði Bergrún Anna Óladóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, á íbúafundi í Vogum í gærkvöldi. 

Stóra sviðsmyndin sem horft er á hjá Veðurstofu Íslands er að á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi þarf að búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Erfitt er að fullyrða hvaða sviðsmyndir eru líklegastar, hvort að gjósi næst norðan megin eða sunnan megin á gígaröðinni. Bergrún sagði að við verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði kröftugra en fyrri gos. Mikilvægt sé að íhuga mótvægisaðgerðir í tengslum við áhrifamestu sviðsmyndir.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Gasmengun helsta ógnin

Það er einna helst gasmengun sem þarf að hafa áhyggjur af í Sveitarfélaginu Vogum. Sterkur upphafsfasi á eldgosi í samspili við óhagstæða vindátt getur valdið verulegri gasmengun í Vogum. Veðurstofan telur ekki hættu á að kvikugangur geti náð undir byggð í Vogum og þá þarf mikið hraunrennsli áður en hraun ógna mannvirkjum í Vogum.

Síðasta eldgos á Sundhnúksgígaröðinni er stærsta gosið í þessari goslotu. Það var jafnframt þriðja lengsta gosið af þeim sex sem hafa orðið á gígaröðinni og stóð í fjórtán sólarhringa. Kvikusöfnun er hafin að nýju á svipuðum hraða og áður. Erfitt er að segja til um tímasetningu næsta atburðar. Gosin eru að stækka og hraði á flæði í upphafi gosa hefur aukist þar sem meira hraun er að koma upp. Kraftur upphafsfasa eldgosanna, þ.e. hraði á útstreymi kviku fyrstu 6 klukkustundirnar, hefur vaxið með hverju gosi. Heildarmagn kviku sem kemur upp, þ.e. rúmmál hrauns, er líka að aukast.

Eldgosið sem hófst í ágúst sl. með Snorrastaðatjarnir í forgrunni. VF/Hilmar Bragi

 

Gossagan geymir dæmi um gosopnanir lengra í norðaustur

Bergrún sagði á fundinum að gossagan geymir dæmi um gosopnanir lengra í norðaustur á Sundhnúksgígaröðinni en kvikugangurinn sem myndaðist í síðasta gosi fór norðar en í fyrri gosum. Eins og staðan er metin í dag eru þrjár sviðsmyndir í gildi varðandi mögulega staðsetningu á næsta eldgosi og allar þrjár sviðsmyndirnar eru taldar jafn líklegar.

Fyrsta sviðsmyndin gerir ráð fyrir eldgosi sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli. Staðsetningin er svipuð og í eldgosi sem hófst 14. janúar. Þar varð gossprungan lengst einn og hálfur kílómetri en virknin dróst saman á gíga við varnargarð norðan Grindavíkur.

Önnur sviðsmyndin sem horft er til er eldgos milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells. Staðsetningin er svipuð og í eldgosum sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024. Þessar gossprungur voru tveir til fimm kílómetrar en virknin dróst svo saman á gíga við Sundhnúk.

Þriðja sviðsmyndin sem horft er til er eldgos norðaustan við Stóra-Skógfell, á svipuðum stað og eldgosið sem hófst 22. ágúst. Þar varð gossprungan lengst um sex kílómetrar en virknin dróst saman í gíg norðaustan við Stóra-Skógfell.

Bergrún fór á íbúafundinum yfir hættur og möguleg áhrif í og við Voga þegar horft er til eldgoss norðaustan við Stóra-Skógfell. Þar var gasmengun efst á blaði, þá gjóska og gosmóða, sprungumyndanir og síðast hraunrennsli.

Sterkur upphafsfasi á eldgosi í samspili við óhagstæða vindátt getur valdið verulegri gasmengun í Vogum. Skyggni gæti orðið takmarkað vegna áhrifa frá gróðureldum og gosmóðu. Bergrún sagði mælda gasmengun frá fyrri atburðum gefa viðmið um mögulega mengun frá gosstöðvunum en í allt að 20 km. radíus frá upptökum eldgoss hefur mælst gasmengun sem er óholl fyrir viðkvæma.

