Samkaup
Samkaup

Fréttir

Hvetur Vegagerðina til þess að skoða framtíðarsýn Ásbrúar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 29. desember 2024 kl. 06:38

Hvetur Vegagerðina til þess að skoða framtíðarsýn Ásbrúar

Guðbergur Ingólfur Reynisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, lagði fram bókun við rammahluta aðalskipulags Reykjanesbæjar varðandi Ásbrú til framtíðar.

„Í framtíðarsýn K64 Ásbrú til framtíðar kemur fram að fyrirhuguð hverfi við Reykjanesbrautina verði vel tengd við önnur hverfi Reykjanesbæjar þar sem fyrirhugað er að komi stokkur yfir Reykjanesbrautina.

Guðbergur Reynisson, Sjálfstæðisflokki, fagnar því að sjá þetta í framtíðarsýninni og hvetur Vegagerðina til þess að skoða þessa framtíðarsýn og gefa umhverfis- og framkvæmdasviði Reykjanesbæjar hugmynd um hvernig slíkur stokkur gæti litið út, hvar mundi hann byrja og hvar mundi hann enda og hver gæti verið kostnaður við gerð hans.

Nú þarf að hafa hraðar hendur þar sem þessi hluti Reykjanesbrautar er á samgönguáætlun árið 2029 til 2035 sem er handan við hornið.“

Í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar segir að auglýsingu Ásbrúar til framtíðar, rammahluta aðalskipulags, er lokið. Rammahluti aðalskipulags Reykjanesbæjar 2023-2035 er unninn af Alta í nóvember 2023.

Ásbrú hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá því að svæðið var yfirgefið af bandaríska hernum 2006 og er eitt mikilvægasta uppbyggingarsvæði í Reykjanesbæ. Staðsetningin, forsagan og aðstæður í hverfinu gera það einstakt á landsvísu og þó víðar væri leitað. Haldinn var kynningarfundur og vinnustofur með nemendum Háaleitisskóla undir stjórn Þykjó sem fengu hönnunarverðlaun Íslands 2024 fyrir verkefnið.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að senda skipulagið til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.