Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rauði dúkurinn hennar mömmu var ekki dúkur heldur sturtuhengi
Sunnudagur 22. desember 2024 kl. 06:19

Rauði dúkurinn hennar mömmu var ekki dúkur heldur sturtuhengi

Eva Rut Vilhjálmsdóttir starfar í íþróttamiðstöðinni í Garði. Jafnframt þjálfar hún 7. og 6. flokk kvenna hjá Reyni/Víði og og er gjaldkeri í stjórn Knattspyrnufélaginu Víði. Unnusti Evu Rutar er Guðmundur Björgvin Jónsson. Þau eiga tvö börn, sem eru Heba Lind Guðmundsdóttir, átján ára, og Jón Grétar Guðmundsson, fimmtán ára.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið hefur verið viðburðaríkt þar sem alltaf er eitthvað um að vera í kringum okkur og oftast bara mjög skemmtilegt. Það sem stendur upp úr eru ferðalögin og samverustundirnar með fjölskyldunni og ekki má gleyma öllum fótboltaleikjunum sem við fjölskyldan mættum á út um allt land. Það að Víðismenn fóru upp um deild er án efa eitt af því sem stendur upp úr á þessu ári ásamt brúðkaupi sem okkur var boðið í Valencia hjá leikmanni Víðis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Ó helga nótt.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Holiday

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Þorláksmessuhittingurinn með stórfjölskyldunni og vinum þar sem við komum saman í allskonar leikjum og að sjálfsögðu í fótbolta og endum svo samveruna á góðum saltfiski eða skötu hjá mömmu og pabba í Akurhúsum.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að hafa tengdaforeldra mína hjá okkur á aðfangadag og jólabrönsinn hjá foreldrum mínum á jóladag og gamlárspartý með allri stórfjölskyldunni.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Eftirminnilegustu jólagjafirnar eru líklega þær sem amma Kalla bjó til og eru þær sérstaklega dýrmætar í dag.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ég man vel eftir jólunum sem barn enda var mikið gert úr því að halda jólin hátíðleg á mínu heimili. Ég man eftir einu mjög skemmtilegu atviki um jólin en mamma með sitt stóra heimili lagði mikið upp úr því að gera allt svo fínt og fallegt á jólunum og þegar við fjölskyldan vorum sest við glæsilega matarborðið sem svignaði af veitingum þá tók Anna systir eftir að fallegi rauði dúkurinn hennar mömmu var ekki dúkur heldur sturtuhengi sem Anna hafði gefið henni. Það er enn hlegið að þessu í dag og mamma lætur ekki hanka sig á þessu aftur.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð?

Ég er beggja blands. Mér þykir vænt um það sem mér er fært og er handunnið en ég föndra alls ekki sjálf svo ég hef oftast keypt mitt skraut.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Helstu breytingarnar eru kannski þær að núna í dag er ég að sjá um utanumhaldið og undirbúning jólanna eftir að hafa á yngri árum verið meira að njóta þeirra án ábyrgðar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Ég er alin upp við það að fá rjúpu á jólunum og hún er alveg ómissandi. Við sjálf erum með fyllt lambalæri.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Ég myndi mest af öllu bara vilja verja þeim heima. Það er margt við jólin og hefðirnar sem ég myndi ekki vilja missa af.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Já, ég myndi segja það. Það er aðallega tilhlökkunin að eiga góðar stundir með fjölskyldunni, skapa fleiri minningar og finna gleðina og friðinn sem fylgir hátíðinni.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Nei, ekki þannig. Ég er mjög nægjusöm og þakklát fyrir allt sem ég fæ. Ef börnunum mínum líður vel þá er það líklega besta gjöfin.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Að öll börn i heiminum finni frið í hjarta og hafi gaman af lífinu.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Ég er ekki komin það langt í huganum en ætli það verði ekki á þá vegu að setja sjálfa mig ofar á forgangslistann, skapa fleiri minningar og njóta lífsins. Næsta ár verður frábært. Stelpan útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja og strákurinn útskrifast úr Gerðaskóla. Ég ætla að ferðast með fjölskyldunni og fylgja mínum mönnum í Víði eftir út um allt land.