HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Spænskt sjávarréttapasta á aðventunni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 23. desember 2024 kl. 07:30

Spænskt sjávarréttapasta á aðventunni

Kvöldverðar aðventuboð hjá Valgerði Vilmundardóttur

„Þegar ég hóf búskap fékk ég strax mikinn áhuga á eldamennsku, ég veit ekkert skemmtilegra en fá vini í matarboð og skemmtilegast finnst mér að leggja fallega á borð,“ segir meistarakokkur frá Grindavík, Valgerður Vilmundardóttir. Hún bauð blaðamanni Víkurfrétta og vinum sínum í aðventu-kvöldverð og getur blaðamaður vottað um snilldina sem Valgerður bauð upp á.

Valka eins og hún er jafnan kölluð, ætlaði sér fyrst að elda hefðbundinn jólamat en ákvað að kalla þetta frekar aðventu-kvöldverð og var ekkert kjötmeti á boðstólnum, það verður jú nóg af því á sjálfum jólunum.

Valgerði finnst skemmtilegst að leggja fallega á borð.

„Eftir að ég tók ákvörðun með breyttan matseðil hugsaði ég vel og vandlega hvað væri við hæfi og þar sem ég er á leiðinni til Spánar fyrir jólin ásamt dætrum mínum, ákvað ég að rifja upp taktana í spænsku aðventu-sjávarréttapasta sem ég fékk á sínum tíma þegar við fjölskyldan brugðum okkur til Spánar í desember. Rétturinn heitir „Catalan Fideuá“ og er með ýmsum sjávarafurðum en ég hef endurgert hann eingöngu með risarækjum og hefur hann alltaf verið vinsæll. Ég gerði líka hvítlauksbrauð frá grunni, hollt og mjög gott brauð sem mér finnst gaman að búa til. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á matseld og veit fátt skemmtilegra en bjóða vinum í mat og nostra við þau með góðum mat en hugsanlega hef ég mest gaman af því að leggja fallega á borð. Mér finnst líka gaman að baka og bauð upp á marenz jólatré, það varð jú að vera einhver jólatenging í þessu matarboði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Fallegt útlit gerir góða máltíð enn betri!

Jól okkar mæðgna verða með breyttu sniði og ætlum við að halda þau á Spáni að þessu sinni. Við misstum Óla okkar í haust og viljum upplifa einhvern veginn allt öðruvísi jól en venjulega og verður gaman að vera á Spáni að þessu sinni. Við mæðgurnar erum búnar að koma okkur fyrir í fínni íbúð í Sunnusmára í Kópavogi en ég ætla líka að leigja gamla húsið mitt í Grindavík. Okkur líður best þar og munum reyna að dvelja þar eins mikið og við getum og við viljum að sjálfsögðu á endanum flytja aftur heim til Grindavík. Hvenær það verður kemur bara í ljós, þangað til munum við hlúa að hvor annarri og njóta lífsins. Ég vil óska öllum vinum og vandamönnum nær og fjær, gleðilegra jóla og hlakka til að heyra hvernig ykkur finnst þessir réttir sem ég bauð upp á í þessu aðventu-matarboði,“ sagði Valgerður að lokum.

Pastarétturinn og hvítlauksbrauðið bragðaðist einstaklega vel!
Uppskriftir
Spænstk sjávararéttapasta

½ kíló Linguine pasta – ferskt eða þurrkað

ólífuolía ½ kíló risarækjur

1 bolli hvítvín (helst Chardonnay)

5 matskeiðar smjör

5 matskeiðar niðurrifinn parmesan ostur

1 matskeið kraminn hvítlaukur

2 teskeiðar chiliflögur (eða ferskt chili)

2 matskeiðar söxuð steinselja

salt og pipar

Aðferð

Setjið vatn í pott og saltið. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka.

Hitið pönnu með ólífuolíu og steikið rækjurnar í svona hálfa mínútu.

Bætið þá hvítlauknum við, og síðan chiliflögum og smjöri. Leyfið þessu að blandast saman.

Hellið þá hvítvíninu yfir og bætið parmesan ostinum við. Og að lokum einn kjúklingateningur og ein teskeið hunang.

Leyfið þessu að malla í 2 til 3 mínútur.

Stráið þá steinseljunni yfir og setjið pastað út á pönnuna. Og blandið öllu vel saman.

Berið fram og njótið.

Salat

Salatbland

Pera

Bláber

Pekanhnetur

Fetaostur (ég nota kubb)

Góð olía

Mabel síróp

Focaccia flatbrauð með pomodore og mozzarella

500g hveiti

15g salt

3 msk jómfrúarolía

300 ml ylvolgt vatn

15g þurrger

15g sykur

15-20 svartar ólífur

3-4 msk. jómfrúarolía (aftur)

Salt og pipar

20-30 rósmarínnálar

Sjávarsalt, olía, hvítlaukur og parmesanostur.

Vekið gerið í ylvogu vatninu og bætið við sykrinum.

Blandið hveiti, salti og jómfrúarolíu í skál.

Hellið vökvanum út í hveitið og hnoðið vel saman.

Látið hefast í rúmlega klukkustund þangað til deigið hefur tvöfaldast að rúmmáli.

Fletjið deigið út í olíusmurða ofnskúffu og myndið grópir með fingrunum.

Raðið ólífunum á deigið, dreifið jómfrúaraolíunni yfir, saltið og piprið og sáldrið rósmaríinu á milli. Látið hefast í þrjú korter.

Sjávarsalti, olíu og hvítlauk blandað saman, það sett ofan á brauðið áður en það fer í ofninn.

Bakið í 200 gráðu heitum forhituðum ofni í tuttugu mínútur..

Látið brauðið kólna í 30 mínútur og sneiðið það svo niður í hentuga bita.

Penslið brauðið með örlítilli jómfrúarolíu og raðið svo þykkum sneiðum af mozzarellaosti yfir.

Eftirrétturinn var síðan „the icing on the cake.“
Enginn verður svikinn af matarboði hjá þessum listakokki, Valgerði Vilmundardóttur.