Popparinn sem fór í bæjarpólitíkina
og er orðinn varaþingmaður
„Fólkið hérna er bara svo frábært“ segir söngvarinn, tónlistarmaðurinn, bæjarfulltrúinn og nú varaþingmaðurinn Sverrir Bergmann Magnússon. Hann hefur komið eins og stormsveipur inn í mannlífið í Reykjanesbæ eftir að hann og konan fengu nóg af því að hanga á rauðu ljósi í Reykjavík. Sverrir er sjálfur frá Sauðárkróki, Tindastólsmaður í gegn en mætir reglulega á leiki hjá báðum liðunum í Reykjanesbæ en hann og fjölskylda hans búa í Innri-Njarðvík.
Eftir að hafa búið í höfuðborginni frá því að Sverrir flutti þangað frá Sauðárkróki um tvítugsaldurinn, langaði Sverri að flytja þaðan og kærastan þáverandi og núverandi eiginkona, Kristín Eva Geirsdóttir sem er borgarbarn í húð og hár, n.t. úr Árbænum, var meira en til í tuskið þrátt fyrir að þau væru bara búin að vera saman í hálft ár.
„Kristín var að vinna hjá Airport Associates og var því stefnan tekin hingað eftir að við höfðum ákveðið að flytja úr borginni, það var mikið gæfuspor því Reykjanesbær tók okkur báðum opnum örmum og við gjörsamlega elskum bæinn í dag. Á þeim tíma var tónlistin mín vinna og nánast um leið og við vorum flutt þá leið mér eins og ég væri kominn heim á Sauðárkrók, miklu minni spenna, læti og hasar en í Reykjavík og okkur hefur alltaf liðið mjög vel í Innri-Njarðvík. Það tók borgarbarnið Kristínu aðeins meiri tíma að sjá alla fegurðina í þessu en í dag vill hún hvergi annars staðar vera. Eldri dóttir okkar, Ásta Bertha, fæddist á covid-árinu 2020 og eðlilega datt mín vinna sem tónlistarmaður nánast út þá svo u.þ.a. ári síðar var mér boðið stöðu afleysingakennara í Ásbrú og stökk á það og hef kunnað mjög vel við mig í því starfi. Ég fékk síðan fasta stöðu og hef aðallega verið að kenna stærðfræði en svo bjó ég til fag sem heitir Leikjatölvusaga og hef líka kennt ljósmyndun. Það má segja að það sé alltaf gaman hjá mér í þessari vinnu því stærðfræði hefur alltaf legið vel fyrir mér, ég var stundum að hjálpa krökkum á Sauðárkróki, svo hef ég alltaf verið forfallinn tölvuleikjamaður og hef líka mikinn áhuga á ljósmyndun. Ég hef dottið inn í forfallakennslu í öðrum greinum og finnst það líka gaman en líklega er ég sleipastur á svellinu í stærðfræðinni. Ég hef fundið mína fjöl og tók því ákvörðun um að mennta mig í fræðunum því án réttinda færðu bara eins árs ráðningarsamning, það er ekki mikið atvinnuöryggi fólgið í því. Ég fór þó ekki í sjálf kennsluréttindin, heldur er að læra stjórnun við Háskólann á Akureyri, var að fara byrja á mastersritgerðinni og ætlaði að ljúka því námi nú fyrir áramótin en svo duttu inn alþingiskosningar svo ég ákvað að slá því á frest. Ég get síðan bætt á mig einu ári og er þá kominn með full kennsluréttindi, ég stefni klárlega þangað en þó veit maður aldrei ævi sína fyrr en öll er, ég hefði þess vegna getað verið á leiðinni inn á þing núna.“
Bæjarfulltrúinn Sverrir
Sverrir hafði ekki mikið velt pólitík fyrir sér þegar hann fékk óvænt símtal í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga.
