Palóma
Palóma

Mannlíf

Sorporkustöð er framtíðin
Hópur frá Íslandi kynnti sér sorporkustöðvar í Finnlandi nýlega en Finnar eru mjög framarlega í rekstri þeirra.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 21. desember 2024 kl. 06:47

Sorporkustöð er framtíðin

Hagkvæmt að byggja sorporkustöðv á Suðurnesjum sem gæti þjónað öllu landinu. Gæti framleitt bæði rafmagn og heitt vatn og yrði staðsett í grænum iðngarði.

Mjög hagkvæmt er að byggja sorporkustöð í Helguvík/Bergvík á Suðurnesjum sem gæti tekið við öllum brennanlegum úrgangi sem til fellur á Íslandi, um 140 þúsund tonn, þar af um 120 þúsund á suðvesturhorni landsins. Í stöðinni yrði notast við hringrásarkerfi þar sem úrgangur er brenndur og notaður til orkuframleiðslu, á heitu vatni og rafmagni. Kostnaður gæti verið á milli tuttugu og þrjátíu milljarðar. Framkvæmdir gætu tekið tvö til þrjú ár.

Fulltrúar Sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku á Suðurnesjum, Sorpu í Reykjavík og aðilar frá Umhverfisráðuneytinu hafa að undanförnu kannað grundvöll fyrir byggingu slíkrar stöðvar og undirbúið stofnun félags um áframhald þess máls. Þeir heimsóttu nýlega og kynntu sér sorporkustöðvar í Finnlandi sem nýta úrgang til að framleiða raforku og heitt vatn en Finnar hafa verið leiðandi í nýtingu sorporkustöðva með umhverfisvænni nálgun.

Ísland framleiðir í dag um 140 þúsund tonn af brennanlegum úrgangi og stór hluti af honum er sendur erlendis í orkuendurheimt. Meðal samstarfsaðila í byggingu sorporkustöðvar gæti verið HS Orka sem gæti nýtt heitt vatn frá stöðinni og lagt meiri áherslu á framleiðslu rafmagns. Finnland hefur áralanga reynslu af því að nýta úrgang til orkuframleiðslu, en með því að bæta tækni hefur Finnum tekist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi tækni felur í sér háþróaða ryk- og mengunarhreinsun sem tryggir að útblástur frá sorporkustöðvum sé sem minnstur. Samkvæmt skýrslum frá stjórnvöldum hefur sorporkuvinnsla í Finnlandi verið talin vera betri kostur en urðun eða hefðbundin sorphirða, þar sem hún skilar bæði orku og dregur úr losun metans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Rekstur sorporkustöðva í Finnlandi hefur gengið mjög vel. Þær eru tæknilegar og mjög snyrtilegar og mengun er í lámarki.

Leysir vanda Íslendinga

Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku, segir málið mjög spennandi og ferðin til Finnlands hafi styrkt þá trú hans og fleiri í undirbúningshópnum um að bygging sorporkustöðvar í Helguvík/Bergvík á Suðurnesjum sé besti kosturinn í úrgangsmeðhöndlun fyrir landið allt. Hann segir að ný sorporkustöð á Suðurnesjum gæti leyst vanda Íslendinga til næstu áratuga.

„Bygging sorporkustöðvar gæti tekið tiltölulega stuttan tíma eða um tvö til þrjú ár og fyrir minna fé en við höfum reiknað með í undirbúningsvinnunni. Heildarkostnaður er áætlaður 20-30 milljarðar. Stöð sem myndi taka við 130 til 140 þúsund tonnum af úrgangi myndi geta tekið við nær öllum úrgangi sem fellur til á Íslandi og hentar til brennslu.  Þetta er lyktarlaust og snyrtilegt og tilfinningin sem maður fékk í heimsókninni til Finnlands er eins og að maður sé í orkuveri. Orkuframleiðsla er búbót en stöðin getur framleitt um 12 megavött af rafmagni og um 140 lítra á sekúndu, um 80 gráðu heitt.“

