Lions kútmagar með endurkomu
Kútmagakvöld Lionsklúbbs Keflavíkur var árleg hefð í áratugi en þessi gamli klúbbur lagði upp laupana í fyrra og hefur hætt starfsemi sinni. Nokkrir af gömlu félögunum hittast nú samt af og til og úr spjalli varð til hugmynd að endurvekja kútmagakvöld en í minni útgáfu en áður.
Úr varð hið skemmtilegasti hittingur þar sem borðaðir voru kútmagar og nokkrir fleiri sjávarréttir. Hafsteinn Guðnason er einn af þessum sísvöngu lionskörlum en á kantinum er jafnan Axel Jónsson, veitingamaður. Þegar þeir tveir taka sig saman verður yfirleitt úr gott gigg eins og sannaðist í þetta skiptið.
Grindvíkingurinn fróði, Alli á Eyri sagði skemmtilegar sögur af sjósókn og útgerð fyrri tíma og svo bætti Ásmundur Friðriksson við sögum úr Eyjum.
Ritstjóri Víkurfrétta plataði þá Axel og Hafstein til að bjóða sér í fiskifjörið og nýtti tækifærið og tók myndir af hressum lionsfélögum sem sjá má hér neðar í myndasafni með fréttinni.