Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Fyrsti og eini sérútbúni drónabíl landsins hjá Ægi
Björgunarsveitin Ægir hefur útbúið fyrsta og eina sérútbúna bílinn sem er stjórnstöð fyrir dróna.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 30. desember 2024 kl. 09:17

Fyrsti og eini sérútbúni drónabíl landsins hjá Ægi

Björgunarsveitin Ægir í Garði er að leggja lokahönd á fyrsta og eina sérútbúna drónabílinn hér á landi. Um er að ræða bíl af gerðinni Volkswagen Crafter með fjórhjóladrifi. Bíllinn er innréttaður sem færanleg stjórnstöð fyrir dróna sem verða notaðir við leit og eftirlit.

„Hugmyndin að drónabílnum er nokkurra ára gömul og við höfum farið nokkuð langt í þessum pælingum okkar. Við vildum eiginlega fara með þetta alla leið,“ segja þeir Ingólfur Einar Sigurjónsson, formaður Ægis, og Sindri F. Júlíusson, varaformaður Ægis, í samtali við Víkurfréttir.

Eftir að hafa skoðað ýmsan búnað settu þeir sig í samband við fyrirtæki í Ísrael sem hefur þróað dróna sem eru samtvinnaðir við bíla og sinna m.a. landamæragæslu og er notaður í hernaði.

Víða leitað fanga

„Við vildum búnað sem þolir vond veður og þar var það þessi búnaður sem er á bíl og er tengdur dróna með vír, þannig að dróninn eltir bílinn þegar honum er ekið. Við vorum samt fljótir að komast að því á þessum tíma að þessi útfærsla yrði okkur of dýr. Við erum samt að hlæja af því í dag þegar smíðinni á þessum bíl okkar er lokið og drónarnir sem notaðir eru með honum eru að slaga upp í kostnaðinn við búnaðinn frá Ísrael,“ segir þeir félagar. Reyndar væri hægt að hækka verðið verulega með því að setja myndavél á drónann sem er með sömu nætursjón og þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa.

Núverandi drónaverkefni er byggt á VW Crafter sem hefur verið innréttaður sem færanleg stjórnstöð fyrir drónana. Í bílnum eru stórir skjáir og öflug loftnet á bílnum, bæði til að halda stöðugu sambandi við dróna á flugi og ekki síður til að vera í góðu netsambandi. Drónabíllinn er búinn tækni sem þarf að vera sítengd neti.

Öflugasti dróni landsins

Keyptur hefur verið öflugasti dróni landsins sem m.a. er búinn hitamyndavél sem er sú fullkomnasta á markaðnum. Þá er annar minni dróni sem veitir þeim stærri stuðning.

Drónabíllinn er með góðri vinnuaðstöðu þar sem fer vel um stjórnendur drónanna og þá sem vinna við að greina það myndefni sem berst frá þeim. Notast er við hugbúnað sem vinnur með gervigreind og sérhæfir sig í að greina eitthvað óeðlilegt eða frábrugðið í myndefni. Þannig greinir hugbúnaðurinn litabreytingar í yfirlitsmyndum. Hugbúnaðurinn sér m.a. ef öðrum lit en er í náttúrunni bregður fyrir eða ef hreyfing greinist í náttúrunni.

Séð inn í stjórnstöðina í bílnum. Drónarnir tveir inni á gólfi.

Bíllinn sjálfbær með rafmagn

Bíllinn er sjálfbær með alla hleðslu á rafhlöðum fyrir drónana og er með öflugt rafkerfi til að hægt sé að nota fjölda skjáa og tölvubúnað, jafnvel dögum saman. Þá er bíllinn útbúinn öflugri rafstöð.

Bíllinn hefur ekki verið sýndur opinberlega ennþá. Hann er í raun sýndur nú í fyrsta skipti hér í blaðinu. Næstu vikur og mánuðir fara í þjálfun á mannskap en Björgunarsveitin Ægir ætlar að sérhæfa sig í drónaverkefnum en mikil þörf er fyrir þjálfaða drónaflugmenn í fjölbreytt verkefni.

Drægni og flugtími alltaf að aukast

Þeir félagar segja dróna geta gert svo margt í dag og nýtast vel við leitarverkefni. Takmarkaður flugtími hefur verið helsta vandamálið en drægni og flugtími er alltaf að lengjast.

Í dag teljast svæði sem leituð eru með drónum ekki 100% leituð en því vilja Ægismenn breyta með því að nýta sér nýjustu tækni sem greint var frá hér að framan. Með því að fljúga ákveðið ferli á að vera hægt að leita að sér allan grun. Bæði má skoða svæðin í rauntíma og einnig vinna út efninu eftir á í drónabílnum. Öll aðstaða á að vera til þess í bílnum.

Aðspurðir hvort svona bíll sé ekki flottheit og hægt sé að vinna sömu vinnu úr aftursætinu á jeppa er svarið það að auðvitað er hægt að nota minni bíla, en þá þreytist mannskapurinn fyrr. Í drónabíl Ægis, sem á enn eftir að fá nafn, er lagt upp með það að hafa vinnuaðstöðu eins og best verður á kosið.

Heill skógur af loftnetum

Á þaki bílsins er heill skógur af loftnetum. Þau eru annars vegar til að halda góðu sambandi við drónana á flugi og svo er mjög öflugt loftnet til að tryggja besta mögulega 4G og 5G netsamband sem mögulegt er.

Smíði drónabílsins hefur verið kostnaðarsamt verkefni. Björgunarsveitin Ægir hefur verið að leggja fyrir peninga til verkefnisins á undanförnum árum, auk þess að leggja á sig ómælda vinnu við að útbúa bílinn.

Hafa miðlað af reynslu sinni til okkar

Leitað var til Camp Easy sem hefur mikla reynslu af því að breyta Volkswagen Crafter bílum. Það fyrirtæki er í Reykjanesbæ og tók að sér að hækka bílinn upp, smíða í hann gólf, setja á hann lofttúður og verja alla mögulega fleti undir bílnum sem geta skemmst þegar farið er út fyrir þjóðvegi. „Þeir hjá Camp Easy tóku virkilega vel á móti okkur og hafa komið með gríðarlega reynslu inn í breytingar á bílnum. Við höfum ekki þurft að finna upp hjólið sjálfir, heldur hafa þeir miðlað af sinni reynslu til okkar, sem er alveg ómetanlegt. Þá höfum við fengið allan tölvu- og skjábúnað í bílinn hjá Tölvulistanum. Hann hefur aðstoðar okkur við að fá það besta sem völ er á í svona bíla. Þá fengum við allan rafbúnað hjá Bláorku (Netberg). Það er búnaður sem leyfir okkur að hafa allt tengt á sama tíma. Þá erum við með marga góða styrktaraðila sem koma að þessu verkefni með okkur.“