Palóma
Palóma

Mannlíf

Rjúpan að hertaka Grindavík?
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 23. desember 2024 kl. 07:05

Rjúpan að hertaka Grindavík?

„Það var magnað að koma til Grindavíkur í sumar og sjá þessa breyttu hegðun fuglanna,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson, fuglafræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja en þeir íbúar Grindavíkur sem búa í bænum í dag hafa tekið eftir nýjum Grindvíkingum má segja, fjölmargar rjúpur hafa leitað skjóls inni í bænum. Sölvi segir að klár tengsl séu á milli þessarar breyttu hegðunar rjúpunnar og annarra fuglategunda, við mun minna mannfólk í bænum. Sölvi kom tvisvar sinnum til Grindavíkur í sumar til að kanna stöðu fugla og kom honum sjónin sem blasti við, vægast sagt spánskt fyrir sjónir.

Þetta er ekkert nýtt í dýraheiminum segir Sölvi, að dýr leiti skjóls í yfirgefnum bæjum og borgum.

„Búsvæði rjúpunnar er í grennd við Grindavík en hún verpir mest í mólendi og nóg er af því í grennd Grindavíkur og í raun á öllu Reykjanesinu. Rjúpan étur lauf af stærri jurtum eins og Víðirunnum og Álftasóleyjum og hún verpir eins og flestir fuglar, á vorin og svo heldur hún sér á þeim slóðum sem auðveldast er fyrir hana að finna æti. Karrinn sem er karlfuglinn býr sér til nokkurs konar óðal, er lengur hvítur en kvenfuglinn sem ber heitið hæna en eins og við vitum þá er minni snjór en áður tíðkaðist. Þess vegna leitar rjúpan inn í byggðir þar sem hægt er að reyna fela sig, hvort sem er á hvítum þökum eða heyrúllum t.d. Rjúpan leitar líka oft inn í bæi þegar hún er að flýja fálka og önnur rándýr, líf hennar hefur alltaf verið markað harðri lífsbaráttu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Karrinn er ekki við eina fjöl felldur þegar kemur að makaleit, hver karri er með nokkrar hænur í vasanum og þannig fer einmitt rjúpnatalning fram, við göngum ákveðin svæði og teljum Karrana, margföldum þá tölu með viðmiðunarfjölda hæna og fáum út tölu. Við förum alltaf á sömu slóðir, svið sem nær nokkurn veginn frá Vogum að Fagradalsfjalli. Þegar ég byrjaði í þessu fyrir rúmum áratug, töldum við ekki nema fjóra til fimm karra en í dag eru þeir 25 svo rjúpu hefur greinilega fjölgað hér á Reykjanesinu og það er auðvitað jákvætt. Það hefur verið bannað að skjóta rjúpu að undanförnu, bæði vildu fræðingarnir sjá samanburð á svæði þar sem ekki var leyfð veiði, og á svæðum sem það var leyfilegt. Þessum rannsóknum er löngu lokið en hvort veiðimönnum verði aftur gefið skotleyfi á rjúpuna, treysti ég mér ekki til að segja til um. Ég held að það verði alla vega ekki leyft á okkar svæði sem heyrir undir Geopark, það er mikið um ferðafólk á svæðinu og það gefur auga leið að slíkt fer ekki vel með skotveiði.“

Álft í Nettó

Þegar Sölvi fékk leyfi til að kanna stöðu fuglamála í Grindavík, þá sjaldan sem það leyfi fékkst frá yfirvöldum, blasti við honum skrýtin sjón.

„Það var einfaldlega allt annað að koma til Grindavíkur í sumar en nokkurn tíma áður. Krían var á óvenjulegum stöðum, hún hefur mest verið austur í hverfi og vestur í Staðarhverfi en í sumar sá ég hana í massavís á götum inni í Grindavík. Ekki bara að krían hafi hagað sér óvenjulega, það var mikið um æðarfugl inni í bænum og ég rakst líka á álft sem var á bílastæðinu við Nettó. Það var eins og hún væri að koma úr matarinnkaupum og ég hafði á tilfinningunni þegar hún leit á mig, að hún væri að hugsa með sér hvað í andskotanum ég væri að gera þarna! Einhver hefði haldið að álftinni líði betur úti í náttúrunni en fyrir utan Nettó svo hvað hún var að vilja þarna er ekki gott að segja til um. Kannski var eitthvað æti þarna á þessum tímapunkti eða hún að leita sér að nýjum varpstað, það er ekki gott um það að segja. Fuglafræðin mín nær ekki það langt að ég sé farinn að geta lesið hugsanir fuglsins, það er kannski það næsta sem maður reynir að gera en að öllu gamni slepptu þá kemur þessi hegðun fuglanna og dýra yfir höfuð, ekki á óvart. Fuglinn sækir í skjól og þegar ekki er truflun af manndýrinu, er hann í toppmálum í bæ eins og Grindavík. Ýktara dæmi eru t.d. í Chernobyl árið 1986 en þá þurrkaðist fjórtán þúsund manna borg út á einu augabragði og enginn hefur snúið til baka. Þar hefur dýralífið blómstrað, tveggja til þriggja metra há tré vaxa upp úr niðurföllum og þetta segir okkur að náttúran finnur alltaf sinn veg en úlfar og önnur dýr drápust örugglega meira úr krabba og sum dýr stökkbreyttust, sérstaklega þau sem voru nærri upptökunum.

Þó svo að nokkrir Grindvíkingar búi í bænum þá er miklu minni truflun en var áður og gleymum því ekki að áður en Grindavík byggðist upp, var pottþétt mjög fjölskrúðugt dýralíf þar og þegar mannfólkið tekur yfir svæðið, finnur dýrið nýja leið, náttúran gerir það alltaf. Að sjá þetta svona berum augum í Grindavík var mjög merkilegt fyrir mig sem fuglafræðing, það var hreinlega magnað að sjá allt þetta fuglalíf inni í bænum, uppi á bílum og á allan hátt að hegða sér allt öðruvísi en í venjulegu árferði,“ sagði Sölvi að lokum.

Myndir af rjúpum og smyrli tóku Hilmar Bragi Bárðarson og Gylfi Hauksson.

Sölvi Rúnar Vignisson, fuglafræðingur.

Smyrill vaktar rjúpurnar í Grindavík.

Rjúpa í mestu makindum á þaki húss í Grindavík.