„Ég hafði ekkert verið að spá í pólitík þegar Óli Thord hringdi í mig og vildi kanna hug minn til þess að vera á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Hann og Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar höfðu væntanlega ekki hugmynd hvar ég stæði í mínum pólitísku skoðunum en við tókum fund og ég fann fljótt að mínar hugmyndir að samfélagi áttu vel heima innan Samfylkingarinnar og ég áttaði mig á að ég er jafnaðarmaður. Ég ákvað að þetta væri kjörið tækifæri að tengjast samfélaginu betur og er þetta búið að vera mjög skemmtilegt og mjög mikil vinna, sérstaklega til að byrja með. Maður þurfti að setja sig inn í mál og á meðan maður var frekar blautur á bak við eyrun var þetta erfitt í byrjun og í raun fyrstu tvö árin, líka af því að ég var tiltölulega nýfluttur í bæinn. Með tíð og tíma kom þetta og ég kann mjög vel í mig í þessum bæjarmálum, ég held að að það hafi verið fínt að fá rödd aðila sem ekki er fæddur og uppalinn í Reykjanesbæ og ég grínast með að ég sé eini Reykjanesbæingurinn í bæjarstjórninni, hinir eru Keflvíkingar eða Njarðvíkingar,“ segir Sverrir.
Hljómahöllin fyrsta flokks og Rokksafnið verður betra
Sverrir byrjaði strax að láta til sín taka í bæjarstjórnarmálunum.
„Ég er búinn að koma að fjölmörgum málum á þessum tveimur árum sem ég hef setið í bæjarstjórn en stoltastur er ég líklega að því að hafa komið að stofnun sjóðs í Hljómahöllinni sem hefur það að markmiði að nýta salina betur á dögum sem þeir hafa hingað til ekki verið nýttir á. Þetta hefur strax skilað miklum árangri og þessir flottu salir eru nýttir miklu betur en áður og það er jákvætt. Við gefum minna þekktu tónlistarfólki frábært tækifæri að koma sér á framfæri og ég þykist nú þekkja nokkuð vel til í tónlistarbransanum, hef sungið í öllum stærstu tónleikasölum landsins og leyfi mér að fullyrða að aðbúnaðurinn í Hljómahöllinni er á við það besta sem gerist hér á landi. Áður en ég flutti í Reykjanesbæ var ég oft búinn að koma og troða upp í Hljómahöllinni við hin ýmsu tækifæri og það var alltaf tilhlökkun í mér fyrir þeim giggum, allt er svo ofboðslega fagmannlega unnið og hljóðmennirnir fyrsta flokks. Ég er mjög stoltur af Hljómahöllinni og hika ekki við að mæla með staðnum við kollega mína í tónlistarbransanum. Svo er Bergið líka svo hentugur tónleikastaður, mun minni en þá myndast líka bara öðruvísi og jafnvel betri stemning vegna nándar milli tónlistarfólksins og áhorfenda. Það eina sem vantar er kannski salur eins og Bæjarbíó sem tekur um tvö hundruð manns en það er ekki hægt að fá allt er það?
Ef þú spyrð mig hvað mér finnst um að færa bókasafnið inn í Hljómahöllina þá er það borðleggjandi rétt ákvörðun að mínu mati og ég er viss um að þeir sem voru eða eru ekki sammála því, munu sjá að þetta er rétt ákvörðun. Rokksafnið mun síður en svo hverfa, það minnkar kannski í fermetrum en eykst í upplifun. Það er líka útbreiddur misskilningur að bókasafn geymi bara bækur, það er í raun minnsta hlutverk bókasafns að mínu mati, bókasafnið hér í Reykjanesbæ hefur staðið fyrir ótal menningartengdum atburðum og nú færast þær sýningar í miklu betra húsnæði í Hljómahöllinni og þ.a.l. nýtist það húsnæði miklu betur. Stapinn var byggður sem félagsheimili á sínum tíma og er nú aftur orðið að félagsheimili, bara uppfært í útgáfu 2.0.
Ég hikaði síðan ekki við að taka sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir þessar nýafstöðnu alþingiskosningar en vissi kannski innst inni að ég væri ekki að fara rjúka beint inn á þing. Ég er varaþingmaður og mun væntanlega fá tækifæri á að leysa þingmann af og setjast tímabundið inn á þing, eigum við ekki að segja að ég hlakki til að fara í pontu og halda ræðu, spurning hvort ég verði jafn stressaður þá eins og þegar ég var að byrja bæjarstjórnarferilinn. Margir halda að það sé ekkert mál fyrir mig að fara svona í pontu og halda ræðu því ég er söngvari en þetta er tvennt gjörólíkt, maður syngur bara texta og túlkar hann á sviði en að semja og flytja ræðu er allt annar handleggur en ég er orðinn nokkuð vanur því í dag,“ segir Sverrir.
