Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Hafði aldrei skrifað ávísun og kunni það ekki
Föstudagur 20. desember 2024 kl. 10:25

Hafði aldrei skrifað ávísun og kunni það ekki

Bókarkafli

Minn tími sem skipstjóri á Sigurði er síðasta plássið sem ég var í, áður en ég stofnaði mína eigin útgerð. Ég var búinn að vera víða, kynnast mörgu og sá fyrir löngu að ég gæti sjálfur staðið mig vel í eigin útgerð. Hafði áunnið mér traust og úr mínum frjóa sverði óx hvert blómið öðru fallegra. Ég þurfti aðeins að finna rétta bátinn, góða samstarfsmenn og láta drauminn um eigin útgerð ganga upp og verða að veruleika.

Haustið 1964 er ég stýrimaður hjá Willard Ólasyni á Hrafni Sveinbjarnarsyni, Villi bjó í næsta húsi og milli okkar var alla tíð mikill samgangur og góð vinátta. Um borð hjá honum kynntist ég vélstjóranum Jens Óskarssyni og Guðlaugi Óskarssyni sem var beitningamaður hjá okkur. Við náðum vel saman og þarna myndaðist jarðvegur til að láta drauminn minn um að fara í útgerð rætast. Við rottuðum okkur saman um að kaupa bát. Ég var með reynslu frá útgerðinni með pabba og ég gekk með hugmyndina í maganum á mér. Ég hafði frumkvæðið að því að við fórum að skoða þetta saman fyrir alvöru. Við fórum að líta í kringum okkur og ég frétti af bát, gömlum hollenskum 50 tonna stálbát, Búðafelli SU frá Fáskrúðsfirði, sem var til sölu.

Báturinn átti að kosta 1.700 þúsund, sem var ekki fráhrindandi verð svo ég hringdi í kaupfélagsstjórann á Fáskrúðsfirði og spyr um bátinn. Þegar hann áttaði sig á alvörunni hjá okkur að kaupa bátinn segir hann mér hvað þurfi til, svo kaupin geti gengið eftir. „Þú þarft að fá tvo víxla hjá Guðsteini í frystihúsinu upp á 250 þúsund hvorn og svo vantar mig 100 þúsund í peningum. Restin er áhvílandi lán á bátnum. Þetta er uppskriftin af þínum fyrstu bátakaupum væni minn ef þú vilt að þau gangi upp,“ segir kaupfélagsstjórinn föðurlegum rómi. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja kaupfélagsstjóranum að við ættum kannski bót fyrir boruna á okkur, en við áttum engan 100 þúsund kall. Þá væri það klárlega fífldirfska  að segja við nokkurn mann að við værum ábyrgðarmenn fyrir hálfri milljón í víxlum. Þó við veðsettum allt sem við ættum, konur, börn og hús, dyggði það ekki til. En áhuginn og viljinn sagði okkur allt annað og víxlasúpa hræddi menn ekki sem ætluð sér í eignin útgerð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hverra manna ert þú

Ég hafði aldrei farið áður í Landsbankann í Reykjavík og gangan þangað inn því mikil óvissuför í mínum huga. En hjá því var ekki komist ef ég ætti nokkru sinni eftir að geta slegið bankastjóra og bankann um 100 þúsund kall og draumur um bátakaup að rætast. Hugurinn er í uppnámi og ég slæ í og úr þegar ég er að stappa í mig áræði og telja mér trú á sjálfan mig og getu. Ég var kominn inn í þennan virðulega banka í fyrsta skipti á ævinni og listaverkin eftir Kjarval og mikilfengleg byggingin heilluðu mig. Ég hefði kannski átt að koma hingað fyrr og skoða þessa ómetanlegu list þó ekki væri annað. En ég var alveg óreyndur í bankaviðskiptum, hafði aldrei þurft á banka að halda fyrir mig persónulega. Átti reyndar kostulegan fund með bankastjóranum í Danmörku sem tók við fullum poka af sænskum seðlum sem greiðsla fyrir síldina forðum. En þá fór ég aldrei í bankann, afhenti honum pokanna á bryggjunni með gargandi svartbak allt í kringum okkur. En ég var og hef alltaf verið passasamur í fjármálum, en þarna var ég í fyrsta skipti á ævinni kominn í stóru tölurnar sem ég hafði aldrei átt við áður.

