Fréttir

Efnagreiningar benda til að kvikan í Sundhnúkagígsröðinni komi úr nokkrum kvikuhólfum
Eldgosið 29. maí 2024. VF/Ísak Finnbogason
Föstudagur 27. september 2024 kl. 09:46

Efnagreiningar benda til að kvikan í Sundhnúkagígsröðinni komi úr nokkrum kvikuhólfum

Efnasamsetning kviku í fyrstu fjórum gosunum í Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga bendir til þess að kvikan komi úr nokkrum kvikuhólfum eða -þróm sem eru nálæg hver annarri á um fimm kílómetra dýpi. Það þýðir að erfitt gæti orðið að spá fyrir um næstu gos og hegðun þeirra. Þetta sýna niðurstöður rannsókna sem unnar voru undir forystu vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskólans í samstarfi við Veðurstofu Íslands en greint var frá þeim í grein sem birtist í hinu virta vísindatímariti Science í gær. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

Eins og flestum er kunnugt hafa eldsumbrot staðið yfir á Reykjanesi frá árinu 2021. Í upphafi gaus í grennd við Fagradalsfjall en í lok síðasta árs hófust eldsumbrot á Sundhnúksgígaröðinni eftir að mikill kvikugangur myndaðist snögglega undir gígaröðinni í hamförum í nóvember. Síðan hafa orðið sex eldgos á gígaröðinni en rannsóknin í Science byggist á gögnum frá fjórum þeim fyrstu, þ.e. í desember, janúar, febrúar og mars síðastliðnum, en það síðastnefnda stóð fram í maí. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Markmið rannsóknarinnar var að öðlast betri skilning á kvikusöfnun fyrir hvert gos með því að rýna í efnasamsetningu kvikunnar sem kom upp. Reyndist hún breytileg í hverju gosi væri það vísbending um að kvikan kæmi úr fleiri en einu kvikuhólfi. 

Frá eldgosinu norðaustan við Stóra-Skógfell 25. ágúst 2025. VF/Ísak Finnbogason

 

Fleiri sýnum safnað en í fyrri rannsóknum

Meðan á eldgosunum fjórum stóð söfnuðu vísindamenn fjölda hraunsýna víða á gossvæðunum með það fyrir augum að kanna breytileika í efnasamsetningu kvikunnar. Alls var 161 sýni tekið sem er umtalsvert ítarlegri söfnun en í fyrri rannsóknum. Greining á sýnunum fór fram við Jarðvísindastofnun Háskólans og Laboratoire Magmas et Volcans á vísindastofnun Frakklands (CNRS) í Clermont-Ferrand.

Greiningin leiddi í ljós að efnasamsetning kvikunnar er mjög breytileg, sem eins og fyrr segir bendir til þess að kvikan komi úr nokkrum mismunandi kvikuhólfum á um fimm kílómetra dýpi undir Sundhnúksgígaröðinni. Efnasamsetninginn reynist einnig breytileg frá einu gosi til annars sem bendir til þess að kvikuhólfin hafi tekið breytingum eftir því sem liðið hefur á eldsumbrotin.

„Þar sem mögulega eru fleiri en eitt kvikuhólf undir Svartsengi gæti orðið erfitt að spá fyrir um hvenær næstu gos verða. Þá getur hegðun eldgosanna einnig breyst, t.d. hversu mikil kvika kemur upp í hverju gosi og hversu lengi þau standa, allt eftir því úr hvaða hólfi kvikan kemur,“ segir Simon William Matthews, sérfræðingur í jarðefnafræði við Jarðvísindastofnun Háskólans og fyrsti höfundur greinarinnar í Science.

Simon bendir enn fremur á að líklega sé algengt að kvika safnist í fleiri en eitt kvikuhólf sem eru nærri hvert öðru í eldstöðvum, en þetta sé í fyrsta sinn sem það sé staðfest, þökk sé ítarlegri greiningu vísindahópsins á kvikunni úr Sundhnúksgígaröðinni. Rannsóknin undirstriki að greining á efnasamsetningu kviku veiti nákvæmari upplýsingar sem hjálpa til við túlkanir á jarðeðlisfræðilegum gögnum og muni leiða til betri skilnings á hegðun eldstöðva.

Að rannsókninni kom hópur vísindamanna við Jarðvísindastofnun Háskólans og Veðurstofu Íslands í samstarfi við vísindamenn við Laboratoire Magmas et Volcans á vísindastofnun Frakklands (CNRS) í Clermont-Ferrand og GeoZentrum Nordbayern við Friedrich-Alexander-Universität Erlangen-Nürnberg í Þýskalandi. Rannsóknirnar voru fjármagnaðar í gegnum öndvegisrannsóknarverkefni sem Enikő Bali, Halldór Geirsson og Sæmundur Ari Halldórsson, vísindamenn við Jarðvísindastofnun Háskólans, stýra og hlaut styrk frá Rannís fyrir nokkrum misserum. 

Greinina má nálgast á vef Science: https://www.science.org/doi/10.1126/science.adp8778

Frá eldgosi 23. mars 2024. VF/Ísak Finnbogason