Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Móna Lísa fær túnfisk í jólamatinn
Margrét með eitt ömmubarna sinna, Mónu Lísu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. desember 2024 kl. 07:00

Móna Lísa fær túnfisk í jólamatinn

Fannst á verkstæði á Fitjum eftir tæp sjö ár

„Ég var búin að fá fullt af símhringingum vegna týndra katta en aldrei var það Móna Lísa. Við vorum búin að kveðja hana í huganum og því var símtalið frá Villiköttum um daginn mjög ánægjulegt,“ segir Margrét Eðvaldsdóttir, „amma“ læðunnar Mónu Lísu. Hún hafði verið týnd og tröllum gefin síðan í janúar 2017. Búið var að losa sig við allt sem tengdist læðunni svo það voru miklir fagnaðarfundir þegar Móna Lísa kom í leitirnar í nóvember.

Það var dóttir Margrétar, Elín Guðrún, sem eignaðist læðuna þegar hún var ungur kettlingur árið 2007.

„Elín Guðrún flutti erlendis árið 2010 svo við tókum við henni og hún var inni á heimilinu alveg fram í janúar 2017 þegar hún gufaði allt í einu upp. Við auglýstum eftir henni á Víkurfréttum, á samfélagsmiðlum og höfðum líka samband við Kattholt þar sem hún er örmerkt. Við leituðum út um allt, fengum margar hringingar, m.a. frá Grindavík en allt kom fyrir ekki, aldrei var það Móna Lísa okkar. Við vorum búin að afskrifa hana, það var mjög kalt á þessum tíma sem hún hvarf og við vorum hrædd um að hún hefði orðið úti. Við vorum búin að losa okkur við allt sem fylgdi henni, kisuklósettið, búrið og bara allt saman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þau sem eru með dýraverndunarfélagið Villiketti eru að gera ofboðslega góða hluti. Þau fréttu af ketti í gámi við verkstæði á Fitjum og ég fékk símhringingu seint að kvöldi í nóvember. Ég var spurð hvort ég eigi ekki kött sem heitir Móna Lísa. Mér hálfbrá og svaraði að ég hefð

i átt kött með því nafni en þá var mér sagt að nei, hún væri sprelllifandi og biði þess að komast heim og kona frá Villiköttum kom með hana til okkar. Hvernig henni tókst að lifa í öll þessi ár er önnur saga, einhver góðviljaður hefur gefið henni að borða og þegar ég fór með hana til dýralæknis til að fá ormalyf og athuga með ástandið á henni, sagði dýralæknirinn að hún hafi verið vel á sig komin, einhver hlyti að vera búinn að hugsa um hana allan þennan tíma. Hún var pínu tætt og úfin þegar hún fannst, frekar vör um sig. Mér fannst eins og hún sæi ekki eins vel en hægt og bítandi hefur hún komið til baka og við erum farin að kannast við hana eins og hún var.“

Þarna er Móna Lísa ungur kettlingur.

Þurrmatur en fær túnfisk í jólamatinn

Margrét segir að Móna Lísa taki lokasprettinn í sínu lífi hjá þeim hjónum en kettir lifa venjulega ekki lengur en ca. tuttugu ár.  Miðað við það á læðan u.þ.b. þrjú ár eftir í þessu lífi. Spurning hvar hún er með sín níu líf.

„Elín er með tvo ketti, hund og tvö börn og það er alveg nóg fyrir hana. Þess vegna mun Móna Lísa vera hjá okkur og hún virðist vera ánægð með að vera komin heim. Ég var fyrst smeyk við að hleypa henni út en nú er hún farin að taka rölt í kringum húsið þegar veðrið er gott og kemur aftur inn, hún var vön að vera mikið úti. Hún er farin að gera sömu hluti og hún var vön, hún er farin að vekja mig á morgnana en það tók hana aðeins lengri tíma að taka mig í sátt en aðra fjölskyldumeðlimi. Í dag erum við orðnar bestu vinkonur. Yngsti sonur okkar býr hjá okkur og Móna Lísa stökk  beint upp í fangið á honum og eins á manninum mínum. Yngsta barnabarnið er sömuleiðis mjög vinsæl hjá Mónu, það er bara yndislegt að hún skuli vera komin til baka.

Við verðum að passa okkur á hvað við gefum henni að borða, hún hefur verið að fá blautmat en er farin að geta borðað þurrmat. Á sínum tíma fékk hún bara kattarmat, við vorum ekki að gefa henni fisk eða annað slíkt því það fór illa í feldinn á henni en á jólunum ætla ég að opna túnfiskdós og gefa henni. Henni finnst túnfiskur afskaplega góður,“ sagði Margrét að lokum.

Móna Lísa er mikil barnagæla.