Hátt í 50 manns í Vík þegar mest var og mikið stuð
Klara Halldórsdóttir er Grindvíkingur sem nýlega er flutt í Garðinn. Klara hefur frá því að hún var lítil stelpa, verið mikil hestakona. Eftirminnilegasta jólagjöfin er kertastjaki sem sonurinn heitinn hafði byrjað á.
Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?
Þetta ár er búið að vera alls konar eins og hjá öllum Grindvíkingum. Ég er búin að flytja búslóðir nokkrum sinnum, breyting á fjölskylduhögum, flutt inn á nýtt heimili í lok september. Margar áskoranir en margar ljúfar stundir samt sem áður.
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?
„All I want for Christmas is you“ kemur fyrst upp í hugann en svo eru svo mörg íslensk jólalög sem er ljúft að hlusta á.
Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?
Love Actually og svo eru Home Alone myndirnar alltaf skemmtilegar.
Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?
Við höfum skorið út og steikt laufabrauð frá því ég man eftir mér og það er eina jólahefðin sem ég vildi ekki missa af. Síðustu jól voru mjög óhefðbundin en við gátum þó farið til Grindavíkur í húsið okkar og bakað laufabrauð, rétt náðum að klára áður en við þurftum að fara út úr bænum á tilsettum tíma.
Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?
Fjölskyldan, góður matur og almenn kósýheit. Jólasnjór er bónus.
Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?
Ég fékk frá Halldóru minni handmálaðan kertastjaka sem bróðir hennar heitinn hafði byrjað á síðustu jólin hans í grunnskólanum en ekki náð að klára. Yndislega Dóra kennari og nafna hennar var svo hugulsöm að geyma muninn svo Halldóra gæti klárað og svo gefið í jólagjöf 3 árum seinna.
Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?
Það sem stendur uppúr frá jólahátíðum í æsku eru eiginlega áramótin þar sem stórfjölskyldan safnaðist saman í Vík í mat, samveru, horft á skaupið og svo skotið upp flugeldum. Þarna voru mögulega hátt í 50 manns þegar mest var. Okkur krökkunum fannst þetta ótrúlega skemmtilegt og ómissandi.
Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?
Mér áskotnaðist fyrir allmörgum árum jólatréstoppur/stjarna sem var orðin ansi hrörleg en amma og afi í Vík höfðu átt hana og ég hélt mikið upp á.
Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?
Það var ekki fyrr en ég átti börn sjálf, þá naut ég þess enn meira að skreyta fyrir jólin og upplifði jólin meira og betur gegnum þau. Dæturnar eru mikil jólabörn og vilja halda í hefðirnar en síðstu jól og þessi eru auðvitað ekki eins og áður.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?
Ég hægelda hamborgarhrygg á aðfangadag og svo svínabóg á jóladag, alltaf klassískt og hátíðlegt. En kalkúninn á áramótum er í mestu uppáhaldi og ég er strax farin að hlakka til að matreiða hann og njóta að borða. Pössum okkur að hafa nóg svo það sé örugglega hægt að borða afganga daginn eftir.
Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?
Hjá fólkinu mínu, sama hvar það er.
Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?
Já engin spurning, jólandinn fyrir mér er umhyggja, samkennd, samvera.
Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?
Nei ég er mjög lítillát og hæ-versk þegar kemur að jólagjöfum og vantar aldrei neitt.
Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?
Friður á jörð en það er auðvitað til of mikils mælst.
Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?
Ég er vonlaus í áramótaheitum svo það eru engin slík en ég er að fara í geggjaða ferð í lok janúar, þrjár vikur til Tansaníu þar sem við göngum á fjöllin Meru og Kilimanjaro og svo verður slakað á og notið lífsins á eftir. Svo verður veturinn mjög litaður af hestamennsku þar sem yngri dóttirin verður að keppa á fullu með nokkrum Brimfaxafélögum í Meistaradeild ungmenna. Svo er margt á döfinni eftir það, Tene ferð um páskana, hestaferð, útilegur ofl.