Áramót með vetrarbrag - kalt og víða lítill vindur
Veður um áramótin 2024-2025 verður kalt og yfirleitt rólegt. Snemma á gamlársdag verður norðaustanátt sunnanlands með snjókomu og skafrenningi, en léttir til og lægir þegar líður á daginn. Á gamlárskvöld verður hægur vindur og léttskýjað sunnan- og vestanlands, en dálítil él norðaustanlands. Þar sem vindur verður hægur geta loftgæði orðið slæm, sérstaklega á þéttbýlum svæðum. Á nýársdag verður bjart að mestu með stöku éljum norðaustantil. Frost verður 5 til 18 stig, kaldast inn til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Nánari veðurspá
Gamlársdagur: Ákveðin norðaustanátt sunnanlands snemma um morguninn og snjókoma með köflum og skafrenningur, en lægir smám saman og léttir þegar líður á daginn. Hægari vindur og lítils háttar él á Norður- og Austurlandi. Talsvert frost.
Gamlárskvöld: Fremur hægur vindur og léttskýjað sunnan- og vestanlands, en áfram dálítil él um landið norðaustanvert. Þó mun eitthvað blása suðaustantil á landinu.
Þar sem vindur verður mjög hægur, t.d. á höfuðborgarsvæðinu og einnig víða á þéttbýlum stöðum á Suður-, Vestur- og Norðurlandi, eru því líkur á að loftgæði verði slæm um kvöldið og fram á nótt.
Nýársdagur: Norðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og bjart að mestu, en stöku él norðaustantil. Frost 4 til 18 stig, kaldast inn til landsins. Vestlægari vestanlands undir kvöld og þykknar upp með dálitlum éljum.