Mannlíf

Man best eftir myndunum  sem voru ekki teknar
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 26. desember 2024 kl. 06:52

Man best eftir myndunum sem voru ekki teknar

Hefur gefið út þrjár ljósmyndabækur

„Ég var kominn til Grindavíkur seinni partinn 10. nóvember og var fram á næsta morgun,“ segir Sigurður Ólafur Sigurðsson, ljósmyndari eða réttara sagt hamfaraljósmyndari en undanfarin ár hefur hann verið í vinnu hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu við að festa á filmu það sem fyrir augu ber þegar slys eiga sér stað. Síðan að jarðhræringarnar hófust við Fagradalsfjall árið 2020 hefur Sigurður verið ansi mikið í Grindavík og mjög mikið á þessu rúma ári sem liðið er frá 10. nóvember í fyrra.

Hann gaf nýlega út ljósmyndabók sem hann nefnir Reykjanes vaknar en í bókinni er sagan sögð í myndum og í texta þar sem við á, allt frá því að fyrsti íbúafundurinn var haldinn í íþróttahúsinu í Grindavík árið 2020. Síðustu myndirnar í bókinni voru teknar um miðjan ágúst, skömmu áður en níunda eldgosið hófst og þar sem jarðhræringum á Reykjanesi er hvergi nærri lokið, er líklegt að fleiri bindi muni líta dagsins ljós.

Alltaf haft áhuga á ljósmyndun

Sigurður hefur frá því að hann man eftir sér, alltaf haft áhuga á ljósmyndun en hann menntaði sig ekki í fræðunum strax.

„Ég var lengi að ákveða mig hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór, minn bakgrunnur er í leit og björgun og ég hef verið í björgunarsveit frá því að ég var gutti. Ég réð mig til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar árið 1997 þar sem ég starfaði með stuttu hléi til 2012. Ég hafði alltaf haft áhuga á ljósmyndun, var með myrkraherbergi þegar ég var ungur og hef alltaf tekið mikið af myndum en það var ekki fyrr en árið 2010 sem ég fór í ljósmyndaskóla og kláraði námið árið 2012. Uppfrá því varð ég „hirðljósmyndari“  Landsbjargar og hef verið að mynda útköll og önnur störf björgunarsveita og neyðaraðila síðan þá. Ég er í raun björgunarsveitarmaður en bara með öðruvísi hlutverk en hinn hefðbundni. Þó er það að sjálfsögðu þannig að ef það vantar hendur í útkalli þá legg ég myndavélina frá mér og sinni skyldu minni sem björgunarsveitarmaður. Ég sinni annarri ljósmyndun en bara fyrir Landsbjörgu, ég var og er að mynda fyrir fyrirtæki og tek að mér það sem ég get. Mestur tíminn í ljósmyndun er samt tengt neyðargeiranum með einum eða öðrum hætti.“

Þriðja bókin -  Reykjanes vaknar

Nýjasta bók Sigurðar er sú þriðja sem hann gefur út en áður hafði hann gefið út litla bók fyrir Neyðarlínuna, 112 fólk og svo gaf hann út aðra stóra ljósmyndabók árið 2022, Shooting rescue. Sú nýjasta, Reykjanes vaknar, segir ótrúlega sögu í og við Grindavík síðan íbúafundur var haldinn í íþróttahúsi Grindavíkur í janúar árið 2020.

„Líklega grunaði engan á íbúafundinum hvað átti eftir að gerast tæpum fjórum árum síðar. Ég hef tekið þátt í að skrifa neyðaráætlanir og hef verið í þessum geira lengi, þess vegna undirbjó ég mig í raun strax undir það versta. Það var farið yfir hvað gæti í versta falli gerst og eins farið yfir rýmingaráætlanir en auðvitað vonuðust allir eftir því að það versta myndi ekki gerast en því miður varð raunin sú. Það eru til neyðaráætlanir fyrir flugslys, hópslys og nefndu það bara, oftast kemur aldrei til þess að grípa þurfi til þessara áætlana en varðandi eldgos á Reykjanesi þá var vitað að það myndi einhvern tíma gerast, sagan segir okkur það. Að það skyldi gerast núna var auðvitað eitthvað sem allir vonuðust eftir að þurfa ekki að upplifa. Það er í raun magnað að vera uppi á þessum tíma núna, síðasta svona skeið var ekki nema fyrir 800 árum síðan.

Ég undirbjó mig því í raun strax eftir íbúafundinn undir hvað gæti hugsanlega gerst og ég hef náð að mynda margt markvert sem hefur gerst síðan á þessum íbúafundi. En ég veit að ég mun aldrei ná að segja söguna alla. Ég á fjölskyldu og þarf auðvitað að sinna henni ásamt öðrum skuldbindingum eins og gengur og gerist. Það var til dæmis nánast léttir þegar að ég var í fyrsta skipti fjarverandi í útlöndum þegar eitt af fyrstu gosunum átti sér stað. Fram að því hafði ég verið stressaður yfir því að ég yrði að ná hverjum einasta markverða viðburði en það að missa af heilu gosi gerði það að verkum að ég róaðist aðeins og gerði mér grein fyrir að þetta verkefni yrði alltaf bara mín sýn á þessa atburði. Að því sögðu þá er það samt þannig að ég vil helst ekki missa af neinu og held að heilt yfir hafi ég hingað til náð ágætri yfirsýn, þó að alltaf megi gera betur. Fyrsta eldgosið kemur rúmu ári eftir íbúafundinn 2020 og það kom nýtt gos nánast á árs fresti, þar til þessi hrina byrjaði 18. desember 2023 og sér ekki fyrir endann á,“ segir Sigurður.

