Samkaup
Samkaup

Fréttir

Mikilvægt að vera undirbúin að missa mögulega tímabundið aðgengi að heitu vatni og rafmagni
Sunnudagur 29. desember 2024 kl. 11:19

Mikilvægt að vera undirbúin að missa mögulega tímabundið aðgengi að heitu vatni og rafmagni

Allt frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga í árslok 2019 hefur verið  unnið markvisst að gerð sviðsmynda vegna líklegra eldgosa og hraunflæðis vegna þeirra. Markmið þeirrar vinnu hefur fyrst og fremst verið að finna leiðir til að vernda mikilvæga innviði og íbúa á svæðinu. Afrakstur þessarar vinnu undanfarna ára eru þeir varnargarðar sem reistir hafa verið á svæðinu, en á haustmánuðum 2023 hófst einnig undirbúningur að því að nýta hraunkælingu við að vernda innviði.   Fjölmargir aðilar hafa komið að verkefninu en seint á síðasta ári bættust við sérfræðingar frá Evrópusambandinu til að skoða og meta varnir í Svartsengi og Grindavík. Þegar hafist var handa við undirbúning hraunkælingar var skýrsla sem þeir útbjuggu höfð til hliðsjónar.

Framvindan og áskoranir

Strax var ljóst að venjulegur slökkvibúnaður væri ekki nægilega öflugur í verkið og því ákváðu yfirvöld að fjárfesta í sérstökum öflugum búnaði til að framkvæma hraunkælinguna. Búnaðurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt og mun reynsla síðustu vikna og mánaða koma sér vel þegar Almannavarnir þróa þetta verkefni áfram með sérfræðingum.

„Nú er ljóst að landris við Svartsengi er hafið á ný og þrátt fyrir að allt sé gert til þess að verja mikilvæga innviði er engu að síður mikilvægt fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu að vera undirbúin undir að missa mögulega tímabundið aðgengi að heitu vatni og rafmagni,“ segir í frétt frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Krefjandi aðstæður, samvinna og framþróun

Meginvarnir innviða felast í gerð varnargarðanna, en hraunkælingin hefur verið nýtt til að styðja við þær varnir s.s. vegna mögulegs yfirflæðis eins og reyndin varð í júní sl. ásamt því að vinna að forvörnum við að kæla og styrkja hraun næst varnargörðunum eins og gert var í nóvember s.l. Aðstæður hafa oft verið krefjandi en nú er góð reynsla komin á verkefnið.  Eins og gefur að skilja þá hafa ýmsar áskoranir komið upp en samvinna yfirvalda, stofnanna og fyrirtækja hefur verið árangursrík og hefur tekist að leysa þau mál sem upp hafa komið. Einnig hefur samvinna verktaka á svæðinu við slökkvilið sem komið hafa að verkefninu verið til fyrirmyndar.

Í síðasta eldgosi sem lauk 8. desember er áætlað að á hverri mínútu hafi um 26 þúsund lítrum af vatni verið sprautað á hraunið til að kæla það niður. Hluti af hraunjaðrinum var kældur til að styrkja hraunið næst varnargörðunum sem enn voru í byggingu.  Á svæðinu er töluvert af vatni og því þurfti ekki að sækja vatnið lengra en um ca. 800 metra. Kælingar- eða sprautubúnaðurinn er mun öflugri en áður hefur verið til á Íslandi og mun án efa einnig geta nýst við það að ráða niðurlögum hugsanlegra gróðurelda í framtíðinni.