Uppvöxtur á Sauðárkróki
Það er nokkurn veginn regla að ungt fólk á Sauðárkróki klári framhaldsskólann þar og flyst frá bænum um tvítugsaldurinn, sumir fara eðlilega strax út á vinnumarkaðinn fyrir norðan en þeir sem vilja afla sér frekari menntunar, flytja annað hvort suður eða fara í háskólanám á Akureyri. Sverrir var einn þeirra sem flutti suður.
„Æskuminningar mínar frá Sauðárkróki eru bara góðar, það var mjög gott fannst mér að alast þar upp. Ég var strax kominn í íþróttir og snemma er ég byrjaður að syngja í kórum. Körfuboltinn varð fljótlega ofan á og ég get stært mig af Íslandsmeistaratitli í 8. flokki en ég var nú enginn lykilmaður í liðinu, það verður að segjast eins og er. Ég var leikstjórnandi, kallaði mig „dreifarann“ því ég var meira fyrir að gefa boltann en skjóta. Eigum við ekki að segja að ég hafi blómstrað frekar seint inni á körfuboltavellinum, ég fór mikinn í 2. deildinni með liði frá Siglufirði sem heitir Glói, þetta var blanda af Sauðárkrækingum og Siglfirðingum og eftir það vorum við með lið sem er skráð í Varmahlíðinni og heitir Smárinn. Þetta var skemmtilegur tími en ég hef alltaf haft mikinn áhuga fyrir körfubolta og þó svo að ég sé fluttur í Innri-Njarðvík og sitji í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er erfitt að slíta taugina úr manni, ég mun alltaf vera heitur stuðningsmaður Tindastóls. Tryggvi bróðir minn gaf mér treyju sem er tvískipt Tindastóls- og Njarðvíkurtreyja. Ég gladdi engan þegar ég mætti í þessari treyju á leik og hún mun áfram verða frekar neðarlega í fataskúffunni hjá mér. Ég reyni að mæta á þá leiki sem ég get, alltaf gaman að hitta aðra Króksara en mér er til efs að annað landsbyggðarlið fái eins öflugan stuðning á útivelli og mínir menn.“
Tindastóll
Sverrir mun seint gleyma Íslandsmeistaratitlinum árið 2023.
„Það er auðvitað búið að vera einkar skemmtilegt að fylgja liðinu undanfarin ár og ég mun seint gleyma þegar við unnum Íslandsmeistaratitilinn á þar síðasta tímabili. Ég var reyndar staddur heima á Sauðárkróki vegna giggs þegar oddaleikurinn í Valsheimilinu fór fram á fimmtudagskvöldi en horfði með mömmu og pabba og fagnaði með þeim. Daginn eftir var haldin heljarinnar sigurhátíð en ég vissi að ef ég myndi mæta í hana myndi ég öskra úr mér lungun og átti að syngja á laugardagskvöldinu á balli á Akureyri, lét skynsemina ráða för. Ég mun síðan aldrei gleyma þegar allt liðið mætti á þetta ball á Akureyri, allir með gullpeninginn um hálsinn og að sjálfsögðu komu þeir allir upp á svið og ég hélt að þakið ætlaði að rifna af Sjallanum þetta kvöld þegar við renndum í „We are the champions.“ Þetta var nefnilega ekki bara sigur okkar Sauðárkrækinga, þetta var sigur landsbyggðarinnar myndi ég segja. Akureyringarnir voru held ég jafn glaðir og við á Króknum. Ég held líka að þessi sigur Tindastóls hafi lyft ýmsu í kringum körfuboltann upp á hærra plan, það er mín tilfinning að liðin séu farin að gera meira úr sölu á varningi, það er verið að búa til „fan-zone“ og bara einhvern veginn meiri stemning í kringum körfuboltann í dag held ég.
