HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Kaupir fallegar jólakúlur og merkir þær nöfnum barnabarna
Sunnudagur 22. desember 2024 kl. 06:31

Kaupir fallegar jólakúlur og merkir þær nöfnum barnabarna

Inga Jóna Björgvinsdóttir er ættuð frá Háteig í Garði. Hún er gift Freymóði Jenssyni og þau eiga þrjú börn, sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn. Þau hjónin hafa búið síðustu tuttugu árin í Keflavík, annars í Garðinum. Ingu Jónu kannast eflaust flestir við úr Dósaseli en hún hefur verið forstöðumaður þess fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum síðustu nítján ár.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2024 hefur verið okkur gott. Þar sem stendur upp úr er að hafa farið í fyrsta sumarfríið í átján ár og við vörðum því vestur á Snæfjallaströnd.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Dansaðu vindur.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Miracle on 34th Street.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Uppáhaldsjólahefðin mín er að kaupa fallegar jólakúlur og merkja þær með nöfnum barnabarnanna minna og ártali og gefa þeim á aðventunni. Þeim finnst það ómissandi. Þau elstu eiga orðið 23 kúlur.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Samveran með fjölskyldunni.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Gleymi aldrei uppháum lakkstígvélunum sem ég fékk þegar ég var um tíu ára frá foreldrum mínum. Það er líka ógleymanlegt þegar ég gaf manninum mínum fartölvu í jólagjöf fyrir mörgum árum, því hún kom honum svo á óvart.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Fyrstu jólin sem ég man eftir voru þegar ég sat á pullu fyrir framan jólatréð á aðfangadag og grét yfir því að pabbi var ennþá úti í fiskhúsi að vinna. Klukkan var orðin fjögur og alveg að koma jól. Skemmtilegustu jólaminningarnar eru frá því við bjuggum á Sunnubrautinni úti í Garði með krakkana okkar. Væri alveg til í að geta farið til þess tíma aftur.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Er meira fyrir aðkeypt skraut. Ég átti jólatréstopp sem foreldrar mínir áttu frá þeirra fyrstu búskaparárum. Hann er núna í eigu eldri sonar okkar.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Breytingin er kannski mest í kringum þrifin fyrir jólin. Í denn var ég í tvo daga að þrífa eldhúsið og allt tekið út úr öllum fataskápum og þeir þrifnir. Núna gerir maður þetta jafnóðum allt árið og verður stressið minna fyrir vikið. Annars eru jólin alltaf svipuð hjá okkur.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Hreindýralundir eru í uppáhaldi. Humarsúpuuppskrift frá vinkonu minni á Hólmavík er ómissandi að eiga um jólin.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Alltaf heima, því þar líður mér best.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Já og jólaandinn snýst um að gleðja að gleðja fólkið sitt og vera saman.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Að öllum líði vel.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Friður á jörð og allir hafi í sig og á.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Þakklæti er alltaf efst í huga mínum um hver áramót fyrir það liðna. Ég verð alltaf svolítið meyr þá. Svo er bara að vona að næsta ár verði gjöfult fyrir alla. Gleðileg jól.