Ekki alltaf dans á rósum hjá Keflvíkingum
Enn og aftur eru Keflvíkingar að tapa stigum á heimavelli. Að þessu sinni tapaði liðið gegn Skagamönnum í 15. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Lokatölur urðu 2-3 en Skagamenn komu sterkir til leiks og gerðu nánast út um vonir heimamanna um sigur í upphafi leiks.
Það var Dean Martin sem kom ÍA yfir strax á 3. mínútu en Keflvíkingar náðu ekki að hreinsa boltann frá í vítateignum og Martin skoraði af stuttu færi.
Stuttu síðar þá juku gestirnir forskotið þegar Einar Logi Einarsson skoraði. Staðan 0-2 eftir 23. mínútur. Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði síðan laglegt mark eftir að Guðmundur Steinarsson hafði leikið varnarmenn Skagamanna grátt á 37. mínútu. Keflvíkingar virtust hressast við markið og vöknuðu til lífsins.
Jóhann skorar fyrra mark sitt.
Í síðari hálfleik kom upp atvik sem gerði kannski endanlega út um vonir Keflvíkinga, en þá missti Magnús Þór Magnússon varnarmaður Keflvíkinga boltann á slæmum stað og Skagamenn komust í vænlega stöðu, Haraldur Freyr Guðmundsson gat lítið annað gert en brotið af sér og því miður fyrir Keflvíkinga þá var brotið innan vítateigs. Jóhannes Karl Guðjónsson fór á punktinn og kom Skagamönnum í 3-1 þegar hálftími var eftir af leiknum.
Keflvíkingar voru meira með boltann en skagamenn mynduðu myndarlegan varnarmúr fyrir framan vítateig sinn sem Keflvíkingum reyndist erfitt að brjóta niður. Ekki náðu heimamenn að skapa sér verulega hættuleg færi en Jóhann Birnir náði þó að skora mark í uppbótartíma með skalla og lagaði aðeins stöðuna.
Úrslitin voru kannski sanngjörn þar sem Keflvíkingar náðu aldrei að skapa sér nógu hættuleg færi og áttu ekki svör við sterkum varnarleik Skagamanna sem nýttu skyndisóknir sínar vel.
Víkurfréttir náðu tali af Jóhanni Birni Guðmundssyni eftir leik.
Hvað er að gerast á heimavelli?
„Ég veit það ekki, við byrjuðum ekki leikinn, vorum hreinlega ekki mættir til leiks,“ sagði Jóhann. „Síðan tókum við yfir leikinn að mér fannst þangað til þeir fengu vítið, þá vorum við að sækja og héldum boltanum vel. Þegar vítið kemur þá drepur það eiginlega leikinn fyrir okkur.“
Jóhann segir það nokkuð ljóst að það vanti stöðugleika hjá liðinu. „Þetta er ekki alltaf dans á rósum. Við erum með unga leikmenn í lykilstöðum og liðið okkar er brothætt. Það má ekki mikið út af bregða.“
Næsti leikur Keflvíkinga er gegn ÍBV sem eru á mikilli siglingu þessa dagana. „Við unnum þá hérna heima en þetta eru allt erfiðir leikir sem eru eftir. Það er allt hægt í þessu,“ sagði Jóhann að lokum.