Mér líst vel á byrjun minna manna á þessu tímabili eftir erfitt síðasta tímabil, það var einhver massív þynnka held ég í gangi eftir spennufallið tímabilið á undan. Eftir erfiða byrjun á þessu tímabili þar sem tap var staðreynd gegn nýliðum KR á heimavelli í fyrsta leik og dapra frammistöðu í byrjun næsta leiks á móti hinum nýliðunum í ÍR en leikurinn vannst að lokum, er Benedikt Guðmundsson sem
tók við liðinu eftir að hafa þjálfað Njarðvík, greinilega búinn að finna réttu blönduna. Ég mætti á báða leikina á móti Keflavík á dögunum og varð auðvitað fyrir vonbrigðum með úrslitin, sérstaklega að detta út úr bikarnum en það þýðir ekkert að væla það, nú einbeitum við okkur bara að því að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn. Það verður erfitt, deildin er mjög jöfn og ljóst að Keflavík er komið með ansi líklegt lið eftir nýjustu viðbæturnar í leikmannahópnum.
Ef þú spyrð mig út í önnur áhugamál en tónlistina, tölvuleikina og körfubolta get ég varla sagt að þau séu til staðar, nema auðvitað fjölskyldan. Ég var gallharður stuðningsmaður Leeds United í enska boltanum en eftir að þeir féllu um nokkrar deildir fjaraði nokkuð örugglega undan þeim áhuga og ég sneri mér frekar að NBA, styð Indiana Pacers í þeirri deild en þó ekki þannig að ég sé vakandi á nóttunni til að horfa á mína menn. Það er ansi mikið að gera hjá mér í tónlistinni, í pólitíkinni og uppeldi á tveimur stelpum, Ástu Berthu sem fæddist árið 2020 og svo kom Sunna Stella fimmtán mánuðum síðar. Er ekki vísitölufjölskyldustærðin fimm, þ.e. þrjú börn svo við skulum segja að massívar æfingar standi yfir við frekari fjölgun,“ segir Sverrir og hlær.
Flutt suður og tónlistin
Sverrir var ekki gamall þegar hann var farinn að þenja raddböndin, byrjaði ungur í kórum á Sauðárkróki, var kominn í hljómsveit átján ára og væntanlega skemmdi ekki fyrir tónhæðinni sem kappinn kemst upp í, hann söng hástöfum með lögum Mariah Carey og Boyz II Men.
„Mér fannst strax sem ungum pjakki gaman að syngja og var alltaf með frekar háa rödd. Þegar ég var í mútum fjórtán ára gamall gerði ég ekki annað en syngja á háu „pitch-i“ með lögum söngvara og söngkvenna sem fara mjög hátt, t.d. Mariah Carey. Ef ég ætti að ráðleggja áhugasömum söngvurum þá alla vega fékk ég mjög góða æfingu út úr þessu og hef nánast ekki lært neinn söng, fór aðeins í Complete vocal technique, ætlaði að taka kennsluréttindin en svo fannst mér ég bara vera búinn að læra nógu mikið, ég mæli með þessu námi fyrir söngvara. Annað gott ráð fyrir söngvara, ef þú ert að ströggla við lag, lækkaðu þá bara tóntegundina. Menn eru allt of oft að rembast eins og rjúpur við staurinn og þá hljómar söngurinn ekki eins vel.
Ég byrjaði ekki í hljómsveit fyrr en ég var átján ára, við kölluðum okkur Dallas en nafnið breyttist síðan í Daysleeper þegar við fluttum suður en í millitíðinni vann ég söngvakeppni framhaldsskólanna. Tók lagið Always með Bon Jovi, með texta sem Auðunn Blöndal vinur minn samdi fyrir mig, Án þín. Auðvitað þykir mér gaman hversu vel þetta lag hefur stimplað sig inn og ég slepp nánast aldrei við að syngja þegar þegar við erum að troða upp.
Þegar ég flutti suður fór ég strax í Háskólann í Reykjavík og lærði tölvunarfræði. Ég hætti eftir eitt ár og fór að vinna sem „Game Master“ fyrir Eve Online (Game Master þjónustar leikmenn ef eitthvað kemur uppá, bara svona hjálp), vann svo hjá OZ, Íslenskri erfðagreiningu og þaðan lá leið mín á PoppTíVí. Ég spilaði nokkuð mikið með Daysleeper á þessum árum, við gáfum út tvær plötur og svo gaf ég út sólóplötu árið 2008, var búinn að ferðast vítt og breytt um heiminn og semja lög með hinum og þessum. Þetta var skemmtilegt verkefni og gaman fyrir mig að fá Eið Smára Guðjohnsen til að fjármagna plötuna, ég er honum enn þann dag í dag mjög þakklátur fyrir það og mér þykir vænt um þessa plötu, þó svo að lítið hafi borið á henni. Mér finnst mjög mikilvægt fyrir söngvara að eiga einhver lög, sama hvort hann semji þau sjálfur eða ekki,“ segir Sverrir.
