HS Orka
HS Orka

Íþróttir

Fengu mikið lof fyrir frábært heimsmeistaramót
Guðfinnur Snær Magnússon var að keppa á sínu fjórða heimsmeistaramóti í opnum flokki. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. nóvember 2024 kl. 08:25

Fengu mikið lof fyrir frábært heimsmeistaramót

Þau Gunnlaug Olsen og Ellert Björn Ómarsson fóru fyrir öflugum hópi mótshaldara úr Massa og KRAFT [Kraftlyftingasambandi Íslands] sem stóðu að baki heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem var haldið í Ljónagryfjunni í síðustu viku. Víkurfréttir ræddu við Gullu Olsen eftir mót til að frétta hvernig hefði gengið að halda þennan gríðarlega stóra viðburð.
Gulla hafði í nægu að snúast á meðan á heimsmeistaramótinu stórð.

„Þetta gekk alveg svakalega vel, alveg framar öllum vonum,“ segir Gulla sem stóð vaktina ásamt öðru Massafólki á heimsmeistaramótinu. „Við fengum gríðarlega mikið lof úr öllum áttum, frá yfirmönnum og forsetum úr þessum kraftlyftingaheimi. Einn sagðist vera búinn að fara á 68 mót á tíu árum og þetta mót stæði upp úr.“

Massafólkið massaði þetta

Í heildina voru um fimm hundruð manns sem komu til landsins í tengslum við mótið, þar af um 240 keppendur, sem gistu allir á hótelunum Courtyard by Marriott og Konvin. „Við sóttum alla í flug og komum þeim á hótel, sóttum þá á hótel og keyrðum á mótsstað og skiluðum næstum hverri manneskju aftur í flug. Við vorum með fjóra níu manna bíla sem voru stanslaust að allan tímann – og ef þetta voru einhverjir merki menn þá sóttum við þá persónulega. Við Elli [Ellert Björn Ómarsson] unnum þetta svolítið eins og við erum, bjartar og glaðar manneskjur, og mótið var eiginlega svolítið í takt við það.“ Gulla segir að ekki megi gleyma að þakka Massafólkinu fyrir allt þeirra framlag. „Sumir voru að taka sér frí frá vinnu í heila viku til þess að skutla fyrir okkur á níu manna bílunum. Við erum mjög fá í Massa en ótrúlega vel mönnuð,“ segir hún og bætir við að auðvitað hafi þau fengið mikla hjálp frá KRAFT. „Þau stóðu þétt við bakið á okkur líka en það var mjög eftirtektarvert að sjá hvernig fólk var að fórna fríinu sínu, fólk var búið að sækja um frí á þessum tíma bara til þess að hjálpa við þetta mót. Vaka allan sólarhringinn við skutla og sækja í flug, þannig að þetta var rosalega samheldinn og flottur hópur. Fáar hendur sem voru að vinna gríðarlega flott starf þarna.“

Gulli Olsen var duglegur að standa vaktina með mömmu sinni.

Sviðsmynd, ljós og salurinn stórglæsilegur

Gulla segir að allt útlit salarins hafi vakið mikla athygli og þar hafi lýsing og keppnispallurinn sjálfur þótt gríðarlega flott enda hafi mikið verið í það lagt. „Menn sem höfðu farið á tugi móta sögðu þetta mót vera með þeim flottustu sem hafa verið haldin. Berglind og Maggi hjá BM Lausnum eru algjörir snillingar í öllu sem viðkemur ljósamálum, sviðsútliti og tæknimálum almennt – og þau mössuðu þetta með tækniliðinu að utan,“ segir Gulla en mótinu var sjónvarpað um allan heim og þótti salurinn alveg einstaklega glæsilegur á að líta.

Handtíndi nýtt hraun í þátttökuverðlaun

Allir sem tóku þátt í mótinu fengu að gjöf einstök þátttökuverðlaun en Gulla handtíndi á einkalóð nýtt hraun og límdi á plexigler. „Ég tíndi einhverja þrjú hundruð mola og límdi á plexigler. Þannig að hver og einn keppandi fékk sinn persónulega stein fyrir þátttökuna. Lógóið okkar er eldur og ís og það var svolítið þemað í mótinu, aðalverðlaunin í mótinu voru líka hraunmolar. Þetta var maður að gera á milli vakta – að líma á nóttunni og elda súpu á daginn,“ sagði Gulla að lokum.

Verðlaunagripirnir voru einstakir. Fleiri myndir eru í myndasafni neðar á síðunni.

Heimsmeistaramótið í kraftlyftingum 2024