Palóma
Palóma

Mannlíf

Skötuhittingur á Þorláksmessu er hefð og samvera með fjölskyldunni mikils virði
Mánudagur 23. desember 2024 kl. 06:50

Skötuhittingur á Þorláksmessu er hefð og samvera með fjölskyldunni mikils virði

Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir er bæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ og starfar jafnframt sem verkefnastjóri hjá Ferðaþjónustu Reykjaness. Hún á tvær dætur og tvö ömmubörn og býr í Suðurnesjabæ. „Það var skrýtið að vera ekki hjá mömmu og pabba en með aldrinum finnur maður upp sínar hefðir ásamt því að halda í sem flest frá æskuárum. Jólin hafa breyst mikið frá því ég var barn og að mínu mati svolítið misst sjarma sinn í hraða nútímans, finnst eins og fólk gefi sér ekki tíma til að njóta,“ segir Oddný Kristrún þegar hún er spurð út í breytingar á jólum þegar hún hafi orðið eldri.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árið 2024 var nokkuð viðburðaríkt hjá mér. Ég ákvað að selja húsið mitt og keypti mér minni íbúð og stóð í flutningum. Fór í tvær utanlandsferðir og það sem gladdi mig mest af öllu að báðar dætur mínar ættu von á sér, eldri dóttirin eignaðist yndislegan prins í september og yngri dóttirin á von á prinsessu í febrúar 2025. Þannig að ég er orðin tvöföld amma og þriðja ömmukrílið á leiðinni. Lífið hefur leikið við mig og er ég þakklát fyrir það.

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Uppáhaldslagið mitt er „Ó helga nótt“, það lag yljar mér um hjarta og gerir jólin svo falleg.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

„Home Alone“ er þessi klassíska sem alltaf verður að horfa á fyrir jólin, kemur manni alltaf í gott jólskap og boðskapurinn góður. Að eiga góða að yfir hátíðirnar er svo gott fyrir sálina.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Skötuhittingur á Þorláksmessu er hefð sem hefur verið frá því ég man eftir mér. Mamma, pabbi, við systkin, börn og barnabörn njótum saman. Eitt af því sem er ómissandi. Á aðfangadag hittumst við í „bröns“ hjá Ágústu systir, elsta dóttir hennar á afmæli þá og hefur það verið hefð í 36 ár að hittast þar og fagna afmæli hennar, þó svo að hún sé löngu flutt að heiman. Samvera með fjölskyldunni er svo mikils virði.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Skötuhittingurinn, jólaskreytingar og samveran með fjölskyldunni.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Ég hef fengið og gefið svo margt fallegt í gegnum tíðina og get ekki nefnt eitthvað eitt sérstakt. Mér finnst allar gjafir vera ógleymanlegar og er þakklát fyrir allt sem ég hef gefið og þegið.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar? Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð?

Jólin heima í Presthúsum, mamma alltaf að baka smákökur og faldi þær alltaf fyrir okkur systkinum, við fundum nú alltaf kökuboxin og stálumst í þau. En svo þegar kom að því að bjóða upp á kökurnar þá annað hvort voru allir svo saddir eða mamma hreinlega gleymdi að bera þær fram. Pabbi var alltaf svo öflugur í eldhúsinu á aðfangadag, þá sá hann um kartöflustöppuna, besta stappan sem við fengum, með fullt af sykri. Minningarnar eru annars margar og góðar sem gott er að ylja sér við.

Með jólaskreytingar þá finnst mér bara bæði fallegt og skemmtilegt. Heimagert skraut hefur meiri sjarma og verður persónulegra en það sem við kaupum í búðum.

Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Allt sem stelpurnar mínar hafa gert í gegnum leik- og grunnskóla hef ég reynt að halda vel upp á. Set það alltaf upp hjá mér hver jól. Fékk eitt sinn fallega jólabjöllu frá Sigrúnu ömmu á Nýjalandi sem mér þykir afskaplega vænt um. Ágústa amma á Borgartúni og mamma hafa gefið mér jóla-óróana síðustu 26 árin sem ég held mikið upp á. Sólrún systir gaf mér afskaplega fallegt útskorið lítið jólatré með jólaséru sem ég elska að setja upp hver jól. Allt skraut sem mér er gefið hefur alltaf góða og skemmtilegar sögur sem ég hugsa um hver jól.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri? Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum?

Jólin breyttust nokkuð þegar ég flutti að heiman, fyrstu jólin mín með minni litlu fjölskyldu var í Skagafirði, ég man að ég reyndi að gera allt eins og mamma með jólamatinn sem mér tókst að klúðra en við hlógum bara að því og gerðum jólin að okkar. Það var skrýtið að vera ekki hjá mömmu og pabba en með aldrinum finnur maður upp sínar hefðir ásamt þvi að halda í sem flest frá æskuárum. Jólin hafa breyst mikið frá því ég var barn og að mínu mati svolítið misst sjarma sinn í hraða nútímanns, finnst eins og fólk gefi sér ekki tíma til að njóta. En ég hlakka alltaf til jólanna, setja upp jólaljósin sem lýsa upp svartasta skammdegið, það elska ég mest.

Uppáhaldsmaturinn yfir jólin er grafinn lax á ristað brauð og graflaxsósa, svo finnst mér hamborgarhryggurinn alltaf góður en hangikjötið stendur alltaf upp úr ásamt kartöflustöppunni hans pabba. Svo má ekki gleyma frómasinu hennar mömmu.

Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir í þínu heimili?

Það sem má alls ekki sleppa á jólunum er appelsínufrómansinn hennar mömmu og jólaísinn. Það koma ekki jól nema það sé allt klárt og tilbúið eftir steikina.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Ég hef verið erlendis yfir jól og áramót og fannst það ágætt en jólin heima eru bara alltaf best. Hér heima hefur maður aðgang að fólkinu sínu sem er ómissandi yfir hátíðirnar.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Já, ég trúi á jólaandann. Ég persónulega finn fyrir frið og ró innra með mér þegar jólaklukkurnar klingja kl 18:00 á aðfangadag. Ég er bara þannig alin upp, að vera trúföst, kærleiksrík og taka ekki öllu sem gefnu. Hugsa vel um mína nánustu og biðja fyrir þeim sem eiga sárt að binda. Trúi því að bænir mínar berist þangað sem þeim er ætlað.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Ekkert sérstakt á óskalistanum, ég er svo þakklát fyrir að vera heilsuhraust í alla staði, á tvær dásamlegar dætur, tvo yndislega tengdasyni, tvö að verða þrjú barnabörn. Get ekki hugsað mér lífið án þeirra og allra fjölskyldumeðlima sem ég er svo lánsöm að eiga. Ég óska þess eins að þau öll eigi góða og bjarta framtíð.

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Ef það væri hægt að gefa ást og kærleik með slaufu þá myndi ég senda það út í heim og geim. Ekkert meira sem flestir vilja en að allir eigi gleði og frið í sál og líkama.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Ég set mér yfirleitt ekki nein sérstök áramótaheit en hef einsett mér það síðustu ár að njóta sem mest og best komandi ára því við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Ég vil nýta tækifærið og óska öllum gleðilegrar hátíðar og bið fólk að njóta hverrar mínútu og sýna náungakærleik og tillitssemi.

Ást og friður til allra.