Umbót berst gegn breytingum á aðalskipulagi í Dalshverfi
Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi í Dalshverfi en breytingin snýr að þéttingu byggðar. Umbót hefur mótmælt þessum breytingum og lagði fram bókun á bæjarstjórnarfundi 17. desember. Þá lagði Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Umbótar fram aðra bókun á bæjarstjórnarfundi sem var að ljúka í dag, þriðjudaginn 4. febrúar.
Í bókunar Margrétar Þórarinsdóttur segir m.a.:
„Umbót getur ekki samþykkt þessar breytingar og segir nei. Við höfum þegar komið með tvær bókanir og ítrekað andstöðu okkar við þéttingu byggðar. Fyrri bókun okkar var lögð fram á bæjarstjórnarfundi þann 17. desember og sú seinni var lögð fram í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs [USK] þann 24. janúar en hún hljóðar svo:
Með leyfi forseta:
Við í Umbót teljum mikilvægt að hafa virkt samráð við íbúa þegar kemur að breytingum á aðalskipulagi. Samtal íbúa og bæjaryfirvalda þarf að vera gefandi og virkt, þar sem gott skipulag íbúðabyggðar hefur áhrif á andlega og líkamlega lýðheilsu bæjarbúa. Ekki má gleyma því að þessir íbúar keyptu sér íbúðir með það í huga að grænt svæði yrði til staðar og byggðin þéttist ekki um of. Mikilvægt er að breytingar á skipulagi séu unnar í samráði við íbúana og íbúakosning verði haldin til að tryggja að hagsmunir þeirra séu hafðir að leiðarljósi. Ég segi því nei við þessum breytingum. Þannig hljóðaði bókun Gunnars Felix Rúnarsson fulltrúa Umbótar í USK.
Þetta er virkilega sorgleg niðurstaða að breytingar á aðalskipulagi hafi verið samþykktar í USK. Meirihlutinn, Samfylking, Framsókn og Bein leið, þarf að svara fyrir þessar breytingar á deiliskipulagi. Íbúar svæðisins keyptu sér íbúðirnar með það í huga að grænt svæði yrði til staðar. Með þessari ákvörðun meirihlutans er gengið gegn hagsmunum íbúanna og þeim fyrirheitum sem gefin voru um skipulag hverfisins.
Það er grundvallaratriði að mikilvægi samráðs við íbúa sé virt og að hagsmunir þeirra séu tryggðir. Í þessu tilviki hefur samráð verið ófullnægjandi og ljóst er að íbúar eru ekki sáttir við breytingarnar. Umbót telur að í málum sem þessum, þar sem breytingar hafa bein áhrif á lífsgæði og umhverfi íbúa, eigi að halda íbúakosningu áður en endanleg ákvörðun er tekin.“
Undir bókunina ritar Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.