HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Fékk tvisvar sinnum purusteik um jólin
Mánudagur 23. desember 2024 kl. 07:00

Fékk tvisvar sinnum purusteik um jólin

Ásdís Björk Kristinsdóttir er Njarðvíkingur í húð og hár sem á ættir að rekja til Grímseyjar. Hún ólst upp í Innri-Njarðvík og unir hag sínum vel þar í dag ásamt eiginmanni sínum, Jóhanni Axel Thorarensen, flugstjóra hjá Icelandair, og þremur börnum. Ásdís starfar á fyrirtækja- og fjárfestasviði Íslandsbanka í Kópavogi og hefur gert í yfir tuttugu ár.
Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið er búið að vera mjög gott fyrir okkur fjölskylduna. Júlía Björg elsta dóttir okkar útskrifaðist úr FS í vor og erum við mjög stolt af henni. Einnig hjálpuðum við pabba að selja æskuheimilið mitt og flytja í nýtt raðhús nær okkur Palla bróður. Það var mikil vinna að fara í gegnum þetta risa hús en með góðri samvinnu okkur systkinanna og maka þá gekk þetta allt saman vel upp. Svo urðum við Jóhann bæði fimmtug í sumar, hann í júní og ég í ágúst. Ég bauð honum til Skotlands að spila golf og var það virkilega skemmtilegt og héldum við smá veislu fyrir hann þegar við komum heim. Við héldum svo fjölskylduboð fyrir mig í sumarbústað í Húsafelli um verslunarmannahelgina en systir mín og eiginmaður hennar frá Miami komu og voru með okkur líka. Frábærir dagar með allri fjölskyldunni. Svo er margt annað sem stendur upp úr eins og frábær skíðaferð til Ítalíu með góðum vinum, fjölskylduferð til Tenerife um páskana, geggjuð ferð með gönguhópnum mínum á Siglufjörð og svo skemmtilegar veiðiferðir með Jóhanni í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Ég á ekkert eitt uppáhaldslag en mér finnst Sigurður Guðmundsson og Memfismafían eiga mörg falleg lög eins og Það snjóar og Jólin eru hér. Einnig finnst mér lagið White Christmas Makes Me Blue með Randy Travis mjög fallegt.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Love Actually er alltaf góð og svo höfum við fjölskyldan haldið í þá hefð að horfa á Scrooge.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Palli bróðir og Palla konan hans bjóða okkur fjölskyldunni og fjölskyldunni hennar Pöllu alltaf í aðventukaffi og krakkarnir skreyta piparkökuhús. Þetta finnst okkur öllum vera ómissandi hefð en Palli setti saman einhvern 14 hús núna um helgina fyrir aðventukaffið í ár. Einnig er ómissandi að fara í aðventuferð í höfuðborgina með vinahópnum. Einnig hittist stórfjölskyldan á aðventunni og skerum út laufabrauð, það er alltaf skemmtilegt.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að gera ananasfrómas fyrir aðfangadag er eitthvað sem ég sleppi aldrei, það minnir mig alltaf á ömmu Sigrúnu því ég hljóp alltaf yfir til hennar þegar hún var að gera frómasinn í gamla daga og fékk að hjálpa henni.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Við vorum alltaf hjá ömmu og afa fyrstu jólin mín og fram eftir aldri. Þar voru líka systur pabba og börnin þeirra þannig að það var alltaf rosalega mikið fjör að borða saman og opna svo pakkana. Afi las á alla pakkana og stóðum við barnabörnin í röð og dreifðum pökkunum. Það gat stundum reynt á þolinmæðina að bíða eftir öllum að opna pakkana svo hægt væri að detta í leik með nýja dótið. Það er oft hlegið að því þegar margir fengu tölvuspil eitt árið, Palli bróðir sýndi einhverja svakalega takta og geiflur við að spila nýja Donkey Kong leikinn svo annað eins hefur aldrei aftur sést.  Þessi hefð, að vera öll saman hjá ömmu og afa, var eitthvað sem enginn vildi breyta en það kom þó að því að við hættum að komast öll fyrir. Þá hélt ég áfram að njóta aðfangadags með ömmu og afa og mömmu og pabba. Það eru mjög dýrmætar minningar í ljósi þess hvað mamma kvaddi okkur allt of snemma.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Ég er bara fyrir bæði, við notum skraut sem krakkarnir hafa búið til  en svo höfum við líka verslað skraut í gegnum tíðina. Ég hef svo bætt við einu skrauti á jólatréð á hverju ári, sem er prentuð mynd á álplötu eða gler, af fjölskyldunni það árið.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varst eldri?

Eftir að hafa alltaf verið hjá ömmu og afa og svo hjá mömmu og pabba á aðfangadag þá fórum við að halda okkar eigin jól. Pabbi er hjá okkur og svo borða tengdaforeldrar mínir alltaf með okkur annað hvert ár. Við erum svo heppin að Palli og Palla búa við hliðina á okkur og fjölskyldan kemur alltaf í ís og frómas eftir að gjafir hafa verið opnaðar. Þá set ég möndlu í frómasinn eins og amma gerði og einhver fær spil í möndlugjöf. Það er mjög notalegt að geta verið öll saman.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Purusteik er klárlega uppáhaldsjólamatur fjölskyldunnar. Ég ólst upp við það hjá ömmu og afa á aðfangadag og Jóhann fékk alltaf purusteik hjá ömmu sinni og afa á jóladag. Ég græddi því heilmikið þegar ég fékk purusteik tvo daga í röð. Ég geri alltaf ananasfrómas fyrir aðfangadag eins og amma gerði. Einnig geri ég sherrýís eftir uppskrift frá ömmu Jóhanns sem okkur finnst líka alveg ómissandi. Að lokum geri ég líka Tobleroneís eftir uppskrift frá Önnu tengdamömmu.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Mér líður best heima í faðmi fjölskyldunnar. Við Jóhann bjuggum í nokkur ár í Jacksonville í Flórída, þegar við vorum þar í námi, og í öll þau skipti sem við ætluðum að prófa að halda jólin í Bandaríkjunum þá guggnuðum við alltaf á því og rétt náðum heim á Þorláksmessu eða aðfangadag. Heima er því best og okkur hefur ekkert langað til að prófa eitthvað annað.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Já ég trúi á jólaandann, mér finnst hann snúast um samveru með fjölskyldunni og vinum og sýna væntumþykju.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Að allir í fjölskyldunni séu heilsuhraustir og líði vel.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Ég myndi gjarnan óska þess að hægt væri að binda endi á þessi endalausu stríð og fólk fengi frið.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Ég ætla að vera duglegri að spila golf en það fór afskaplega lítið fyrir því á þessu ári. Það styttist líka i skíðaferð með vinahópnum svo árið byrjar vel.