Palóma
Palóma

Mannlíf

Er lítið fyrir músastigana og man varla hvernig síðustu jól voru
Miðvikudagur 18. desember 2024 kl. 10:39

Er lítið fyrir músastigana og man varla hvernig síðustu jól voru

Jón Halldór Eðvaldsson er eins mikill Keflvíkingur og þeir gerast enda segir netfangið sem hann notar allt sem segja þarf um það. Jonni selur bíla hjá Toyota og hefur oft verið viðloðandi körfuknattleik, bæði sem þjálfari og líka í sjónvarpi. Hann segist vera dyggur aðdáandi Liverpool en m.v. ást hans á Manchester-borg er það dregið í efa.
Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið er búið að vera að mestu alveg frábært. Ég og fjölskyldan (aðallega ég og konan) höfum verið dugleg að ferðast og njóta lífsins erlendis. Það sem stendur upp úr er ferð til Boston sem ég ásamt mínu besta fólki (fyrir utan Arnór minn sem var á Tene) fórum í og náðum ótrúlega góðum og fallegum tíma með einum af okkar allra bestu mönnum sem er nú fallinn frá. Ótrúlega verðmætt!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Ef ég nenni sungið af Helga Björns.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Úfffff, ég elska James Bond og finnst geggjað að horfa á eina af nýlegri myndunum með honum í rólegheitunum þegar konan er sofnuð.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Aðventuferðir til útlanda, oftast verður Manchester fyrir valinu en ég elska að eyða tímanum í þeirri borg og þá sérstaklega á aðventunni. Fór einmitt í eina slíka núna fyrir skemmstu með frábærum hóp (fyrir utan Ásdísi mína en hún fékk að koma með til Boston).

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Fjölskyldan mín.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Allar gjafir sem ég hef fengið í gegnum tíðina eru æði! Og svo finnst okkur Marín rosalega gaman að gefa jólagjafir, stórar sem smáar.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Þarna kemurðu að tómum kofanum. Ég man afskaplega lítið sem gerðist í gær hvað þá fyrir 40-49 árum síðan.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Ég er eingöngu með keypt skraut, við erum lítið í að gera músastiga. Konan mín er aðallega í jólaskrautinu, ég sé um seríur í glugga og tré. Það er ekkert sérstakt skraut sem ég held upp á.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Minna stress yfir því að vera í mat öllum stundum og meira að njóta í rólegheitunum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir í þínu heimili?

Ég er mjög hrifin af gæs Ala Tengdó.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Í sól og sumar yl. Það segir sig sjálft af hverju.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Ég er alls ekki trúaður maður, fyrir utan að ég trúi því að allt það góða sem þú gerir færðu til baka. Þannig að jólaandinn er eitthvað sem þú uppskerð eftir því sem þú sáir.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ekkert sérstakt, mundu að allar gjafir sem ég fæ eru æði.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Útrýma hungursneyð.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Áramótaheitið í ár er að vera betri en ég var árið 2024 og var ég alls ekki slæmur það ár. Hætta að taka í nefið. Ferðast eins mikið og ég get. Vera góður við konuna mína og börnin og ég held að ég hafi alls ekki verið slæmur á því sviði 2024, bæta bara í.