Steinþór segir að gerður hafi verið samanburður á að byggja eina stóra stöð sem yrði staðsett á Suðurnesjum eða tvær. „Við höfum gert samanburð á því að byggja eina stöð sem myndi sinna öllu landinu og að byggja eina heldur minni á suðvesturhorninu og aðra litla eða 20 þúsund tonna stöð í Eyjafirði. Það er mun hagkvæmara á nær allan hátt að byggja eina stöð. Áskorunin fyrir okkur er að ná saman um þetta, landið um kring og þannig tryggja hámarks hagkvæmni í þessu. Þörfin fyrir sorporkustöð er mikil því Íslendingar eru að flytja mikið magn sjóleiðina til útlanda.“

Niðurgreiðsla fjárfestingar hröð

Ýmsar leiðir eru mögulegar í fjármögnun en rekstur sorporkustöðvar stendur vel undir slíkum skuldbindingum. Niðurgreiðsla fjárfestinga í Finnlandi hefur verið hröð í háu orkuverði síðustu árin en nýjungar í orkunýtingu eru mjög áhugaverðar. All nokkur störf skapast, m.a. fyrir tæknimenntað fólk. Mannaflaþörf svona stöðvar er um tuttugu til þrjátíu manns að meðaltali í um 130 þúsund tonna stöðvum í Finnlandi. Auk beinna starfa kemur fjöldi verktaka að starfseminni, m.a. í viðhaldi. Framleitt er allan sólarhringinn og unnið er á vöktum.

Í vinnu undirbúningshópsins hefur komið fram að uppbygging brennslu sé stórt verkefni en með byggingu sorporkustöðvar væru Íslendingar að færa innviði til úrgangsmeðhöndlunar inn í samtímann og nýta virðisauka af úrganginum okkar hér heima. Sérfræðiþekking myndi skapast og góð störf og síðast en ekki síst viðbótar orkulind. Allt saman gert í sátt og samlyndi við nærumhverfið. Óvissa ríkir þó um frekari flokkun og hvernig orkugildið gæti endað en mögulega gæti það nálgast 11 Mj/kg með aukinni flokkun. Steinþór segir að ný skref í  flokkun heimilissorps hafi verið stigin á Suðurnesjum fyrir ári síðan og gangi vel. Verði sorporkustöð reist í Helguvík mun Kalka þó hafa áframhaldandi hlutverki að gegna m.a. með móttöku á ýmsum úrgangi sem ekki er heppilegur fyrir nýja stöð.


Náttúran í bakgarðinum

Guðný Birna Guðmundsdóttir, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, sagðist eftir þessa kynningarferð til Finnlands vera mun jákvæðari fyrir svona byggingu. „Við búum við það að vera með ótrygga náttúru í bakgarðinum. Þegar Njarðvíkuræðin fór og heita vatnið síðasta vetur upplifðum við eitthvað nýtt. Við skoðuðum stöð í Finnlandi sem tekur 120 þúsund tonn af úrgangi á ári en hún sér 30 þúsund manna samfélagi fyrir heitu vatni. Aukaafurð af þessari vinnslu sem hægt er að nýta á Suðurnesjum. Það eru 550 stöðvar í Evrópu og yfir þrjú þúsund stöðvar í heiminum. Við þurfum að rýna nánar í þetta. Hvernig á t.d. að flytja úrganginn, á að keyra Reykjanesbrautina og eða sigla. Við þurfum að kynna þetta vel fyrir okkar íbúum eftir erfiða reynslu í byggingu stóriðju í Helguvík sem hefur ekki gengið. Þess vegna var mjög gott að sjá með eigin augum þessar stöðvar í Finnlandi sem allar ganga mjög og eru í sátt við samfélagið og nærumhverfið.“


Mikilvægt að vanda til verka og upplýsa

Bergný, Magnús og Elín eru fulltrúar Kadeco og Suðurnesjabæjar.

