Leikfélag Glanni
Leikfélag Glanni

Pistlar

Saknarðu  ekki stjórnmálanna?
Föstudagur 28. mars 2025 kl. 06:50

Saknarðu ekki stjórnmálanna?

Ég er oft spurð að því hvort ég sakni ekki stjórnmálanna og hvort mig dreymi ekki um að koma aftur?

Því er fljótsvarað af minni hálfu: Nei.

VF Krossmói
VF Krossmói

Ekki misskilja mig. Ég naut þess að vera í stjórnmálum í um tuttugu ár í alls konar hlutverkum – aðstoðarmaður ráðherra í þremur ráðuneytum í níu ár, þingmaður í tæp tíu og þar af ráðherra í fjögur ár. Ég var bæði í stjórn og í stjórnarandstöðu, í þéttbýlis- og landsbyggðarkjördæmi, á uppgangstímum sem og á efnahagslegum erfiðleikatímum. Ég spilaði hlutverkin ágætlega vel, var brjálæðislega leiðinleg og alltaf rosalega reið (eða mjög fylgin mér eins og mamma mín hefði orðað það) þegar ég var í stjórnarandstöðu og með einstaklega mikinn samningsvilja þegar ég var komin í ráðherrastól og þurfti að semja við stjórnarandstöðuna við að koma málum í gegnum þingið. Ég fékk endalaus tækifæri og var treyst fyrir alls konar verkefnum, stórum sem smáum, og það sem mikilvægast var, hafði þau forréttindi að fá að taka þátt í að gera gott íslenskt samfélag enn betra. Í þessu starfi kynntist ég fjöldanum öllum af frábæru fólki og eignaðist suma af mínum bestu vinum um allt land og úr öllum flokkum.

Þetta hljómar nú bara nokkuð vel og þegar ég lít til baka þá vel ég að dvelja við þennan hluta stjórnmálanna. Oftast var nefnilega gaman, en stundum var þetta hreint út sagt hörmulega leiðinlegt. Eins og lífið sjálft myndi einhver segja.

En þá aftur að spurningunni um söknuðinn eftir stjórnmálunum – af hverju er ég svona fljót að svara neitandi? Ástæðan fyrir því er nokkuð einföld. Ég hét því þegar ég hætti að hér eftir myndi ég aðeins vinna að skemmtilegum verkefnum með skemmtilegu fólki og það er ekki endilega hægt að tryggja í stjórnmálastarfi. Pólitíkin dregur nefnilega bæði það besta og það versta fram í fólki.

Það þarf hins vegar gott fólk í öllum flokkum; lýðræðið er ekki fullkomið sagði Churchill, en það er það besta sem við höfum. Það hefur ekki átt betur við í lengri tíma. Pössum upp á það.