RNB atvinna
RNB atvinna

Mannlíf

Íþróttaálfurinn himinlifandi með uppfærslu Leikfélags Keflavíkur
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 14. mars 2025 kl. 06:15

Íþróttaálfurinn himinlifandi með uppfærslu Leikfélags Keflavíkur

Magnús Scheving kom á handahlaupum upp á svið á frumsýningunni!

Það var sannarlega pressa á leikarahópi Leikfélags Keflavíkur á frumsýningu á Glanna glæp í Latabæ síðasta föstudagskvöld. Sjálfur íþróttaálfurinn og höfundurinn, Magnús Scheving, var á frumsýningunni og skemmti sér konunglega yfir uppfærslunni. Í lok sýningar, þegar leikarahópnum hafði verið klappað lof í lófa, kom Magnús á handahlaupum upp á svið. Hafði greinilega engu gleymt af hlutverki sínu sem íþróttaálfurinn, bæði á sviði og ekki síður í sjónvarpsþáttunum um Latabæ. Magnús var svo ánægður með leikarahópinn og frammistöðuna að hann bauð öllum út að borða á veitingastað sinn, ROK.
Bauð leikarahópnum út að borða á ROK!

Uppfærsla Leikfélags Keflavíkur á Glanna glæp í Latabæ er stórgóð. Latibær eldist vel og Brynja Ýr Júlíusdóttir leikstjóri gerði skemmtilegar uppfærslur úr 1999 útgáfunni yfir í 2025 útgáfuna. Stína símalína er komin með nýjustu símtækni og þjónustur og gott ef það var ekki vísun í Póstinn Pál á einum stað í verkinu. Þá bregður fyrir TEMU, Wolt og ýmsu öðru sem fullorðna fólkið hefur gaman af þegar það fer með börnunum sínum á Glanna glæp í Latabæ.

VF Krossmói
VF Krossmói

Uppfærsla Leikfélags Keflavíkur er stórgóð og full ástæða til að hvetja Suðurnesjafólk til að skella sér í leikhús og eiga skemmtilega stund með unga fólkinu. Frábær leikhópur þar sem allur texti skilar sér vel til áhorfenda.

Söng, dans og gleði í Latabæ!

Hér má sjá Magnús Scheving á handahlaupum á sviðinu.