Heims um ból í Njarðvíkurkirkju færir jólaandann
Pálína Heiða Gunnarsdóttir er eins njarðvísk og þær gerast og eiginmaðurinn er sömuleiðis grænn í gegn. Palla eins og hún er jafnan kölluð, hefur unnið hjá Icelandair Cargo í yfir tuttugu ár. Palli og Palla eiga þrjú börn, synirnir tveir eru á kafi í körfubolta eins og pabbinn var, Kristinn leikur með Valsmönnum en Elías Bjarki er í námi í Bandaríkjunum og spilar körfubolta. Elsa Lind er yngst barna hjónanna og síðasta vor tókust þau á hendur nýtt hlutverk þegar Kristinn fjölgaði mannkyninu með dótturinni Bríeti Björgu. Pöllu og Palla hlakkar mikið til að eyða fyrstu jólunum með barnabarni sínu.
Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Árið 2024 var ár umbreytinga hjá stórfjölskyldunni þar sem skyldfólkið okkar úr Grindavík þurfti að yfirgefa heimilin sín sem hefur tekið verulega á fyrir þau. Við finnum að sjálfsögðu til með þeim en erum jafnframt þakklát fyrir að hafa þau nálægt okkur hér í Reykjanesbæ. Við fórum erlendis í sumar að horfa á Elías Bjarka spila körfubolta með U20 landsliðinu þar sem hann stóð sig vel, svo í haust þá flutti hann til Ameríku og hóf nám í háskóla og er að spila körfubolta þar. Svo fögnuðum við með Kristni þegar hann varð Íslandsmeistari með Val í körfunni í vor sem var mjög skemmtilegt. Við fórum á fótboltamót til Vestmannaeyja með Elsu Lind þar sem gleðin var allsráðandi og þær stóðu sig vel. En það sem stendur mest upp úr er að sjálfsögðu nýtt hlutverk hjá okkur Palla þar sem við urðum amma og afi í maí og eignuðumst litla ömmuprinsessu, sem stækkaði hjartað okkar um nokkur númer.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
River með Joni Mitchell er uppáhalds akkúat núna en hátíðlegasta lagið er Heims um ból, sungið í Njarðvíkurkirkju á aðfangadagskvöld í miðnæturmessu, þá fær maður jólaandann yfir sig.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Christmas Vacation er mynd sem við horfum á fyrir hver jól með fjölskyldunni og hlægjum af sömu bröndurunum.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Við skreytum saman piparkökuhús með stórfjölskyldunni sem mér finnst skemmtileg hefð. Förum í laufabrauð með Palla fjölskyldu sem er áratuga löng hefð sem gaman er af og svo förum við alltaf í hangikjöt og borðum laufabrauðið sem við gerðum í hádeginu á jóladegi. Við bökum lakkrístoppa og mömmukökur, búum til samverustundir með fjölskyldunni og vinum. Svo reynum við alltaf að fara á tónleika með Baggalút fyrir jólin því þeir eru svo skemmtilegir.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Hlusta á klukkurnar hringja inn jólin kl 18:00 og fara í miðnæturmessu í Njarðvíkurkirkju.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Ég man eftir því að ein jólin fékk ég skíði frá mömmu og pabba, það var einkar góð gjöf sem ég notaði mikið sem krakki.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Fyrstu jólin sem ég man eftir eru örugglega þegar ég hef verið ca 4-5 ára þegar ég og Erla Svava vinkona mín úr næsta húsi fengum að leika okkur saman á náttfötunum á jóladagsmorgni með nýja dótið okkar. En minningar um jólin er fyrst og fremst dásamlegar samverustundir með fólkinu sem er farið frá okkur og söknuðurinn að hafa þau ekki með okkur á þessum tíma.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Ég á handgert gamaldags postulíns jólatré sem ég fékk eftir að amma Palla dó sem mér þykir vænt um og set alltaf upp. Svo á ég jólaskraut frá börnunum sem ég set alltaf upp og finnst mér það skemmtilegt og vekur upp góðar minningar.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Við fjölskyldan erum eiginlega svo til nýbyrjuð að halda okkar eigin jól. En jólin voru alltaf haldin hjá foreldrum mínum, núna hefur það breyst og höldum við jólin heima hjá okkur og bjóðum þeim til okkar sem er líka skemmtilegt, að halda eigin jól en það þarf þó allt að vera eins og það var hjá mömmu og pabba og má litlu breyta því þetta er hátíð hefða. Maður kann líka betur að meta hvað mamma og pabbi lögðu mikið á sig við að halda jólin hátíðleg fyrir okkur ár eftir ár.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Við erum með humar, hamborgarhrygg og heimalagaðan ís á aðfangadag. Sósan verður að vera uppbökuð alveg eins og mamma gerir hana og svo heimalagaður í a la pabbi sem hann græjar fyrir okkur á hverjum jólum og er agalega góður gamaldags ís. Ásdís Björk mágkona mín gerir líka rosalega góðan ananasfrómas og við kíkjum í heimsókn og fáum ís og frómans á aðfangadagskvöld.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Heima hjá mér með öllu mínu uppáhalds fólki að skapa skemmtilegar minningar.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Ég trúi á jólaandann hann er yfir og allt um kring – mér finnst ég alltaf vera meyrari og mýkri með árunum og maður þakkar fyrir að hafa fólkið sitt hjá sér.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Gleði- og friðarjól og samverustundir með fjölskyldunni og vinum númer eitt, tvö og þrjú.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Friður á jörð
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Halda áfram að gera skemmtilega hluti, hitta skemmtilegt fólk, ferðast og heimsækja Elías Bjarka til Ameríku. Síðast en ekki síst kynnast nýju ömmu og afa prinsessunni og verja tíma með henni.