Stóru Vogaskóli
Stóru Vogaskóli

Pistlar

Mikið líf í mars – en apríl byrjar rólega
Föstudagur 11. apríl 2025 kl. 06:15

Mikið líf í mars – en apríl byrjar rólega

Það var mikið um að vera í mars, og nú er apríl mættur – þó hann byrji frekar rólega. Veðrið hefur ekki verið upp á sitt besta og hrygningarstopp er fram undan.
Netabátar við Sandgerði

Tveir stórir netabátar hafa verið á veiðum undan Sandgerði. Erling KE hefur landað 59 tonnum í þremur róðrum, þar af 22 tonnum í einni löndun. Hinn báturinn er Saxhamar SH frá Rifi. Ástæða þess að Saxhamar SH landar í Sandgerði er sú að hann tekur þátt í netaralli. Hann hóf veiðar í Faxaflóa og landaði þá í Reykjavík, en er nú að skoða svæðin frá Garðskaga og út að Röstinni, meðfram Eldey. Saxhamar SH hefur landað tvisvar í Sandgerði, samtals 59 tonnum – þar af voru 37 tonn í einni löndun.

Saga Saxhamars SH og tenging við Suðurnes

Saxhamar SH á sér djúpar tengingar við Suðurnesin, sérstaklega Grindavík. Hann var smíðaður í Austur-Þýskalandi árið 1967 og var einn af átján svokölluðum Bozenborger-bátum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga. Nokkrir þeirra voru gerðir út frá Suðurnesjum, meðal annars Dagfari GK og Keflvíkingur KE.

VF Krossmói
VF Krossmói

Þegar Saxhamar SH kom nýr til landsins bar hann nafnið Hrafn Sveinbjarnarson GK 255. Það má enn sjá í stefninu leifar af upprunalega skráningarnúmerinu, GK 225, sem soðið var í bátinn þegar hann kom til Grindavíkur. Báturinn var lengi gerður út frá Grindavík. Árið 1987 fór hann í miklar breytingar í Danmörku, þar sem hann fékk það útlit sem hann ber í dag. Stærsta breytingin var ný og hærri brú, og íbúðir voru færðar aftar undir hana – áður voru þær fremst í bátnum, eins og var á öllum þessum átján bátum. (Ég sjálfur var á tveimur slíkum og man vel eftir þessum íbúðum fremst í bátunum.)

Nafnið Hrafn Sveinbjarnarson lifir enn

Fyrsti eigandi bátsins var Þorbjörn ehf. í Grindavík. Fyrirtækið átti þá þrjá báta sem báru nafnið Hrafn Sveinbjarnarsson, aðgreinda með rómverskum tölustöfum:

Hrafn Sveinbjarnarsson GK 255

Hrafn Sveinbjarnarsson II GK 10

Hrafn Sveinbjarnarsson III GK 11

Þetta nafn lifir enn í íslenskri útgerð, því einn arftaki Þorbjarnar ehf., Blika Seafood, gerir nú út frystitogarann Hrafn Sveinbjarnarsson GK 255. Má því segja að nafnið hafi verið í stöðugri notkun í 58 ár.

Það sem af er apríl hefur sá togari ekki landað afla, en hann kom um miðjan mars til Hafnarfjarðar með 680 tonna afla. Þar af voru 284 tonn þorskur, 200 tonn ufsi og 115 tonn karfi.

Togaralöndun í Grindavík

Í Grindavík hafa nokkrir togarar landað undanfarna daga. Þar má nefna: Vörður ÞH – 97 tonn, Áskell ÞH – 102 tonn, Vestmannaey VE – 63 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK – 72 tonn og Bergur VE – 60 tonn. Aflinn frá Verði ÞH og Áskeli ÞH var að hluta fluttur til Grenivíkur og unninn þar. Aflinn frá hinum bátunum var unninn hjá Vísi ehf. í Grindavík. Þá landaði Sighvatur GK einnig hjá Vísi – með 88 tonn í einni löndun.