Palóma
Palóma

Pistlar

Af Þórkötlum og öðrum grindvískum bátum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. desember 2024 kl. 06:11

Af Þórkötlum og öðrum grindvískum bátum

Náttúran svaraði kalli margra, í það minnsta núna, að fá smá snjó og sem vonandi helst fram yfir jólahátíðina og þannig að við fáum hvít jól.

Annars þá gaf nú ekki mikið á sjóinn frá því síðasti pistill var skrifaður, en það lægði þó undir rest og nokkrir bátar komust á sjóinn og reyndar þegar þessi pistill er skrifaður þá er töluverður fjöldi báta á sjó frá Sandgerði og Keflavík.

Línubátarnir sem eru að landa hérna hafa veitt ágætlega þó veður hafi ekki beint hjálpað til með sjósókn.  Ef við horfum á bátana sem hafa landað hérna, þá er Fjölnir GK með 51,7 tonn í sjö róðrum, öllu landað í Sandgerði nema 14,5 tonnum sem landað var í Grindavík. Margrét GK er með 45,9 tonn í fimm róðrum og mest 10,3 tonn, öllu landað í Sandgerði.  Óli á Stað GK 62,4 tonn í átta róðrum og mest 9,3 tonn, öllu landað í Sandgerði nema 7,4 tonnum sem landað var í Grindavík í byrjun desember.  Dúddi Gísla GK 40 tonn í sex róðrum og mest 9,1 tonn, öllu landað í Sandgerði, og Hulda GK, 4,3 tonn í tveimur róðrum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Einhamarsbátarnir eru ennþá fyrir austan, og hefur Vésteini GK gengið ansi vel, kominn með 111 ton í tíu róðrum og mest 17,4 tonn í róðri. Auður Vésteins SU 79 tonn í átta og Gísli Súrsson GK 29 tonn í fjórum. Enginn af þessum bátum er kominn suður og eru bátarnir allir að landa á Stöðvarfirði og Hornafirði. Veðuraðstæður hafa verið erfiðar fyrir fiskflutninga núna í desember, og þá aðalega útaf gríðarlega mikilli hálku, flughálku sem hefur verið á vegum fyrir austan, en þetta er töluverður akstur með fiskinn til Grindavíkur. 

Á síðasta vetri kom Auður Vésteins SU að austan snemma í desember 2023 og fór þá beint til Ólafsvíkur, en kom síðan í mars 2024 til Sandgerðis og réri þaðan og frá Grindavík fram í enda apríl þegar að báturinn fór aftur austur.

Vésteinn GK kom  mun seinna suður,  hann kom fyrst til Sandgerðis snemma í febrúar á þessu ári. Vésteinn GK var ansi lengi síðan í Grindavík en báturinn réri þar fram í júní og fór þá austur.

Gísli Súrsson GK kom á sama tíma og Auður Vésteins SU að austan, snemma í desember 2023 og fór þá beint til Ólafsvíkur. Kom á Suðurnesin um miðjan mars og var í Grindavík fram í miðjan maí þegar að báturinn fór aftur austur.

Þórkatla er nafn á bátum sem hafa róið frá Grindavík í hátt í 65 ár. Fyrst var það Hraðfrystihús Þórkötlustaða í Grindavík sem gerði út báta sem hétu Þórkatla GK 97 og Þórkatla II GK 197. Stakkavík ehf. í Grindavík hefur notað þetta nafn á báta sína og þar á meðal bát sem Stakkavík ehf eignaðist árið 2005 sem var 15 tonna yfirbyggður plastbátur með beitningavél sem hét Þórkatla GK 9. Núna hefur enn einn báturinn bæst í þennan hóp með þessu nafni, því að Stakkavík ehf. hefur átt undanfarin ár stálbát sem heitir Rán 91. Fyrirtækið hefur átt þennan bát í töluvert langan tíma eða síðan árið 2006 og útgerðarmynstur bátsins hefur verið vægast sagt töluvert öðruvísi en allra hinna bátana sem Stakkavík ehf á.  Flestir bátanna hafa einungis stundað veiðar með línu  en báturinn Rán GK hefur verið á línu, færum, netum, grásleppunetum og skötuselsnetum.  Núna hefur þessi bátur fengið nafnið Þórkatla GK 4. Báturinn hefur ekki hafið róðra en hann er útbúinn til veiða með netum.

Annars er þetta síðasti pistilinn fyrir jólin og vil ég óska ykkur lesendur góðir gleðilegra jóla og vonandi eigið þið góðan tíma saman með ástvinum ykkar og fjölskyldum.