Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Pistlar

Góð veiði í mars – bátar víða á veiðum
Baldvin Njálsson GK.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 28. mars 2025 kl. 09:00

Góð veiði í mars – bátar víða á veiðum

Marsmánuður er kominn nokkuð langt á leið og veiðin hjá bátunum hefur verið mjög góð, eins og við mátti búast. Fjöldi báta hefur verið á veiðum á svæðinu frá Garðskagavita og allt að Hafnarbergi, þar sem ýsuveiði hefur reynst afbragðsgóð. Fjölmargir línubátar hafa verið með línuna út frá Sandgerði, beint til norðvesturs. Meðal þeirra eru stórir línubátar á borð við Núp BA frá Patreksfirði, Tjald SH frá Rifi og Rifsnes SH, einnig þaðan.

Netabátar nálægt landi

Netabátarnir hafa haldið sig í Faxaflóa, og sumir verið það nálægt landi að hægt hefur verið að taka myndir af þeim með dróna – til að mynda við Straumsvík, þar sem Jón Steinar Sæmundsson, ljósmyndari úr Grindavík, hefur nýtt tækifærið.


Hér eru nýjustu aflatölur netabáta:

• Erling KE hefur fengið 389 tonn í 16 róðrum, mest 37 tonn.

VF Krossmói
VF Krossmói

• Friðrik Sigurðsson ÁR: 231 tonn í 15 róðrum, mest 22 tonn.

• Halldór Afi KE: 78 tonn í 17 róðrum, mest 9,8 tonn.

• Addi Afi GK: 66 tonn í 17 róðrum, mest 8,3 tonn.

• Sunna Líf GK: 45 tonn í 14 róðrum, mest 7,3 tonn.


Dragnótabátar sækja í sig veðrið

Veiði hjá dragnótabátunum hefur tekið við sér og nú eru margir þeirra í Sandgerði. Þar hefur m.a. Maggý VE lagt leið sína frá Vestmannaeyjum. Nýr bátur, Stapafell SH, hefur einnig hafið róðra þaðan. Hann er í eigu Péturs á Arnarstapa, sem einnig gerir út Bárð SH, bát sem hefur verið að veiða mikið af þorski í net.

Stapafell SH er hins vegar að sækja í ufsa, ýsu og kola. Þegar þetta er skrifað hefur hann farið í tvo róðra og landað um 22 tonnum.


Aflatölur annarra dragnótabáta:

• Sigurfari GK: 150 tonn í átta róðrum, mest 44 tonn.

• Siggi Bjarna GK: 132 tonn í sex róðrum.

• Benni Sæm GK: 95 tonn í sex róðrum.

• Aðalbjörg RE: 83 tonn í átta róðrum.

Í Grindavík hafa einnig nokkrir bátar landað afla. Bátar frá Einhamri hafa komið þar að, en einnig farið til Sandgerðis.


Aflatölur þaðan:

• Auður Vésteins SU: 151 tonn í 16 róðrum, mest 16,5 tonn.

• Gísli Súrsson GK: 104 tonn í átta róðrum, mest 19,8 tonn.

• Vésteinn GK: 103 tonn í 12 róðrum, mest 16,8 tonn.

Frystitogararnir á Suðurnesjum með 10 milljarða aflaverðmæti

Nú liggja fyrir allar tölur um aflaverðmæti frystitogara fyrir árið 2024. Frystitogararnir á Suðurnesjum skiluðu samanlagt rúmum 10 milljörðum króna í aflaverðmæti (FOB).

Hér eru stærstu skipin:

• Tómas Þorvaldsson GK: 3,29 milljarðar, 7.337 tonna afla.

• Hrafn Sveinbjarnarsson GK: 3,43 milljarðar, 8.383 tonna afla.

• Baldvin Njálsson GK: 3,9 milljarðar, 9.073 tonna afla.


Baldvin Njálsson GK var í öðru sæti á landsvísu yfir mest aflaverðmæti, aðeins á eftir Sólbergi ÓF.

Frekari upplýsingar um frystitogarana og aflaverðmæti þeirra má finna á vefnum Aflafrettir.is.