HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Hreinsar „history“ í tölvunni hjá Askasleiki fyrir jólin
Föstudagur 20. desember 2024 kl. 06:53

Hreinsar „history“ í tölvunni hjá Askasleiki fyrir jólin

Bjarni Sigurðsson er formaður Skotdeildar Keflavíkur. Hann starfar sem forstöðumaður upplýsingatækni hjá Isavia. Bjarni er kvæntur Bryndísi Björg Jónasdóttur og þau eiga fjögur börn. Bjarni stefnir á fleiri fjallgöngur á nýju ári og er með sérstakan samning við jólasveininn Askasleiki.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við skötuhjúin tókum upp á því að gifta okkur í febrúar 2024 eftir að hafa verið saman síðan 1996. Tveimur dögum áður byrjaði að gjósa. Við héldum okkur við planið, elduðum á gasi og annarsstaðar þar sem við komumst í rafmagn, ég fór í skítkalda sturtu brúðurin í ískalt bað. Henni er ennþá kalt. En hún sagði já.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Þau eru svo mörg. En þessa dagana e.t.v. Driving home for christmas með Chris Rea. Það kemur reglulega á fóninn þegar ég er á heimleið í bílnum þessa dagana og ég tengi vel við það og syng hástöfum með.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Die Hard!

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Ég og Askasleikir gerðum smá samning. Frúin fær sem sagt skógjöf frá honum á hverju ári. Í staðin kíki ég á tölvuna hans, hreinsa history og svona.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að hlusta á kirkjubjöllurnar hringja inn jólin á aðfangadag.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Ég og systkinin mín fengum Nintendo NES í jólagjöf saman væntanlega árið 1988. Ógleymanlegt.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Ætli það séu ekki jólin 1982 eða 1983. Ég hef verið á jólaballi í samkomuhúsinu í Garði og jólasveinninn var í hvítum hælaskóm. Seinna frétti ég að Marta á Bjarmalandi hafi verið að leysa sveinka af.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð?

Ég myndi segja heimagert þó svo að við kaupum flesta dótið. Mér þykir ósköp gaman að föndra sjálfur en hef haft lítinn tíma í það.

Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Það er jólakúla sem alnafni minn Bjarni í Hausthúsum átti.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Frá því að verða eftirvænting í streitu en nú í dag, kæru- og æðruleysi. Þetta reddast!

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum?

Hreindýra file.

Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Hreindýraborgarar.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Heima hjá fjölskyldunni, hef oft pælt í þessu en get ekki hugsað mér að vera annars staðar.

Trúir þú enn á jólaandann?

Já,

Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Það verja tíma með þeim sem manni þykir vænt um og sjá gleði þeirra.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Heitur pottur, keyptan á svörtum fössara.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Fría græna orku og hreint vatn handa öllum. (Ég veit þetta eru tvær gjafir)

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Fleiri fjallgönguferðir en í ár.