Ég settist inn á biðstofu bankastjórans sem var þéttsetin af fólki sem var væntanlega með svipaðar hugmyndir og ég sem bankastjórinn ætti að greiða úr, með því að lána okkur peninga. Veggirnir á biðstofunni gáfu forskrift að stemmningunni. Þungbúnar dökkar viðarklæðningar og ljósið frá ljóskúlunni myndaði ótal skugga á fulningarnar og gestina sem ég horfði á og voru örugglega í sömu erindagjörðum og ég. Sækja um lán, kannski voru ekki allir að kaupa bát. Örugglega ekki litla fíngerða konan sem ég tók eftir, hún var ekki að kaupa bát, kannski kjólabúð, eða vantaði gjaldeyri til að flytja inn nælonsokka sem voru nýjasta tíska á þessum tíma. Það var einhver fiðringur í mér, óviss, vissi ekki á hverju ég ætti von og er djúpt hugsi. Þá er loks komið að mér. Ég geng inn á mikilfenglega skrifstofuna og þar situr maður við glæsilegt skrifborð. Hann er alveg teinréttur og skrifborðið fyrir framan hann er autt, nema á því stendur honum á hægri hönd svartur sími. Hann heilsar mér kurteisislega og bendir mér á að setjast í stól beint á móti sér og spyr mig svo: „Hvað er þér á höndum ungi maður?“ Hann horfir á mig og bætir við: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ Ég fór að segja honum alla rulluna sem ég var búinn að semja í huganum og átti að vera söluræðan mín. Ræðan sem réði því hvort ég væri að fara að kaupa bát eða ekki og þessi maður varð að falla fyrir rökum mínum. Hann hlustar með athygli, horfir á mig þangað til að ég hætti loks að tala. Meðan ég talaði hugsaði ég, út úr þessum manni hef ég ekki neitt, hann er ekki að fara lána mér krónu með gati. Þá spyr hann: „Ertu Grindvíkingur, hvaðan ertu og hverjir standa að þér?“ Ég segi honum að ég sé frá Dalvík og hverra manna ég sé. Hann horfir ákveðið í augun á mér, ræðir þetta ekki frekar en segir svo. „Þegar þú ferð niður stigann þá er gjaldkerastúkan á hægri hönd, þar mun bíða eftir þér ávísanahefti með 100 þúsund króna inneign. Ef þú notar ekki heimildina eða kaupir ekki bátinn þá kemur þú aftur hingað í bankann og skilar ávísanaheftinu.

Ég hef líklega verið léttstígur á göngunni niður í gjaldkerastúkuna, eftir þessa óvæntu og mögnuðu afgreiðslu. Stærstu hindruninni hafði verið rutt úr vegi fyrir því að ég og við félagarnir værum að uppfylla drauminn um að bátakaupin væru að rætast og framtíðin að taka nýja stefnu.

Hópsnes stofnað í skugga verkfalls

Það voru fagnaðarfundir þegar ég kem heim til Grindavíkur og hitti fyrir Jens og Gulla með fréttirnar. Við áttum ekkert orð yfir þessa ótrúlega ferð mína í bankann og það einkennilega var að ég gleymdi að spyrja bankastjórann að nafni í öllu stressinu. Það átti eftir að valda mér hugarangri að vita ekkert um þennan velgjörðarmann minn. En seinna var það afi minn á Grund sem leysti gátuna að svo miklu leyti sem það var gert. Okkur félögum var ekkert að vanbúnaði að taka næsta skref í bátakaupunum og fara austur á Fáskrúðsfjörð og skoða bátinn. Tíminn þetta haust hafði liðið hratt á línunni á Hrafni og þetta var allt að gerast korteri fyrir jól. Við pöntum okkur far með Esjunni austur á firði og lögðum í‘ann á nýársdag 1965, sem jafnframt var formlegur stofndagur fyrirtækis okkar Hópsnes h/f. Það byrjuðu margir útgerð með lítið á milli handanna. Ég man vel eftir því að þegar við fórum austur með strandferðaskipinu Herðubreið, þá áttum við ekki meira en svo fyrir farinu. Við vorum ungir og bjartsýnir og ég hef ekki þurft að taka mörg skref til baka í lífinu. Mín gildi felast í sókn, halda áfram og líta aldrei til baka.

Við skoðuðum bátinn og tókum hann upp á Seyðisfirði og allt reyndist í lagi. Þá var ekkert annað að gera en ljúka við kaupsamninginn sem Kaupfélagið lagði fram og við skrifuðum undir. Við, nýju eigendurnir, kvittuðum undir víxlana og þá var ekkert eftir annað en að greiða 100 þúsund kallinn úr ávísanaheftinu. En þá kom upp svolítið sérstök staða, ég hafði aldrei fyllt út ávísun og hreinlega kunni það ekki. Hafði ekki einu sinni átt tékkhefti eins og það var kallað. Við vorum því blautir á bak við eyrun í viðskiptum, óskrifað blað sem sagan átti eftir að fylla út. Ég fékk því alvanann kaupfélagsstjórann til að fylla út ávísunina fyrir mig upp á 100 þúsund kall og ég kvittaði síðan undir. Þarna var í fyrsta skipti skrifuð út ávísun af reikningi 301, sem er enn til 59 árum síðar. Það er ekki svo algengur stöðugleiki í fjármálum fyrirtækis, sem enn er skráður á hreint blað.

