Palóma
Palóma

Fréttir

Fimmtungs íbúafjölgun í Vogum á Vatnsleysuströnd frá ársbyrjun 2024
Föstudagur 20. desember 2024 kl. 06:15

Fimmtungs íbúafjölgun í Vogum á Vatnsleysuströnd frá ársbyrjun 2024

„Viðlíka vöxtur á sér vart fordæmi,“ segir Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum síðasta föstudag fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun 2026-2028. Samkvæmt fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 98 milljónir króna og veltufé frá rekstri 258 milljónir króna, eða sem nemur 9,8% af áætluðum heildartekjum ársins. Þetta kemur fram í frétt frá sveitarfélaginu.

Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri, segir að við vinnu við gerð fjárhagsáætlunar hafi ríkt góð samstaða innan bæjarstjórnar um ráðdeild í rekstri. „Framlögð fjárhagsáætlun er afrakstur samvinnu fulltrúa allra flokka ásamt mikilvægu framlagi starfsmanna sveitarfélagsins.

Undirbúningur fjárhagsáætlunar var að ýmsu leyti sérstakur. Viðlíka vöxtur og átt hefur sér stað á sér vart fordæmi og flókið að spegla inn í rekstur komandi ára. Eðli máls samkvæmt eru fjárhagsáætlanir sveitarfélaga varfærnar og byggja í nokkrum mæli á sögulegum gögnum, opinberum áætlunum um þróun hagstærða og markmiðum hvað varðar einstaka rekstrarliði og fjárfestingar.  Sveitarfélagið leggur áherslu á ráðdeild í rekstri og ábyrga fjármálastjórn og hefur hverjum steini verið velt við í rekstri sveitarfélagsins nú sem áður.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ör fjölgun íbúa og rekstrarleg vandkvæði vegna aðseturskráningar   

Íbúum í Sveitarfélaginu Vogum hefur fjölgað um tæp 20% eða um 295 manns frá ársbyrjun 2024 og á slík fjölgun sér vart fordæmi í sögunni. Í ársbyrjun voru íbúar 1.500 talsins en í byrjun desember mánuðar voru íbúar 1.795 talsins. Aðseturskráðir Grindvíkingar í sveitarfélaginu er um 3,7% af íbúum sveitarfélagsins. Framan af ári voru aðseturskráðir Grindvíkingar hátt í 10% en hlutfallið lækkaði skart þegar grunn- og leikskóli hófust eftir sumarfrí. Ekkert sveitarfélag getur rekið sig með eðlilegum hætti, þegar svo hátt hlutfall íbúa greiðir ekki útsvar til reksturs sveitarfélagsins.

Viðsnúningur í rekstri

Viðsnúningur hefur orðið á rekstri sveitarfélagsins undanfarin ár þar sem hagrætt hefur verið í öllum þáttum rekstrar á sama tíma og tekjur hafa aukist í takt við hagsveiflu. Áætlað er að sveitarfélagið uppfylli að nýju jafnvægisregluna árið 2025.  Það þýðir að áætlað er að þriggja ára uppsöfnuð rekstrarniðurstaða A hluta og samanlagðs A og B hluta rekstrar verði jákvæð á árinu 2025. Bæjarstjórn ákvað að þessu sinni að lækka hlutfall A-hluta fasteignaálagningar úr 0,43% í 0,42%. Það er vilji bæjarstjórnar að leitað verði leiða til að hlutfallið geti orðið lægra í framtíðinni.  Á sama tíma er bæjarstjórn meðvituð um hversu berskjaldaður reksturinn er fyrir óvæntum skakkaföllum eins og sagan hefur sýnt.

Lausnamiðað hugarfar skilar árangri – markviss uppbygging innviða

Á árinu hefur enn á ný sannast hversu dýmætur mannauður sveitarfélagsins er, en samhliða örri íbúafjölgun reynir talsvert á lausnamiðað hugarfar sem starfsfólk hefur svo sannarlega sýnt á árinu.  Í Stóru-Vogaskóla var til að mynda stofnað lausnarteymi starfsmanna á vordögum vegna fullnýtts  húsnæðis og má nú með sanni segja að hver fermetri sé nýttur.  Það er því gleðiefni að geta upplýst um að á næsta ári er fyrirhugað að hefja hönnun á viðbyggingu við grunnskólann og standa vonir til að uppbygging geti hafist eigi síðar en árið 2026.  Þá er undirbúningsvinna hafin varðandi stækkunarmöguleika eða tilflutning leikskóla á næstu árum. 

Varðandi önnur fjárfestingarverkefni en uppbyggingu skóla og leikólahúsnæðis næstu ár, má nefna endurnýjun gatna, göngu- og hjólastíg yfir Vogastapa, áframhaldandi rakaviðgerðir í Stóru-Vogaskóla og uppbyggingu í íþróttamiðstöð.  Áfram verður unnið  að endurnýjun gatnalýsingar og að bættu umferðaröryggi.  Þá er ótalið að áfram verður unnið að leit að nýju varavatnsbóli fyrir sveitarfélagið.

Markmið um sjálfbæran vöxt sveitarfélagsins

Vöxtur sveitarfélagsins árið 2025 mun að öllum líkindum verða minni en í ár, en haldi vaxtalækkunarferlið áfram má að öðru óbreyttu búast við eftirspurn eftir húsnæði í nálægð við höfuðborgarsvæðið. Unnið verður markvisst að því á árinu 2025 að tryggja að íbúavöxtur sveitarfélagsins verði sjálfbær næstu ár enda ber sveitarfélaginu skylda að fylgja 64. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að sveitarstjórn beri, „að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum,“ segir að lokum í tilkynningunni frá Vogum.