Fóstbróðirinn Halldór Gunnar Fjallabróðir
Árið 2009 var Sverrir að selja tölvuleiki fyrir Senu og kynntist þá manni sem stuttu síðar varð nánast að fóstbróður hans, Halldóri Gunnari Pálssyni, kenndan við karlakórinn Fjallabræður.
„Ég var búinn að kynnast Halldóri aðeins og þegar hann kom með Fjallabræður í Skagafjörðinn og þeir héldu tónleika ásamt Karlakórnum Heimi. Þeir voru hrikalega skemmtilegir og rifu skemmtilegan kjaft, ég talaði við Halldór eftir tónleikana og sagðist verða að fá að vinna með svona mönnum sem þyrðu að rífa kjaft í Skagafirðinum. Þar með hófst okkar samstarf. Ég gaf út aðra sólóplötu árið 2012 sem ég vann með Halldóri, hann vildi frekar vera á bak við tjöldin, þess vegna var þetta mín sólóplata að titlinum til. Okkar samstarf er einstaklega gott og við eigum frábærlega vel saman á sviði, við vitum alltaf hvað hinn aðilinn er að fara gera og það veitir manni mikla öryggistilfinningu. Okkar þekktasta lag er nú líklega lag sem hann samdi og Magnús Sigmundsson samdi textann við, Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja árið 2012, Þar sem hjartað slær. Fleiri þjóðhátíðarlög hafa fylgt í kjölfarið, Ástin á sér stað söng ég með Frikka Dór og það væri nú ekki leiðinlegt ef ég fengi að syngja annað þjóðhátíðarlag. Ég hef verið bókaður á þessa frábæru hátíð allar götur síðan 2010 en ég held að þessi tónlistarveisla í þessu stórbrotna landslagi hljóti að vera á heimsmælikvarða. Það er ofboðslega gaman að standa á þessu sviði fyrir framan fulla brekku af fólki og syngja öll þessi lög. Halldór Gunnar er frábær tónlistarmaður og ég held að það geri sér ekki allir grein fyrir hversu góður gítarleikari hann er. Við höfum verið saman með hljómsveitina Albatross í nokkur ár og í okkar stærsta smelli sýnir hann heldur betur takta á gítarnum í sólóinu við lagið Ég ætla að skemmta mér. Fyrir utan að vera frábær tónlistarmaður er Halldór bara svo góður gæi, við eigum einstaklega gott samband, það gott að ég er guðfaðir dóttur hans og hann er guðfaðir dóttur minnar.
Fyrir utan þessi hefðbundu þjóðhátíðarlög hef ég líka verið hluti af FM95BLÖ, við gefum venjulega út nýtt lag fyrir hverja þjóðhátíð en þó ekki alltaf frumsamið heldur tökum við stundum vinsælt erlent lag og setjum þjóðhátíðartexta við. Þau eru nokkur lögin sem hafa hitt beint í mark og er mjög gaman að taka þátt í því.
Hvað framtíðaráformin snertir þá stefni ég á að klára þetta nám mitt, það mun styrkja mig í framtíðinni og vonandi mun ég halda áfram að gefa út tónlist. Ég hef mjög mikinn áhuga á pólitíkinni og vonast eftir að geta nýtt sambönd mín inn í nýja væntanlega ríkisstjórn fyrir Reykjanesbæ og trúi ekki öðru en „Valkyrjurnar” nái að mynda góða ríkisstjórn. Ég hef mjög mikla trú á Kristrúnu, formanni Samfylkingarinnar en greinilega var kominn tími á breytingar í íslenskri pólitík. Ég lít framtíðina björtum augum og hlakka til að njóta lífsins, elska konuna mína og börnin,“ sagði Sverrir að lokum.