Það voru stoltir eigendur sem sigldu Búðafellinu SU 90., til Grindavíkur í fyrsta skipti og fljótlega fórum við í að græja bátinn á fyrstu vetrarvertíðina. Það kostaði sitt að kaupa línu og net, baujur og dreka, gera og græja bátinn sem best fyrir það sem í vændum var. Til að standa undir þeim kostnaði  vantaði okkur útgerðarlán. Ég fer aftur í Landsbankann í Reykjavík en nú til þess að fá útgerðarlán. Þeir sem þá tóku á móti mér byrjuðu á því að skoða stutta viðskiptasögu mína í bankanum. Þeim var alveg fyrirmunað að skilja hvernig ég hafði fengið lánaða peninga fyrir bátakaupum án þess að setja veð fyrir láninu. Ég fékk engu að síður útgerðarlán, en til þess varð ég að veðsetja húsið mitt og var það lengi undir eftir þetta.

Það blés ekki byrlega fyrir nýrri útgerð. Þegar við erum að skrifa undir samninginn um kaupin er að skella á sjómannaverkfall við Suðvesturland. Þegar við komum heim voru flestir bátar bundnir við bryggju og mikil harka í samningsaðilum. Ég sagði strákunum að við héldum okkar striki, við ættum bátinn og gætum róið þrír á línu. Eftir að báturinn var klár beittum við alla línuna sem við áttum og fórum svo þrír í útræðið, fyrsta róðurinn á Búðafellinu. Við bárum okkur vel, en það var helvíti snúið að róa þrír á línu. Það var rosalegt bras, en það var ekkert gefist upp ef við ætluðum að lifa af. En við vorum að hefja rekstur sem krafðist þess að við gerðum allt sem í okkar valdi stæði til að skapa útgerðinni tekjur. Afborganir á lánum bíða ekki eftir að verkföll leysist, eða spyrja hvort að menn séu ekki örugglega á sjó að afla tekna. Verkfallið leystist í byrjun febrúar og við fórum fljótlega á net og okkar fyrsta vertíð á Búðafellinu gekk vel. Í lok vertíðar var skipt um nafn á bátnum og var hann skráður Hópsnes GK. 77. Það nafn hefur fylgt mér í 60 ár.

Félagarnir í Hópsnesi, fv. Gulli, Eddi og Jens.

Sagan af bankamanninum sem lánaði mér 100 þúsund krónur út á andlitið á mér, sótti alltaf á mig. Ég hafði ekki komist að því hver maðurinn var sem lánaði mér allan þennan pening. Og þá hafði ég aldrei fengið svar við þeirri spurningu, hvernig á því stóð að þessi óvanalega fyrirgreiðsla stóð mér til boða. Sumarið eftir fyrstu vertíðina hitti ég afa minn á Grund og fer að segja honum þessa sögu og reynslu mína úr bankanum. Þegar afi hafði hlustað án þess að trufla frásögn mína segir hann. „Ég er ekki hissa á því að hann hjálpi þér, við erum góðir kunningjar við Svanbjörn Frímannsson. Ég hefði verið mjög hissa ef hann hefði ekkert gert fyrir þig og þá hefði ég látið hann heyra það. Ég var búinn að gera honum gott eitt til.“ Dýpra náði ég ekki í þetta mál og fékk aldrei neitt meira upp úr þeim gamla. En við félagar stóðum við okkar, við fiskuðum vel á Hópsnesið og fjármálin gengu upp. Ég átti eftir að skrifa margar ávísanir, aleinn og óstuddur og við greiddum bæði víxla og lán sem við höfðum fengið.


Rétt fyrir jól kom út fimmta bók Ásmundar Friðrikssonar og sú þriðja á síðustu þremur árum. Ævisaga Edvards Júlíussonar, Eddi í Hópsnesi sem er tveggja binda verk, er áhugaverð og stórmerkileg saga Svarfdælings sem settist að í Grindavík. Bókin er í senn ævisaga Edda og atvinnusaga Grindavíkur á hans lífsskeiði. Eddi var farsæll sjómaður, skipstjóri og útgerðarmaður, sem kom til Eyja í gosinu 1973 til aðstoðar Eyjamönnum. Þá vertíð varð hann aflakóngur í Grindavík. Eddi var einn af hvatamönnum að uppbyggingu Bláa lónsins sem er einn þekktasti ferðmannastaður í heimi. Eddi flúði Dalvíkurskjálftann 1934 og yfirgaf heimili sitt í Grindavík í nóvember 2023 vegna jarðskjálfta og náttúruhamfara á Reykjanesi.