HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Árleg hefð að velja jólatré í Heiðmörk
Þriðjudagur 24. desember 2024 kl. 07:17

Árleg hefð að velja jólatré í Heiðmörk

Sonja Kjartanssdóttir flýgur um loftin blá og er mikið jólabarn. Byrjar alltaf tímanlega að undirbúa jólin.

Sonja Kjartansdóttir elskar að ferðast en hún flýgur um loftin blá sem flugmaður hjá Icelandair. Hún og fjölskyldan eiga skemmtilega jólahefð þegar þau fara í Heiðmörk og ná í jólatré. Fjölskyldan er á leið utan á skíði á nýju ári og Sonja segir okkur frá mörgu skemmtilegu í tengslum við jólin.

Hvernig var árið 2024 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Árið 2024 var að mestu leyti mjög gott, fyrir utan veikindi sem gerðu vart við sig hjá pabba mínum. Við vorum dugleg að ferðast erlendis með fjölskyldu og vinum og keyptum okkur fellihýsi sem ég er spennt að nota meira næsta sumar. Ferð okkar til Ítalíu í sumar er líklega það sem stendur upp úr. Þar dvöldum við í litlum krúttlegum 500 manna bæ sem heitir Airole og er uppí fjöllum við landamæri Ítalíu og Frakklands. Þetta er ekta ítalskur smábær þar sem mikil rólegheit eru, lítil enska er töluð, þröngar götur, vinalegt fólk og maturinn frábær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvert er uppáhaldslagið þitt sem tengist jólunum?

Jólalag sem er í miklu uppáhaldi hjá mér er lagið „Þú komst með jólin til mín“ með Björgvini Halldórs og Ruth Reginalds. Það vekur upp ljúfar æsku minningar.

Hvaða kvikmynd er ómissandi um jólin?

Mér og strákunum mínum finnst Home Alone myndirnar alltaf skemmtilegar.

Hver er uppáhaldsjólahefðin þín og hvers vegna?

Við höfum farið undanfarin ár í Heiðmörk og valið okkur jólatré sem við síðan sögum og tökum með okkur heim. Skemmtileg hefð sem ég mæli með. Fáum okkur heitt súkkulaði, smákökur og styrkjum í leiðinni skógrækt á Íslandi. Jólatrén eru ekki alltaf fullkomin í laginu en það gefur þeim karakter. Þetta er skemmtileg fjölskyldustund.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að hitta og knúsa mína nánustu. Spila með vinum og fjölskyldu og fara í kirkjugarðana með kerti.

Manstu eftir einhverjum ógleymanlegum jólagjöfum – hvort sem það var sem þú gafst eða fékkst?

Ég man sérstaklega eftir bleikri íþróttatösku sem ég fékk þegar ég var 9 ára. Í henni var fimleikabolur og handklæði með nafninu mínu útsaumað sem ég hafði óskað mér.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir - áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Þegar ég var um sex ára þá kom jólasveinninn í heimsókn á aðfangadagsmorgun og gaf okkur risastóra mynd til að lita.

Ertu meira fyrir heimagert jólaskraut eða það sem keypt er í búð? Og áttu eitthvað sérstakt skraut með sögu?

Mér finnst gaman að blanda þessu saman og er með bæði keypt skraut og svo líka alls konar fallegt sem strákarnir mínir hafa búið til í gegnum tíðina. Skrautið á æskuheimilinu var hvert öðru fallegra, bæði heimatilbúið og keypt og voru jólasveinar sem hreyfðust í uppáhaldi sem mamma keypti í Bandaríkjunum.

Hvernig breyttust jólin hjá þér þegar þú varðst eldri?

Ég er heppin að eiga fallegar minningar frá jólunum þegar ég var barn og fæ hlýtt í hjartað þegar ég heyri jólalög og jólaljósin eru sett upp. Ég þakka foreldrum mínum fyrir það. Þegar ég eignaðist syni mína var ég ákveðin að ég vildi sömu upplifun fyrir þá. Að jólin væru falleg, friðsæl og kósý. Ég upplifi jólin í gegnum strákana mína og þeir stýra ferðinni. Við skreytum, bökum, græjum hressingu handa jólasveininum og ýmislegt fleira. Ég byrja snemma að græja allar gjafir og er yfirleitt langt komin í byrjun desember, slepp þannig við jólastressið í búðunum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn á jólunum? Og eru einhverjar ómissandi uppskriftir á þínu heimili?

Uppáhaldsmaturinn minn er rjúpusúpa hjá Erlu tengdó og hnetusteikin hjá mömmu og pabba en svo finnst mér mjög jólalegt að fá mér graflax með öllu tilheyrandi. Við bökum ekki margar sortir á mínu heimili en uppáhalds uppskriftin mín er grafin gæs sem maðurinn minn veiðir, verkar og grefur.

Ef þú gætir varið jólunum hvar sem er í heiminum, hvar myndir þú vera og af hverju?

Í Ölpunum á skíðum með fjölskyldunni. Afslappað, jólalegt og mikil útivera í fallegu umhverfi.

Trúir þú enn á jólaandann? Og hvað þýðir hann fyrir þig?

Jólaandinn fyrir mér er þegar skreytingar og jólaljós fara að koma í glugga og annarsstaðar. Jólalög fara að heyrast í útvarpinu, kveikt á jólatré bæjarins, ilmur af smákökum og almennt jólaskap í fólki. 

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Við erum að fara í skíðaferð í janúar og það er eitt og annað sem mig langar í fyrir ferðina. 

Ef þú gætir gefið eina gjöf sem myndi gleðja heiminn, hvað væri það?

Ást og friður.

Áramótaheit eða eitthvað sem þú ætlar að gera skemmtilegt á nýju ári?

Halda áfram að skapa minningar með fjölskyldunni, ferðast og njóta.