Gjóska sem kemur upp úr gosi með sterkan upphafsfasa austan við Litla-Skógfell getur valdið gjóskufalli sem hefur áhrif á umferðaröryggi, umhverfi og mannvirki. Ef hraunið rennur í t.a.m. Snorrastaðatjarnir gæti sprengivirkni myndast. Þá geta nornahár, sem hafa myndast í eldgosunum borist langt frá upptökum eldgossins. Bergrún sagði m.a. frá mynd sem tekin var í Vogum og sýndi mikið magn nornahára í þakrennu.

Eldgos í mars 2024 séð með byggðina í Vogum í forgrunni. VF/Hilmar Bragi

 

Ekki reiknað með að kvikugangur nái undir Voga líkt og gerðist í Grindavík

Í þeim sviðsmyndum sem horft er til núna er ekki reiknað með að kvikugangur nái undir Voga líkt og gerðist í Grindavík 10. nóvember 2023 og 14. janúar 2024. 

„Við þurfum að vera viðbúin því að næsti kvikugangur geti valdið hreyfingum á sprungum nærri Reykjanesbraut. Slíkur gangur gæti einnig hafi áhrif á gæði vatns í nærliggjandi vatnsbólum,“ sagði Bergrún á fundinum. Hún sagði frá því að þegar horft er til jarðskjálftavirkni síðustu tveggja ára má sjá að upptök jarðskjálfta eru ekki undir Vogum. Hins vegar þarf að reikna með því að íbúar í Vogum munu finna fyrir stærstu skjálftunum sem verða í aðdraganda næsta goss.

Íbúar í Vogum hafa áhyggjur af mögulegu hraunrennsli en fram kom í máli Bergrúnar að sigdalir í núverandi landslagi sunnan Voga geta tekið við miklu magni af hrauni. Þannig myndar hæð við Reykjanesbraut náttúrulega vörn en hæðarmunur í landslagi þar er allt af fimmtán metrar.

Veðurstofa Íslands vinnur með hermanir á hraunrennsli. Útbúið var hraunflæðilíkan miðað við að gos hæfist norðaustan við Stóra-Skógfell. Það sýnir að hraun mun að mestu renna undan halla í átt að Reykjanesbraut, sem og að raflínum og vatnsbólum. Á fundinum voru sýnd líkön með magni upp á 1,7 og sjöfalda stærð síðasta eldgoss miðið við að þau kæmu upp á sama stað og síðast. Hvorugt þessara hrauna ná yfir Reykjanesbrautina.

Einnig var sýnt samskonar dæmi með opnun aðeins norðaustar. Þar kom fram að mjög mikið magn af hrauni þarf til þess að hraunbreiðan nái að Vogum. Þá var á það bent að eftir hvert gos breytist landslagið og því þarf að gera nýjar hraunhermanir reglulega.

Efnabreytingar geta orðið í vatni

Áhrif eldgoss á grunn- og yfirborðsvatn voru kynnt. Þar kom fram að kvikugangur, hraunrennsli, gjóskufall og sprungumyndanir geta haft áhrif á efnasamsetningu grunn- og yfirborðsvatns. Nálægð við upptök eldsumbrota gegnir lykilhlutverki í umfagngi efnabreytinga í vatni. Stöðugt eftirlit, vöktun og greining er því nauðsynleg til að hafa yfirsýn yfir möguleg áhrif á viðkomandi svæðum.

Nú er unnið að nýrri framsetningu á hættumatskortum sem Veðurstofa Íslands birtir reglulega í tengslum við náttúruvá á Reykjanesskaganum. Í nýrri framsetningu, þar sem Vogum er bætt við, verður lagt mat á hættu innan svæðanna reglulega. Í drögum sem sýnd voru kom fram að gasmengun er líklegust til að hafa áhrif á Voga.

Vera viðbúin því að næsta gos verði kröftugra en fyrri gos

Stóra sviðsmyndin sem horft er á hjá Veðurstofu Íslands er að á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi þarf að búast við nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Erfitt er að fullyrða hvaða sviðsmyndir eru líklegastar, hvort að gjósi næst norðan megin eða sunnan megin á gígaröðinni. Bergrún sagði að við verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði kröftugra en fyrri gos. Mikilvægt sé að íhuga mótvægisaðgerðir í tengslum við áhrifamestu sviðsmyndir.

Bergrún Anna Óladóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. VF/Hilmar Bragi