Fréttir

Þyrlan eina vonin
Barðinn í nauðum.
Laugardagur 21. desember 2024 kl. 06:48

Þyrlan eina vonin

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin. Í bókinni er, eins og nafn hennar gefur til kynna, rakin saga þyrlusveitar Landhelgisgæslu Íslands fyrstu fjóra áratugina. Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra. Tveir af höfundum bókarinnar, þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, eru reyndustu þyrluflugmenn okkar og hafa þeir, ásamt fleirum auðvitað, komið mörgum til bjargar. Þriðji í hópi höfunda er Júlíus Ó. Einarsson, þjóðfræðingur og fyrrum lögreglumaður.

Fjölmargar myndir prýða bókina, sem ætti að höfða til allra landsmanna, enda koma þyrlur Landhelgisgæslunnar nánast við sögu á hverjum degi og þar leggja menn sig í líma við að bjarga lífi þeirra sem staddir eru í hættu.

Höfundarnir, frá vinstri: Benóný Ásgrímsson, Júlíus Ó. Einarsson og Páll Halldórsson.

Hér á eftir fer lítilsháttar efni úr bókinni og er gripið niður í frásögn Sigurðar Snæfells Sigurðssonar, fyrrverandi formanns Björgunarsveitarinnar Bjargar á Hellissandi:

Snemma morguns þann 14. mars 1987 fengum við fregnir um að fiskibáturinn Barðinn GK-475 væri vélarvana í nauðum við Hólahóla á Snæfellsnesi. Björgunarsveitir voru ræstar út frá Hellnum, Arnarstapa, Ólafsvík og Hellissandi, og héldum við út á nesið. Áhafnir nærstaddra báta brugðust við og dældu út olíu til að róa brotin en svo fór að Barðinn kom inn í öldurótið og barst inn að klettunum þar sem hann skorðaðist fastur.

Brim var mikið er við komum á strandstað en fyrir sjónum okkar blasti við toppurinn af mastrinu. Í byrjun var reynt að hafa samband við áhöfnina en án árangurs. Leitað var strax við klettana að skipverjum og þurftum við að passa okkur að fá ekki brak úr bátnum yfir okkur en sjógangurinn var svo mikill að það kastaðist hátt upp í loftið og féll allt í kringum okkur. Fluglínutækið var komið upp og gert klárt til að freista þess að bjarga áhöfninni.

Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar kom svo á vettvang og var það eina vonin á þessari stundu um að bjarga mætti áhöfninni. Þyrlan byrjaði að hífa áhöfnina frá borði. Hún þurfti að lenda og losa sig við fyrstu mennina áður en hinir voru sóttir sem eftir voru um borð. Þar tók björgunarsveitin á móti mönnunum og hlúði að þeim. Aðstæður voru slæmar á strandstað meðan á björguninni stóð og þurfti að vera vel á verði því brotsjórinn gekk yfir klettana og bátinn.

Í kringum hádegi fjaraði og sjógangurinn varð minni, og var þá fært að fara um borð í Barðann. Við fórum tveir um borð, báturinn hallaðist á stjórnborða og fór ég aftur í stýrishúsið eftir bakborðssíðu hans, og varð ég að hafa mig allan við svo ég missti ekki jafnvægið. Á dekkinu voru netadræsur og brak sem ekki hefði verið gæfulegt að lenda í. Ástandið inni í stýrishúsinu var skelfilegt, þar sem brotsjórinn hafði hrifsað stóran hluta af tækjum og búnaði með sér og var það hreinlega horfið. Það var ströng áminning um að ekki má vanmeta kraftinn í Ægi, konungi sjávar. Inni í kortaklefanum mátti greinilega sjá ummerki eftir sjóinn. Eftir smá yfirferð fann ég bara eitt armbandsúr sem hékk uppi á vegg og var það hið eina sem hægt var að bjarga af persónulegum eigum áhafnarinnar. Það var ánægjulegt að geta skilað því í réttar hendur. Er ekki neinn vafi á því að kortaklefinn bjargaði áhöfninni, því ekki hefði verið möguleiki að hafast við í stýrishúsinu. Ekki var gerð tilraun til að fara um vistarverur undir dekki þar sem sjór var um allt.

Tel ég það mikla gæfu að Barðinn skorðaðist þannig að hann fór aldrei yfir á bakborða, þrátt fyrir gríðarlegan sjógang sem dundi á honum linnulaust á meðan þyrluáhöfnin sinnti hinni frækilegu björgun.

Eftir tíu daga var farið í eftirlit á strandstað. Þá var nánast ekkert eftir af bátnum.