Það þarf fólk eins og þig
Okkur foreldrum barna í Reykjanesbæ var boðið á stórtónleika allra sjö ára flautuleikara í Hljómahöll. Á sviðinu þennan dag stóðu nokkur hundruð börn og spiluðu á blokkflautur og slagverkshljóðfæri og sungu ásamt hljómsveit tónlistarskólans. Það sem greip þó helst athygli mína (svona fyrir utan barnið mitt sem ég súmmaði svoleiðis inn og út á símanum til að ná hverri nótu og hverju orði í söng) var þeirra ástkæri tónlistarkennari, Geirþrúður. Ég hvíslaði að manninum mínum að fyrir 25 árum hefði hún einmitt kennt mér á blokkflautu. Systir mín, sem er sex árum eldri en ég, var ekki lengi að taka undir það. Þarna stóð Geirþrúður og fylgdist með börnunum, rétt eins og hún hafði einmitt gert í svo fjölmörg önnur skipti. Einlæg gleðin yfir þessum litlu snillingum skein úr breiða brosinu hennar svo halda mætti að þetta væru hennar fyrstu tónleikar.
Á leiðinni heim af tónleikunum fékk ég tilkynningu í símann. Ákall til allra stuðningsmanna grænu hjarðarinnar. Aggi í sitt þúsundasta skipti að kalla fjölskyldur í bænum til fagnaðar fyrir mikilvægan leik. Hamborgarar, leikir, samvera og gleði. Á milli slíkra hátíða hendir hann svo í nokkur auka körfuboltamót, sleðaferðir með iðkendur á hólinn, aukaæfingar, krakkapartý í Akurskóla eða rútuferðir á leiki í bænum. Ég fæ það stundum á tilfinninguna að Aggi fái nokkrar auka klukkustundir í sinn sólahring sem við hin fáum ekki. Eljan og dugnaðurinn sem hann leggur í klúbbinn sinn á sér líklegast fáar hliðstæður.
Eftir margra ára misskilning tel ég mig loksins hafa komist að hinu sanna. Heil þrjátíu ár af ranghugmyndum um að aðeins þau sem mestu völdin hafa eða fallegustu hlutina eigi séu verðmætustu menn (og konur) leiksins. Það gæti ekki verið fjarri lagi. Verðmætin felast nefnilega í fólkinu sem hefur gert það að sínum lífstíl að ýta undir ógleymanlegar samverustundir og jákvæð lífsviðhorf, þó svo að það kunni að kosta þau blóð, svita og tár (lesist tíma, orku og peninga). Á mörgum stöðum í samfélaginu má finna slíkt fólk, sem beitir sér af miklum eldmóði og brennur fyrir velferð samfélagsins. Við skulum muna að gefa þeim klapp á bakið því það þarf fólk eins og þau fyrir fólk eins og okkur.