„Ef tekin yrði ákvörðun um að staðsetning á sorporkustöð verði í Helguvík eða Bergvík væri um mjög stórt akkerisverkefni að ræða fyrir svæðið og kæmi miklu lífi á hringrásargarðinn,“ segja Elín Guðnadóttir og Bergný J. Sævarsdóttir hjá Kadeco en þær voru í íslenska hópnum í Finnlandi.

„Í samtölum við gestgjafa okkar í Finnlandi var alltaf tekið fram að ef Íslendingar ætli að setja upp hátækni sorporkustöð er ætíð mælt með því að koma stöðinni fyrir í hringrásargarði þar sem hægt væri að nýta hliðarafurðir sem verða til. Frá því að okkar verkefni hófst við að byggja upp sýn fyrir hringrásargarð í Helguvík og Bergvík hefur komið fram að sorporkustöðin myndi einnig auka verulega á orkuöryggi á Suðurnesjum og landinu öllu í raun. Þegar litið er til umhverfissjónarmiða má ætla að það sé betri kostur að brenna sorpi hérlendis og nýta hliðarafurðir hér á landi í stað þess að flytja það úr landi þar sem aðrir nýta sér góðu áhrifin. Mikilvægt er að vanda til verka og upplýsa samfélagið um öll þau áhrif, m.a. útlit slíkrar brennslu.“


Hvað eru sorporkustöðvar?

Sorporkustöðvar umbreyta úrgangi sem ekki er hægt að endurvinna í orku, oftast í formi rafmagns og hita. Þetta ferli kallast orkunýting úrgangs (Waste-to-Energy, WtE). Í stað þess að urða úrgang, sem getur valdið mengun, er honum brennt við háan hita í sérhæfðum ofnum, og orkan sem myndast er notuð.

Sorporkustöðvar í Finnlandi eru mjög tæknilegar og snyrtilegar. Þær eru staðsettar í stórum borgum eins og Helsinki og Tampere, sem vinna úr úrgangi frá milljónum íbúa. Stöðvarnar nýta einnig tækninýjungar til að hámarka endurvinnslu og orkunýtingu, t.d. með því að nýta fjölbreytta úrgangsflokka (plast, pappír, lífrænt efni o.s.frv.). Með háþróaðri hreinsitækni er mengun í lágmarki. Þá framleiða þær hita og rafmagn fyrir samfélög.

Hverjir eiga?

Eigendurnir í Finnlandi eru að stærstu leyti sveitarfélögin í nærsamfélagi sorporkustöðvanna en þó eru dæmi um að einkaaðilar komi að rekstrinum með þeim.

Í grænum iðngarði?

Staðsetning nýrrar sorporkustöðvar í grænum iðngarði í Helguvík/Bergvík á Suðurnesjum gæti verið vítamínssprauta fyrir uppbyggingu í því verkefni og framtíðarsýn sem Kadeco, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbær vinna að og er hluti af nýrri Þróunaráætlun sem var kynnt nýlega. Nákvæm staðsetning hefur ekki verið ákveðin en þó í nágrenni við Kölku.

Hvað verður reykháfurinn hár?

Á þessum myndum má sjá útlit nokkurra sorporkustöðva, í Vín í Austurríki, Kaupmannahöfn í Danmörku, Rotterdam í Hollandi, Tokyo í Japan og Tampere í Finnlandi. Sjá má á þessum dæmum að talsvert er lagt í útlit stöðvanna, síst kannski í Tampere en íslenski hópurinn heimsótti þá stöð meðal annars. Eitt af því sem hefur farið fyrir brjóstið á mörgum á Suðurnesjum var hár reykháfur á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Á myndunum má sjá háa reykháfa en í Tampere er hann 75 metra hár. Þegar útlit bygginganna og umhverfi er í lagi hefur hæð þeirra ekki truflað fólk.