Viðreisn
Viðreisn

Fréttir

Vinnumálastofnun sendir flóttafólk til Grindavíkur án samráðs við bæjaryfirvöld
Hjón sem eru í hópi flóttafólks sem dvelur nú í Festi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 6. janúar 2023 kl. 10:54

Vinnumálastofnun sendir flóttafólk til Grindavíkur án samráðs við bæjaryfirvöld

Er ríkið að fara á svig við eigin lög? „Einkennilegt að frétta utan af mér að íbúar séu komnir í Festi, í stað þess að fá upplýsingar frá Vinnumálastofnun,“ segir Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grindavík.

Fólk sem sótt hefur um alþjóðlega vernd er tekið að streyma til Grindavíkur en þeir fyrstu komu 28. desember og hafa misstórir hópar verið að koma flesta daga síðan þá, síðast í gær, 5. janúar. Vinnumálastofnun hafði hug á að leigja Víkurbraut 58, Festi, en það húsnæði var ekki í notkun vegna heilsuspillandi aðstæðna og myglu og hafði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja afturkallað rekstrarleyfi hússins. Erindi frá Vinnumálastofnun var tekið fyrir á fundi bæjarráðs þann 1. nóvember 2022 en hægt er að lesa fundargerðina á vef Grindavíkurbæjar.

Sömuleiðis óskaði stofnunin eftir því að gera samning við Grindavíkurbæ vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, Grindavíkurbær hvorki hafnaði því né samþykkti og óskaði eftir fundi með stofnuninni en því var ekki svarað fyrr en fimm vikum síðar, að sögn forseta bæjarstjórnar Grindavíkur.

SSS
SSS

Búið er að koma í veg fyrir mygluna og húsnæðið því talið hæft til hótelreksturs og því gerði bæjarráð Grindavíkur ekki athugasemd við að veitt yrði rekstrarleyfi fyrir hóteli að Víkurbraut 58 í samræmi við umsókn, svo fremi sem aðrir umsagnaraðilar veittu jákvæða umsögn. Í samræmi við lögfræðiálit taldi bæjarráð rétt að árétta að í afgreiðslu bæjarráðs fælist ekki heimild til þess að reka í húsnæðinu starfsemi eða útleigu húsnæðis fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eða flóttafólk. Slík starfsemi samræmist skv. lögfræðiálitinu, ekki samþykktri notkun hússins og er í andstöðu við landnotkun skv. aðal- og deiliskipulagi. Þetta breytti hins vegar engu fyrir Vinnumálastofnun og eins og áður kom fram, þá kom fyrsti hópur fólks í húsnæðið 28. desember og óljóst með endanlega fjölda. Flestir eru frá Úkraínu en einnig fólk frá  öðrum þjóðernum, t.d. Venesúela.

Pottur virðist vera brotinn. Þar sem ekki er heimilt að skrá fólk til lögheimilis í Festi þá virðist sú leið samt hafa verið farin, að skrá fólkið í ótilgreint húsnæði en heimild til slíks er einungis fyrir hendi ef fólk hefur dvalið í sveitarfélaginu í þrjá mánuði eða lengur. Úkraínufólkið er hins vegar komið með lögheimili í Grindavík, hvernig það gerðist og hver veitti viðkomandi lögheimilið er hins vegar óvitað. Starfsfólk Þjóðskrár benti á Útlendingastofnun varðandi hver óskaði eftir skráningu lögheimilisins í Grindavík.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, fór yfir afstöðu Grindavíkurbæjar í þessu máli: „Við viljum að sjálfsögðu bera okkar samfélagslegu ábyrgð en jafnframt fara eftir lögum. Við verðum að geta sinnt verkefninu sómasamlega en félagsþjónustan hér í bæjarfélaginu getur ekki með góðu móti tekið við þessu verkefni. Ég hefði viljað sjá samráð Vinnumálastofnunnar við bæjaryfirvöld í þessu máli. Þegar málið kom upp sl. haust þá fjölluðum við um erindið og óskuðum eftir fundi með Vinnumálastofnun en þeirri beiðni var ekki svarað fyrr en fimm vikum síðar. Samskiptin frá Vinnumálastofnun í þessu máli hafa verið í formi tilkynninga um þegar ákveðinn hlut, sem eru óásættanleg vinnubrögð“, segir Ásrún að lokum.

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur.