Pælingar
Fátt skekur nú heiminn meira en svonefnt tollastríð Donald Trump. Íslendingar voru svo heppnir að lenda í flokki þeirra sem fengu á sig bara 10% toll. Ég verð fúslega að viðurkenna að ég skil ekki allt þetta upphlaup vegna þessara ákvarðana Bandaríkjamanna. Hverjir eru það sem á endanum koma til með að greiða þessa tolla? Eru það ekki bandarískir neytendur? Þetta gefur þó glögga mynd af því hversu gríðarlega mikilvægur bandarískur neytendamarkaður er öðrum þjóðum heimsins.
Það hefur allavega enginn haft áhyggjur af því þegar íslensk yfirvöld hafa tekið sig til og dritað verndartollum á alls kyns varning. Ekki hef ég orðið var við að eitt einasta land hafi hefnt sín á okkur með því að leggja refsitolla á okkur á móti. Við Íslendingar höfum í áraraðir búið við ofurtolla á hinum ýmsu vörum. Bandarískar bifreiðar sem teljast á okkar mælikvarða ekki mjög svo vistvænar, fá þess vegna á sig lítil 65% vörugjöld, ofan á þær bætist svo 24% virðisaukaskattur. Þannig greiðum við tvöfalt verð fyrir bandarískan bíl. Svokallað einn fyrir tvo. Mér finnst þetta allt tómt rugl. Ef forseti Bandaríkjanna er virkilega algert fífl, eins og mörgum finnst hérlendis, af hverju eru þá allir að elta fíflið?
Það sem truflar mig meira þessa dagana er nýi kvikugangurinn. Þessi sem nálgast Reykjanesbrautina óðfluga. Það skyldi þó aldrei vera að Reykjanesbrautin færi í sundur, áður en tvöfölduninni til Hafnarfjarðar lýkur? Hvernig er viðbraðgsáætlun yfirvalda við því? Á að senda varnargarðagengið að Reykjanesbrautinni eða verður Akraborgin dregin á flot og látin sigla milli Reykjavíkur og Keflavíkur.
Svo er rétt að geta þess í lokin, sérstaklega fyrir unga karlmenn í kærustuleit, að það er ekki bara nauðsynlegt að eiga góða móður heldur er einnig nauðsynlegt að eiga góða tengdamóður. Móðir verður aldrei fyrrverandi móðir, en það getur tengdamóðirin hinsvegar orðið. Það þýðir þó ekki að hún sé skilin við fyrrverandi tengdason sinn þótt dóttir hennar sé það. Það veit enginn betur en hann Eiríkur.
Það mikilvægasta af öllu fyrir páskana er að þrír frábærir golfvellir á Suðurnesjum verða allir opnir á sumarflötum. Það er alvöru vorboði.
Gleðilegt sumar!