10. nóvember

Sigurður náði flestu markverðu sem hefur gerst síðan 2020 og var mættur í Grindavík daginn örlagaríka í fyrra þegar Grindvíkingar þurftu að rýma bæinn.

„Ég var ekki mikið á svæðinu fyrir 10. nóvember en fylgdist að sjálfsögðu vel með öllu í gegnum Landsbjörgu. Ég frétti þennan dag hvað var í gangi og var kominn seinni partinn en ég vissi ekki frekar en annar hvað væri að fara gerast. Ég hef komið til Grindavíkur þegar von var á einhverju en ekkert gerðist þá. Um leið og ég kom til Grindavíkur hafði maður á tilfinningunni að eitthvað stórt væri í bígerð, jarðskjálftarnir voru á einhverju öðru stigi en áður hafði fundist. Ég var í bænum fram á laugardagsmorgun og það var auðvitað magnað að verða vitni að þessu. Síðan þá hef farið ófáar ferðirnar á svæðið og jafnvel stöku sinnum lagt mig þegar ég hef tekið þar langar vaktir eða verið að bíða eftir einhverjum atburðum. Ég er með svefnaðstöðu í bílnum og legg bílnum þá við hús björgunarsveitarinnar Þorbjörns þar sem vettvangsstjórnin er. Ef eitthvað gerist og það þarf að rýma bæinn í skyndi, vita þau af mér úti í bíl.“

„Ég hef dvalið mikið í bænum undanfarið árið og hef náð töluvert af myndum, ef ég á að nefna eitthvað eftirminnilegra en annað þá eru það samskiptin við íbúa og viðbragðsaðila. Fyrir mér er myndavélin bara verkfæri til að segja sögu þessarra atburða og sögurnar eru af fólkinu. Að ganga um bæinn þegar fólk í heilu götunum og jafnvel hverfunum var að tæma heimili sín var ógleymanleg reynsla. Ekki það að taka myndirnar heldur að hitta fólkið, heyra sögurnar og skynja andrúmsloftið. Mjög sérstök reynsla sem ég gleymi sennilega aldrei. Fljótlega á þessu ári þegar ég sá þær þúsundir mynda sem ég hafði tekið, var mér ljóst að nú væri kannski orðið tímabært að festa þær í bók þó að ég hafi ekki strax verið búinn að ákveða hvenær hún kæmi út. Það kom þó fljótlega í ljós að ég gæti ekki beðið mikið lengur með það einfaldlega vegna þess hversu mikið efni var komið sem að mig langaði að hafa með. Síðustu myndirnar voru teknar um miðjan ágúst en rétt eftir að bókin fór í prentun hófst enn eitt gosið eins og til að árétta það að ég væri ekki búinn með verkið. Ég verð því auðvitað áfram á vaktinni þó að ég voni að ég muni ekki þurfa mynda meira í Grindavík, þ.e. að ekki muni meira markvert gerast þar en að öllum líkindum er þessum jarðhræringum engan veginn lokið. Síðasta svona skeið stóð frá 1210-1240 og ef þetta verður eitthvað svipað, er ljóst að mörg ár eru eftir. Ég vonast auðvitað til þess að næstu eldgos muni hvorki ógna Grindavík né öðrum bæjum eða starfseminni í Svartsengi. Vonandi mun þetta færa sig á þær slóðir sem mun ekki ógna öryggi og hægt verði að líta á þau eldgos eins og þau sem gerðust við Fagradalsfjall sem túristagos.“

Myndirnar sem ég hef tekið í tengslum við þetta verkefni eru nú að nálgast 100 þúsund og í bókinni eru eitthvað yfir 400 af þeim sem mér finnst segja söguna best. Nokkrar þeirra eru mér eftirminnilegar og vonandi verða þær fleiri en ég er nú þannig gerður að mér finnst alltaf eftirminnilegustu myndirnar sem ég náði ekki að taka af einhverjum ástæðum. Ætli það haldi manni ekki stöðugt á tánum, óttinn við að missa af mikilvægu myndinni.  En auðvitað má maður ekki hugsa þannig og dvelja of lengi við það sem að maður hefði viljað gera betur. Þrátt fyrir töpuðu augnablikin þá náði ég allavega þeim sem ég náði og það er mín saga af þessum atburðum og það er það eina sem maður getur gert. “ sagði Sigurður Ólafur að lokum.

Viðtalið við Sigurð var tekið áður en síðasta eldgos hófst en það var það sjöunda á Sundhnjúksgígaröðinni og það tíunda í heildina. Sigurður hefur að sjálfsögðu náð myndum af því síðasta og þær eru meðfylgjandi þessari grein.